Sumir aftursætis farþegarnir mínir eru mjög kurteisir og segja ekkert þegar þeir neyðast til að hvíla fæturna á grjótinu. Aðrir geta ekki á sér setið og spyrja hvað þetta sé að gera þarna í bílnum.
Þegar fólk spyr þá svara ég ýmist sannleikanum samkvæmt, að ég noti þessa steina stundum í messum í Borgarholtsskóla eða hér í kirkjunni og því hef ég verið með þá í bílnum. Eða að ég segi: „Ég nota þessa steina til að grýta fólk sem mér finnst leiðinlegt“. Þetta svar er að sjálfsögðu ekki satt og ég nota það þegar ég vil vera fyndin og aðeins við fólk sem ég treysti að þekki mig svo vel að það viti að ég muni ekki grýta fólk.
Því ég grýti ekki fólk.
Eða hvað?
Ja, ég kasta í það minnsta ekki steinum í fólk en ég dæmi fólk og því má kannski segja að ég sé að kasta steinum. Ég hitti oft fólk sem mér þykir leiðinlegt eða sem mér líður illa nálægt. Ég tala ekki alltaf vel um fólk sem gerir mig óörugga eða sem mér einfaldlega líkar ekki við.
Er ég þá ekki að kasta steinum þó ekki sé það bókstaflega?
Ég hlustaði á fyrirlestur um daginn með blaðamanni og rithöfundi sem heitir A. J. Jacobs. Hann leggur stund á alls kyns félagslegar rannsóknir þar sem hann notar sjálfan sig sem tilraunadýr. Ein rannsókn sem hann gerði nýlega gekk út á að kanna hvort hægt væri að lifa bókstaflega eftir reglum Biblíunnar í eitt ár.
Áður en hann byrjaði aflaði hann sér fjölda Biblíuþýðinga og lagðist yfir þær allar og tók út reglurnar, eða lögin, sem voru yfir 700 talsins. Síðan ákvað hann að lifa bókstaflega eftir þeim öllum.
Þetta var sannarlega ekki auðvelt verkefni því hann þurfti t.d. að ganga í fötum úr ákveðnum efnum, hann mátti ekki klippa horn skeggs síns (hann vissi ekki hvar hornin voru svo hann sleppti því bara að raka sig í eitt ár til öryggis) og hann mátti ekki sitja á sama stól og kona sem hafði á klæðum hafði setið á.
Það sem reyndist honum þó erfiðast af öllu var tvennt og bæði atriðin tengjast guðspjalli dagsins. Annað bókstaflega en hitt óbeint.
Fyrra atriðið snérist um allar þessar “litlu syndir“ sem við hugsum ekki alltaf svo mikið um svona dags daglega, eins og að dæma náungann, hugsa illa til þeirra sem við þolum ekki, tala illa um fólk eða að bregða fyrir okkur hvítri lýgi. Ég held að þetta sé eitthvað sem við þekkjum öll. Hann komst reyndar að því eftir svolítinn tíma að það var auðveldara að losa sig við þessa leiðu ávana eftir að hafa tekið meðvitaða ákvörðun um það. Og eftir árið var hann farinn að upplifa sig sem svolítið betri manneskju vegna þess að hann hafði meðvitað æft sig í því að hugsa og tala vel um annað fólk og sleppa því að dæma aðra.
Hitt atriðið voru hlutir sem erfitt er að framfylgja á vesturlöndum á 21. öldinni, eins og það að grýta fólk sem hefur drýgt hór. Þ.e. haldið framhjá maka sínum. Hann sagðist einu sinn hafa fengið „tækifæri“ til þess að grýta mann fyrir hórdóm. Maðurinn gekk upp að honum og spurði hvers vegna hann væri svona undarlega klæddur. Hann útskýrði fyrir honum hvers vegna, að hann hefði ákveðið að lifa bókstaflega eftir reglum Biblíunnar í eitt ár. Maðurinn sagði þá við hann: „Þú verður þá að grýta mig því ég hef drýgt hór“. „Nú er komið að því“ hugsaði rithöfundurinn og fann fyrir steinunum sem hann hafði gengið með í vasanum einmitt til þess að nýta í þess konar tilviki (þetta voru reyndar mjúkir steinar sem ekki meiða). Hann tók upp lófafylli af steinum úr vasanum en um leið og maðurinn (sem var talsvert reið manneskja) sá það greip hann steinana og kastaði þeim framan í rithöfundinn. Rithöfundurinn hugsaði hratt: „Vá! Nú get ég slegið tvær flugur í einu höggi og bæði grýtt mann fyrir að hafa haldið framhjá og nýtt, auga mót auga regluna úr Gamla testamentinu“. Og hann tók það sem eftir var af steinunum og kastaði í manninn.
Það er þó sannarlega ekkert grín að kasta steinum í fólk og því miður var þessi aðferð við að drepa fólk, ekki aðeins við lýði á Biblíutímum heldur lifir góðu lífi enn í dag í ákveðnum löndum og samfélögum. Þessi aðferð er einmitt enn notuð til þess að refsa fólki, oftar konum en körlum, fyrir framhjáhald. Þetta er skelfileg aðferð og óréttlát lög og það hlýtur að vera skylda okkar allra að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að berjast gegn þeim.
Ég nota vissuleg ekki steinana í bílnum mínum til þess að kasta í fólk. En ég er samt alltaf að kasta steinum og mig langar til að hætta því. Og ég held að ég sé ekki ein um það.
Mig langar nú að færa þér, Sigurbjörg Herdís, þennan stein til þess að minna þig á að hugsa vel til fólksins sem þú mætir á lífsleiðinni og að gæta þín á að dæma ekki fólkið í kringum þig, heldur láta Guð um það. Þessi boðskapur á erindi við okkur öll og ég hvet þig til þess að ná þér í stein á leiðinni út úr kirkjunni í dag til þess að minna þig á að dæma ekki. Ég tek þennan stein með mér heim. Og hann fer ekki í aftursætið á bílnum mínum. Amen.