Nú er vertíð hjá hjálparsamtökum. Fólk streymir til þeirra til að fá mat fyrir jólin. Þetta er ekkert nýtt en það virðist vera þannig að ýmsir trúa ekki að til sé fólk sem ekki getur lifað af engu eða svo gott sem. Engin nöfn eru nefnd en bent á valdhafa til sjávar og sveita!
KartöflurNýlegur sjónvarpsþáttur sem sýndur var í ríkissjónvarpinu um láglaunafólk og öryrkja var trúverðugur og sýndi hver raunveruleikinn er hjá þeim sem búa við kröpp kjör. Það er ekki óregla á þessum heimilum og ekki farið illa með peninga. En fjármunir eru nauðsynlegir til alls. Þeir sem eiga mikið geta alls ekki skilið þetta. Það koma alltaf meiri peningar sagði Edit Piaf í samnefndu leikriti. En þeir komu þó ekki endalaust en þar var þeim eytt meðan eitthvað var til. En Piaf var nú einu sinni listakona.
Af hverju trúa valdhafar ekki að til sé efnalítið fólk? Af hverju eru niðurgreiðslur á lyfjum sífellt að minnka og af hverju hækkar persónuafslátturinn ekki, að minnsta kosti í takti við hækkandi verðlag? Spyr sá sem ekki veit og er valdalaus.
Það er búið að skrifa marga dálksentimetra um þessi mál í fjölmiðlum en það hefur engin áhrif og svo verður vafalaust um þessa sentimetra. Hvað gengur valdhöfum til? Að því er virðist að búa til lágstétt sem fær lítið og verður á lágum launum eða litlum bótum allt sitt líf. Svo erfir næsta kynslóð lágu launin því þrátt fyrir allt kostar menntun hér á landi. Erfitt er að vinna nægjanlega með skóla ef launin eru lág og foreldrar geta ekki styrkt mann til náms. Efnalítið fólk reynir að finna leiðir til að komast betur af. Oft er talað um að fólk reyni að skrökva til að fá aðeins betri kjör, hærri styrki eða meiri matargjafir. Það er freistandi að geta öðlast aðeins betri afkomu. Skyldi það vera að efnameiri skrökvi „stærra“ en hinnir efnalitlu? Það þarf ekki annað en að minna á samskipti olíufélaganna. Svo gefur hægri hendi styrki en hin höndin veit ekkert um það. Slíka gjafara kallaði Kristur hræsnara. Þó er til fyrirmyndar að gefa af nægtum sínum ef það skaðar ekki að náungann.
Það er yndislegt að þiggja gjafir. Þær eiga hins vegar ekki að koma í stað þess að njóta eðlilegra lífskjara. Ég tala nú ekki um í okkar „velferðar- og jafnréttis“-samfélagi.