Þjóðkirkja á þröskuldi IV

Þjóðkirkja á þröskuldi IV

Nú skulu þær ólar ekki eltar frekar en vikið að öðru atriði sem kann að skipta miklu fyrir framtíð íslensku þjóðkirkjunnar: Kann að vera að sjálfsskilningur þjóðkirkjunnar eða sjálfsmynd sé ekki nægilega skýr? Án slíks skilnings á sjálfri sér og stöðu sinni er ólíklegt að þjóðkirkjunni takist að standa í lappirnar í þeim sviftivindum sem allt bendir til að séu framunda.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
02. mars 2018

Í fyrri pistlum undir þessari fyrirsögn hefur því verið haldið fram að við næstu kynslóðaskipti eða eftir tvo til þrjá áratugi sé líklegt að tengsl þjóðkirkjunnar við þjóðina taki gagngerum breytingum sem stefnt geti núverandi þjóðkirkjuskipan í tvísýnu. Einnig hefur verið leitað sögulegra skýringa á þessari þróun og bent á hvernig hugsanlega megi andæfa henni með breytingum á skipulagi og starfsháttum þjóðkirkjunnar einkum í mesta þéttbýlinu.

Í þessum lokapistli verður staldrað við tvö atriði sem skipta miklu um samband kirkjunnar við þjóðina í nánustu framtíð: trúarathafnir á ævihátíðum og þá sjálfsmynd sem kirkjan velur sér.

„Hinn kirkjulegi siður“
Um langa hríð hefur kristnihald á Íslandi og einkennst af því að eina lítill hluti þjóðarinnar tekur reglulegan þátt í guðsþjónustuhaldi kirkjunnar. Með reglulegri þátttöku er oft átt við að einstaklingur sæki að jafnaði guðsþjónustu einu sinni í mánuði eða oftar. Í þessu skera Íslendingar sig ekki frá öðrum vestrænum þjóðum. Það sem frekar einkennir íslenskar aðstæður að hingað til hefur óvenju hátt hlutfall þjóðarinnar borið börn sín til skírnar miðað við aðrar vestrænar þjóðir. Sama máli gegnir um fermingar, hjónavígslur og greftranir. Nú eru þessar athafnir á lífsleiðinni ugglaust breiðasti snertiflötur þjóðkirkjunnar við þjóðina. Þar kemur eðli og hlutverk hennar sem þjóðkirkju einnig skýrast í ljós en eins og kunnugt er standa þessar athafnir öllum til boða án tillits til trúar eða aðildar að þjóðkirkjunni.

Víða erlendis kallast þessar athafnir og þátttaka fólks í þeim „kirkjulegur siður“. Trúarfélagsleg sérstaða Íslands felst í því að hér hefur hann haldist órofinn. Víðast erlendis hefur hann aftur á móti hrunið eða leyst upp líkt og gerst hefur með þátttöku í almennu guðsþjónustunni. Hrynji „hinn kirkjulegi siður“ hér mun þjóðkirkjan einangrast á skömmum tíma og verða minnihlutakirkja.

Er upplausn hafin hér?
Margt bendir raunar til að upplausn kirkjusiðarins sé þegar hafin. Nafngjafarathafnir án þátttöku kirkjunnar hafa í einhverjum mæli rutt sér til rúms. Hlutfall þeirra ungmenna sem velja borgaralega fermingu fer vaxandi samhliða því að þær eru í boði á fleiri stöðum á landinu en verið hefur. Hlutfall þeirra sem velja kirkjulega hjónavígslu fer tæpast hækkandi. Borgaralegar útfarir hafa einnig komið til sögunnar.

Hér hefur verið tekið loðmullulega til orða og engar tölur nefndar lýsingunni til staðfestingar. Það er enda ekki mögulegt þar sem engar upplýsingar eru fyrir hendi. Þar sem hjónavígslan leiðir til lögformlegs sambands hjónaefnanna eru þær skráðar skilmerkilega og því auðvelt að nálgast opinberar tölur um þær. Um hinar athafnirnar gildir allt öðru máli. Þjóðkirkjan er einkennilega hirðulaus um að halda tölulegum upplýsingum til haga og vinna úr þeim á kerfisbundinn hátt. Þetta leiðir til þess að enginn veit hvaða þróun er nú uppi varðandi kirkjusiðinn. Það er stóralvarlegt mál vegna þess hve mikilvægu hlutverki hann gegnir við að viðhalda stöðu þjóðkirkjunnar meðal þjóðarinnar. Það þarf að efla mjög kirkjurannsóknir til að skýra mynd okkar af kirkjusiðnum og breytingum á honum.

Hér hefur þó aðeins verið staldrað við aðra hliðina á upplausn kirkjusiðarins, þ.e. hina tölfræðilegu. Mergurinn málsins er að þessi þróun hefur aðra og áhugaverðari hlið. Stöðugt fleiri sem þó leita þjónustu kirkjunnar á merkisdögum mannsævinnar virðast eiga erfitt með að finna sig heima í athöfnunum og vilja sveigja framkvæmdina að meira eða minna leyti að eigin þörfum. Þetta er eðlilegt miðað við aðstæður í nútíma neyslusamfélagi. Þjóðkirkja virðist á hinn bóginn ekki hafa megnað að mæta þessari tilhneigingu út frá neinni markaðri heildarstefnu. Margt bendir til að hún komi fram sem notendavæn markaðskirkja við hjónavígslur. Við útfarir virðist hún á hinn bóginn spyrna við fótum líkt og að útförin sé sakramenti eða sálumessa. — Hér kunna vissulega að vera felldir sleggjudómar en sem fyrr skortir kirkjurannsóknir. Það eru ekki til nein gögn til að staðfesta eða hrekja þá stórkarlalegu mynd sem hér hefur verið skissuð.

