Ganga pílagrímsins

Ganga pílagrímsins

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
24. desember 2002
Flokkar

Guðspjall: Lúk. 2.1-14

Um 250 eftir Kristsburð hreyfði guðfræðingurinn Origenes þeirri hugmynd að sérhver maður þyrfti að eiga möguleika að sjá hellinn, eða útihúisð þar sem að Kristur kom í heiminn og sömuleiðis staðinn þar sem að hann var lagður í jötu. Það var svo fyrst árið 325 eftir Krist að Konstantínus keisari hóf að reisa fæðingarkirkjuna í Betlehem sem enn stendur. Hellirinn undir henni varð að grafhvelfingu kirkjunnar. Það var svo árið 1717 sem sett var gyllt stjarna á marmaragólf staðarins þar sem sagt er að jatan eigi að hafa staðið og er hún þar enn þann dag í dag.

Árið 1984 fór ég í pílagrímsferð til landsins helga Ísraels og heimsótti þar m.a. fæðingarkirkjuna í Betlehem. Það var mögnuð upplifun að ganga til kirkjunnar og stíga þar inn fyrir dyr, upplifun sem fátækleg orð ná vart að lýsa svo vel fari. Sem ég stóð á torginu fyrir framan kirkjuna þá virti ég fyrir mér lúnar gangstéttarhellurnar og hugsaði til pílagrímanna sem á undan mér höfðu gengið til þessa helgasta staðar kristninnar í heimi hér. Það var sem steinarnir hrópuðu er þeir minntu mig á allar þær þrár og vonir sem pílagrímarnir báru með sér þá er þeir gengu þar inn fyrir dyr. Ég varð að beygja mig töluvert inn undir gættina til þess að komast inn í helgidóminn. Þar inni var töluvert rökkur, reykelsisilmur í lofti sem er tákn fyrir bænirnar sem beðnar hafa verið og stíga upp til Guðs. Dökkbrúnt timburgólf blasti við augum sem bar þess einnig verulegt merki að margir hefðu um það gengið á undan mér. Engir kirkjubekkir eða stólar voru sjáanlegir í rökkrinu sem vakti furðu mína. Hátt var til lofts og nokkuð vítt til veggja. Brúnir timburbitar lágu um loftin og millii þeirra voru ljósahjálmar hér og þar sem vörpuðu daufri birtu yfir umhverfið. Allt var svo kyrrt og hljótt. Samferðamenn mínir hljóðnuðu ásamt mér fullir lotningar gagnvart því sem skilningarvitin skynjuðu. Þögul gengum við hægum skrefum inn eftir timburgólfinu í átt að kór kirkjunnar.Í minningunni var þar engin forláta altaristafla af fæðingu frelsarans eða forláta málmar sem gljáðu svo að skar í augu. Nei það var frekar sorti sem mætti fyrst augum mínum og ein þrjú altari sem tilheyrðu þremur kirkjudeildum. Þegar nær dró tók þó að birta til því að þar brunnu ótal bænakerti sem pílagrímar höfðu kveikt og ég hugsaði þá um stef úr jólasálminum góða.: “Gleð þig særða sál” þar sem segir: “Kveikt er ljós við ljós, / burt er sortans svið”. Það er ekki laust við að ég hafi orðið hrærður við tilhugsunina. Ég meðtók birtuna frá kertahafinu í hugann og hjartað og fylgdi samferðafólki mínu eftir og gekk niður mjög máðar steintröppur undir kór kirkjunnar inn í hvelfingu þar sem talið er að fjárhúsið hafi forðum staðið. Þar hrópuðu steinþrepin sem aldrei fyrr og hjarta mitt tók undir gleðisönginn. Ég var kominn að jötu lausnarans. Hvelfingin var svo lítil að fáir komust þar fyrir í einu. Þar var lítið látlaust altari út undir vegg og þar undir var silfurstjarna í gólfi sem pílagrímarnir lutu niður að og kysstu. Einn samferðamanna minna tók upp biblíuna sína og las fyrir okkur jólaguðspjallið á íslensku sem lifnaði fyrir hugskotsjónum sem aldrei fyrr er hann hóf að lesa: “En það bar til um þessar mundir”. Þögul og auðmjúk hlýddum við á lesturinn og reykelsisilmurinn fyllti vitin. Að afloknum lestri jólaguðspjallsins kraup ég sérlega hrærður og klökkur niður að stjörnunni og kyssti hana. Ógleymanleg er minning sú.

Á þessu aðfangadagskvöldi erum við pílagrímar á ferð. Það er langur tími frá fæðingarkirkjunni sem reist var á þeim stað sem talið er að fjárhúsið hafi staðið. Öldum saman hafa pílagrímar vitjað þessa staðar, ekki síst um jólin í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Það gerum við nú hér í Húsavíkurkirkju þegar hin fagnaðarríka stund er runnin upp og við opnum hugi okkar og hjörtu fyrir orði Guðs sem varð hold og býr með okkur fullur náðar og sannleika. Og við horfum til altarisins sem er tákn Kristsi í kirkjunni, ekki altaristaflan eða helgimynd, heldur altarið sem er í austri en þar kemur sólin upp og rekur burt myrkrið. Við sjáum altarið sem táknmynd fyrir jötuna þar sem frelsarinn var lagður lágt og sem gröfina þar sem hann var greftraður og reis upp. Og dúkurinn á altarinu er tákn reifanna sem Jesú barnið var vafið og líndúkanna sem hann var sveipaður látinn.

