Munið þið hvenær þið voruð síðast svöng? Reglulega svöng, hungruð hreinlega? Sem betur fer kemur það væntanlega ekki oft fyrir hjá okkur. Það er helst að við gleymum nestinu af og til og höfum af einhverjum ástæðum ekki tækifæri til að fá okkur eitthvað á vinnustaðnum eða í skólanum. Þegar það kemur fyrir mig verð ég þreytt og utan við mig en það lagast fljótt þegar ég kemst í almennilega næringu.
Sem betur fer erum við sjaldnast svöng lengi í einu. Flest okkar sem búum hér á Íslandi eigum þess kost að borða reglulega og eigum því sennilega erfitt með að ímynda okkur hvernig það er að fá ekki magafylli daglega. En samt vitum við að mjög margt fólk býr við allt aðrar aðstæður. Einmitt núna eru til dæmis 10 milljónir manns í Eþíópíu á barmi hungursneyðar og Hjálparstarf kirkjunnar hefur sent út áskorun til okkar sem eitthvað eigum afgangs að mæta þörfum hungraðs fólks.
Rut og fleira fólk að fylgja Guði Í Biblíunni lesum við um Rut ,,sem var svo sönn og góð” eins og segir í sunnudagaskólasöngnum. Í efni Æskulýðsdags þjóðkirkjunnar þetta árið er umfjöllun um ,,fólk að fylgja Guði” og er Rut ein af þeim en hin eru: hugrakka stóra systirin og leiðtoginn Mirjam, Daníel, bænamaðurinn knái, og María Magdalena sem nefnd hefur verið fyrsti kvenprestur kirkjunnar.
Rut er aðalpersóna samnefndrar bókar sem segir frá hjónum í Betlehem, þeim Naomí og Elímelek sem urðu að skilja allt sitt eftir og flýja heimaland sitt ásamt sonum sínum vegna hungursneyðar. Þau voru svo lánsöm að geta sest að á Móabssléttu þar sem nú er Jórdanía. Þar kvæntust synirnir heimakonum, þeim Orpu og Rut. En þegar Elímelek og synirnir báðir létust ákvað Naomí að snúa aftur heim til Betlehem enda var hungursneyðin þá afstaðin. Hún kvaddi Orpu en Rut var alveg staðráðin í að láta ekki tengdamóður sína snúa eina heim. Orðin hennar eru fræg: ,,Hvert sem þú ferð þangað fer ég, og hvar sem þú náttar þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð” (Rut 1.16).
Skortur Þetta er merkileg saga um fólk sem neyðist til að flýja heimaland sitt vegna hungurs og binst kærleiksböndum fólkinu í landinu sem býður það velkomið. Svo þegar aðstæður breytast, til hins betra í heimalandinu en hins verra þegar horft er til fjölskylduaðstæðna, snýr eftirlifandi fjölskyldumeðlimurinn, Naomí, heim aftur ásamt Rut, sem var dýrmæt gjöf gestgjafalandsins til Ísrael. Hún giftist Bóasi, frænda Naomí, og varð langamma Davíðs konungs og þar með formóðir Jesú sjálfs, hvorki meira né minna. Fyrst var það líkamlega hungrið sem rak Naomí og fjölskyldu hennar burt frá sínu heimalandi. Síðan er það félagslegur skortur sem knýr ekkjuna til að snúa aftur heim. Og úr skorti hennar spratt andleg auðlegð Ísraels.
Skortur okkar er svo margvíslegur. Þó við finnum ekki beinlínis til sárrar svengdar nema mjög sjaldan getur okkur verkjað af hungri á ýmsum öðrum sviðum. Kannski erum við einmana. Einmanaleikinn getur verið nístandi sár, jafnvel þótt við búum undir sama þaki og annað fólk. Kannski skortir okkur innri ró, missum svefn, streitan í yfirsveiflu. Ef til vill er skortur okkar tengdur missi á einhverju sviði, til dæmis atvinnu, einhvers sem okkur þykir vænt um, færni eða heilsu.