Hér skal því staðfastlega haldið fram að þjóðkirkjan sé þegar stödd á þröskuldi þegar um „hinn kirkjulega sið“ er að ræða og að skammt kunni að vera í upplausn hans eða hrun og að það kunni að gerast mjög hratt þegar það hefst fyrir alvöru. Þá verður líka erfitt að sporna gegn þróuninni enda vantar hér öll tæki til þess. Þar er ekki síst átt við tölfræði sem sýnir hvaða breytingar eru í gangi, vitneskju um hvaða óskir þjóðin hefur til kirkju sinnar þegar um ævihátíðir er að ræða og loks stefnu um hvernig kirkjan vill og getur brugðist við þeim.

Það skeytingarleysi sem virðist uppi um þróun kirkjusiðarins og hér hefur verið rakið er þeim mun alvarlegra þegar þess er gætt að einmitt þar er að finna uppistöðuna í því samtali sem þjóðkirkjan verður að eiga við þjóðina — eigi þjóðkirkjuskipanin að haldast.

Sjálfsmyndarkreppa?
Hér og í fyrri pistlum hafa verið látnar í ljós áhyggjur yfir áframhaldandi tengslum kirkju og þjóðar. Nú skulu þær ólar ekki eltar frekar en vikið að öðru atriði sem kann að skipta miklu fyrir framtíð íslensku þjóðkirkjunnar: Kann að vera að sjálfsskilningur þjóðkirkjunnar eða sjálfsmynd sé ekki nægilega skýr? Án slíks skilnings á sjálfri sér og stöðu sinni er ólíklegt að þjóðkirkjunni takist að standa í lappirnar í þeim sviftivindum sem allt bendir til að séu framunda.

Í kirkjulegri umræðu heyrist því oft fleygt að úti í samfélaginu ríki megn þekkingarskortur um stöðu þjóðkirkjunnar og að umræða um þau mál sé því þýðingarlaus. Hér skal því haldið fram að innan þjóðkirkjunnar sjálfrar skorti tilfinnanlega skilning á núverandi stöðu hennar til að taka umræðuna um framtíðina.

Stundum heldur kirkjufólk því t.a.m. fram að aðskilnaður ríkis og kirkju hafi þegar verið gerður. Þetta er rangt. Í löndum þar sem aðskilnaður hefur átt sér stað er ekki að finna sérstök stjórnarskrárákvæði um stöðu einnar ákveðinnar kirkju sem þjóðkirkju. Þar eru heldur ekki í gildi yfirgripsmikil, veraldleg lög um stjórn og starfshætti þjóðkirkju þótt nauðsynlegt kunni að vera að hafa lög um stöðu meirihlutakirkjunnar. Þar skrifar þjóðhöfðingi ekki upp á embættisbréf biskupa og þar ákveða ekki kjararáð laun kirkjulegra starfsmanna svo nokkuð sé nefnt.

Á líkan máta er því oft haldið fram að þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag. Þetta orkar a.m.k. tvímælis þótt ákvæði þessa efnis sé vissulega að finna í núgildandi þjóðkirkjulögum. Sannleikurinn er þó sá að í landinu starfa á fimmta tug skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga. Með einni undantekningu standa þau öll fyllilega undir því að geta talist sjálfstæð. Undantekningin er einmitt þjóðkirkjan. Hún er ekki sjálfstæð í sama mæli og hin trúfélögin. Það sýna núgildandi þjóðkirkjulög svart á hvítu að 1. mgr. 1. gr. laganna undanskilinni en hún er líka í mótsögn við þjóðkirkjulögin að öðru leyti og þjónar aðeins sem eins konar markmiðsgrein.

Raunhæfast virðist að líta svo á að við núverandi aðstæður sé íslenska þjóðkirkjan opinber stofnun vissulega af sérstöku tagi enda er hlutverk hennar og köllun frábrugðin verkefnum annarra stofnana hins opinbera.

Umræðu er þörf
Hér skal að lokum fullyrt að staða þjóðkirkjunnar í framtíðinni velti í grundvallaratriðum á því hvaða birtingarmynd þjóðkirkjan velur sér og hvernig henni tekst að útfæra hana hvað varðar löggjöf, fjárhagsleg tengsl við ríkisvaldið, skipulag og starfshætti.

Vill þjóðkirkjan freista þess með öllum ráðum að halda velli sem opinber trúarstofnun og þá hvers vegna? Vill hún í ríkari mæli hasla sér völl innan þriðja geira samfélagsins í hópi annarra frjálsra almannahreyfinga og félagasamtaka og taka þannig þátt í að auka félagsauð samfélagsins? Eða vill hún leggja rækt við hlutverk sitt og eðli sem trúfélag í hópi annarra trú- og lífsskoðunarfélaga í fjölmenningarsamfélaginu? Ugglaust er um fleiri kosti að velja en hér verður látið staðar numið. — Á hvaða hest er vænlegast að veðja?

Þjóðkirkjan stendur nú frammi fyrir því ögrandi verkefni að spyrja hvernig hún þjóni köllunarhlutverki sínu best með komandi kynslóðum. Þar ríður á að hún þekki núverandi stöðu sína og þá þróun sem uppi er og getur breytt stöðunni á skömmum tíma. Það skiptir líka máli í hvaða átt hún vill þróast. Umfram allt verður hún að búast þannig í stakk að hún geti staðið sjálfstæð og axlað óskoraða ábyrgð á eigin málum í náinni framtíð. Forræði hennar er hvergi betur komið en í höndum hennar sjálfrar. — Þess þarf að gæta við endurskoðun löggjafar og starfsreglna um þjóðkirkjuna en ekki síður þegar um tekjustofna hennar og fjárhagslegt sjálfstæði er að ræða.