Kertaljósin á altarinu eru lofgjörð til Krists og tákn návistar hans. Þau segja að Drottinn Jesús Kristur er mitt á meðal okkar, lifandi í kirkju sinni. Við þekkjum öll merkingu dúkaðs borðs. Það táknar samfélag, hátíð, veislu, mannfagnað. Þegar Jesús mataðist með þeim sem taldir voru útskúfaðir úr samfélagi Guðs þá var það máttugt tákn um fyrirgefningu Guðs. Allt þetta felst í tákni því sem altarið er í kristinni kirkju.

Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt að jötu lausnarans eins og ég gerði forðum. Þessi stund í helgidóminum ætti því að snerta okkur með sérstökum hætti í ljósi táknmáls altarisins. Því legg ég til að við berum ljósið á altarinu á táknrænan hátt heim með okkur á eftir og setjum það á veisluborðið með því að kveikja þar á kerti því að sannarlega er Kristur hluttakandi í veislumáltíð okkar.

Ljósið er okkur aldrei táknrænni veruleiki en á jólum þegar lengja tekur dag á ný. Við skulum minnast þess í þessu sambandi að kirkjufeðurnir kölluðu kristna menn börn sólarupprásarinnar. Þessi tenging styrktist enn er kristnir menn hertóku hina heiðnu sólarhátíð og gerðu að fæðingarhátíð frelsarans. Í kirkjunni horfum við mót austri til birtunnar, upprisunnar og lífsins eilífa, til Betlehemsstjörnunnar, til morgunstjörnunnar Jesú Krists

Í þessari messu á aðfangadagskvöld og í sérhverri messu eru við að bjóða Guði inn í líf okkar. Við erum að taka á móti Guði, taka á móti því heilaga, góða, fagra og fullkomna. Af því að við viljum láta það fylla líf okkar og heim. Það kostar þolinmæði að temja sér það, að skynja návist Guðs, að öðlast næmi á návist hans og orð. En ég held að það sé ekki til sá einstaklingur sem ekki finnur fyrir heilagri návist Guðs í helgidómi hans á jólum, finnur fyrir jákvæðum og heilnæmum áhrifum sem snerta hjartað. Á aðventunni undirbúum við hjörtu okkar og fyllumst heilagri eftirvæntingu sem nær hámarki þegar jólahátíðin er hringd inn og kirkjan ómar öll af fagnaðarríkum söng, lofgjörð til Guðs, lögin og textarnir hafa lifað með okkur svo lengi sem við munum. Þetta er ynidsleg stund, heilög stund. Og við pílagrímarnir hugleiðum jólaguðspjallið dýrmæta og boðskap þess sem er sígildur frammi fyrir altarinu, jötu Krists.

Frásögn jólaguðspjallsins er listilega saman sett af Lúkasi guðspjallamanni, innblásin og myndrík eftir því, studd sögulegum staðreyndum en Ágústus var keisari um þessar mundir og Kýreníus var landsstjóri á Sýrlandi. Auk þess stóð yfir manntal sem keisarinn hafði fyrirskipað. Alþýðufólkið María og Jósef fóru því til Betlehem frá Nasaret til að láta skrásetja sig. María hugleiddi á vegferð sinni þangað það sem engillinn hafði kunngjört henni, að barnið sem hún bar undir belti væri sonur Guðs. Ábyrgir hirðar sem gættu hjarðar sinnar sáu dýrð Guðs brjótast fram í næturmyrkrinu á Betlehemsvöllum og þeir heyrðu fyrstir fagnaðarríku tíðindin: “Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs og hafið þetta til marks. Þér munuð finna ungbarn, reifað og lagt í jötu” Og þeir fóru síðan og fundu ungbarniið í jötunni eins og engillinn hafði talað um.

Við erum í fótsporum hirðanna sem voru fyrstu pílagrímarnir frammi fyrir jötunni. Þeir fóru frá jötunni og sögðu öðru fólki frá því sem fyrir þá hafði borið. Við gerum það einnig með því að lesa eða hlýða á jólaguðspjallið heima fyrir áður en sest er að veisluborði í kvöld. Við gerum það einnig með því að leitast við að láta kærleiksboðskap jólanna móta dagfar okkar og viðmót í garð þeirra sem okkur standa næst og einnig þeirra sem fjærst okkur standa. Við kristnir menn erum börn sólarupprásarinnar, ljóssins, dýrðarinnar, lífsins eilífa. Á aðventunni og á jólum finnum við meira en endra nær til samkenndar og samúðar með þeim sem eiga erfitt uppdráttar. Með ýmsum hætti veitum við jólaljósinu til þeirra því að við vitum að gjafmildin er göfugri en eigingirnin og að auðmýktin er meiri en hrokinn. Það er stundum sagt að gott sé að sigra illt með góðu því að fyrirgefningin er merkilegri og heillavænlegri en hefndin. Hún felur í sér lausn og frelsi. Þungu fargi er stundum lyft af okkur þegar okkur lærist að fyrirgefa og taka á móti fyrirgefningu, taka á móti kærleika jafnvel þótt okkur finnst við ekki verðskulda hann. Kristilegt siðgæði okkar þarf að bera þess merki að við séum líkt og bréf Krists sem aðrir geta lesið og uppbyggst af í trú, von og kærleika til Krists og samferðamannanna. Guð gefi okkur til þess náð að framganga sómasamlega sem börnin hans á hverjum tíma í landi náttmyrkranna og bera jólaljósið til sem flestra.