Palli löggubíll er frábær mynd fyrir alla fjölskylduna sem er sýnd á RIFF í ár. Þetta er falleg og hrífandi mynd með beittan boðskap og leiftrandi húmor. Að blanda húmor og boðskap heppnast ekki alltaf en í þessari tölvuteiknuðu mynd eru Norðmennirnir á heimavelli.
Rafbíll eða Hömmer?
Þemað er umhverfið okkar. Senan er sett í litlu þorpi í norður Noregi, sem er samfélag- og samtímaspegill áhorfandans. Aðalhetjan er Pelle Politibil (ætti auðvitað að heita Lási löggubíll á íslensku, hrynjandinnar vegna) sem eftir langa og dygga samfélagsþjónustu, umbreytist í rafmagnsbíl eftir hildarleik í óveðri. Við það er hann settur til hliðar og þarf sér til mikillar angistar að sjá nýjan, chic og kraftmikinn Hömmer koma í sinn stað í lögguteyminu.
Við tært fjallavatn, sem m.a. sér þorpinu fyrir drykkjarvatni, kynnist hann yndislega steiktum otri sem verður vinkona hans. Saman verða þau vitni af umhverfisspjöllum, þegar tveir viðskiptajöfrar (innrásarvíkingar) ryðjast inn á sviðið og hreinlega stela vatninu til að geta tappað því á flottar glerflöskur og sent langt út í heim, fyrir drjúgan skilding. Alvara málsins lýkst upp fyrir otrinum þegar hún leggur saman tvo og tvo: ef ekkert vatn, þá engir fiskar, þá engir otrar.
„Ef þetta væru alvöru glæpir …“
Vopnaður þekkingu á þvi sem er að eiga sér stað og spámannlegri rödd sem varar bæjarbúa við yfirvofandi hættu, lendir löggubíllinn í því sama og margir boðberar slæmra frétta. Honum er ekki trúað og hann er jaðarsettur enn frekar. Löggustjórinn er frekar pirraður:
„Ef þetta væru alvöru glæpir á borð við reiðhjólastuld og að keyra yfir á rauðu ljósi, væri þess virði að eyða mannskap í málið – en að stela vatni, nei.“
Alvöru umhverfisníðs sem og andvaraleysi samfélagsins eru gerð núanseruð og greinargóð skil í þessari barnamynd. Myndin er líka beinskeytt í gagnrýni sinni á yfirborðsmennsku græðgi og sýndarmennsku gagnvart því að standa með því sem maður sjálfur er. Og hún er hvorki tilgerðarleg né leiðinleg þegar hún ber þennan boðskap á borð.
Myndin um Palla löggubíl fær bestu meðmæli okkar.