Sama hver skorturinn er er mikilvægast að átta sig á honum, horfast í augu við hann og helst að orða hann við einhvern sem getur hjálpað. ,,Meðan ég þagði tærðust bein mín,” segir í Davíðssálmi 32 sem er einn þeirra sálma sem við skoðum á biblíufræðslunni sem er hér í Grensáskirkju á miðvikudögum kl. 19-20. Finnum okkur einhvern að tala við. Þessi ,,einhver” kann að vera nær en þig grunar. Fólk er miklu oftar tilbúið að ljá okkur eyra en við höldum. Þú gætir líka verið þessi ,,einhver” gagnvart vini eða kunningja sem þarfnast þess að tala um sín mál. Og svo er Guð bara ,,einni bæn í burtu” eins og stundum er sagt. ,,Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga, ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér,” segir Guð í Sálmi 32.
Margt smátt Í guðspjalli dagsins, Jóh 6.1-15, heyrum við af ungum dreng sem var þessi ,,einhver” sem var tilbúinn að gefa af sér til að mæta skorti annarra. Þegar mannfjöldinn tók að safnast að Jesú á eyðilegum stað vissi hann sem var að allt þetta fólk þyrfti að fá að borða. Vinur hans, Andrés, fann þá pilt í hópnum sem var með nesti, fimm byggbrauð og tvo fiska. Þegar við vorum að ræða guðspjallið í hópi guðfræðinga í vikunni sem leið minnti ein í hópnum á forsjálu mömmuna sem nestaði drenginn sinn til fararinnar og stuðlaði þannig að mettun fjölda fólks. Það var Jesús sem gerði kraftaverkið með því að þakka Guði fyrir matinn og skipta honum síðan þannig að allir fengu fylli sína – og samt varð afgangur sem safnað var saman. Ekkert mátti fara til spillis; það er gamli góði hugsunarhátturinn sem nútíminn þarf sannarlega að taka til fyrirmyndar.
Þetta er góð lýsing á framúrskarandi samvinnu Guðs og fólks. Við getum verið þessi drengur sem ber fram sinn litla skref, reiðubúin að deila með öðrum því sem við höfum áður þegið í móður- og föðurarf. Það gerði Rut og hennar heimafólk á Móabssléttu. Við getum verið Andrés sem finnur leiðir til að koma hjálpinni á framfæri. Við getum gengið skrefinu lengra, eins og Rut gerði líka, gengið með fólki sem líður skort á ýmsum sviðum lífsins. Það getum við gert af því að við höfum áður þegið. Sýnum þakklæti, Guði og góðu fólki, og nýtum þakklætið til að veita gjöfunum áfram. Handleiðsla Guðs ,,Hafðu hugfast hvernig Drottinn, Guð þinn, leiddi þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni,” segir í lexíu dagsins úr 5Mósebók (8.2-3). Hann Kristján Ágúst, framkvæmdastjóri ÆSKR sem er með okkur hér í dag, benti á það í prédikunarklúbbnum í liðinni viku að hugtakið ,,fjörutíu ár” þýðir í raun mjög langur tími. Alla ævi, gætum við e.t.v. sagt. Hafðu hugfast hvernig Guð hefur leitt þig alla ævi og nært þig á öllum sviðum. Ef það er þín reynsla, miðlaðu þá þessari næringu til þeirra sem þurfa á henni að halda. Ef þú hefur ekki fundið slíka handleiðslu Guðs, kemur ekki auga á hana þegar þú horfir til baka, staldraðu þá við og leyfðu friði og vongleði ásamt kærleika Guðs að streyma inn í hjarta þitt. Og Guð mun vel fyrir sjá.
5Mós 8.2-3 Róm 5.1-5 Jóh 6.1-15