Ljósið eilífa lítum vér, ljóma um gjörvallan heim sem ber. Náttmyrkri ljósið lýsir í ljóssins við gjörumst börn í því.
Gleðileg jól – yndis- og fagnaðarrík hátíð gengin í garð, Guði séu þakkir fyrir ljós jólanna og alla fegurðina og friðinn sem fylgir. Við staðnæmumst um stund – allt verður hljótt, umhverfið allt verður öðruvísi, ilmur í lofti, börnin full eftirvæntingar, margir pakkar bíða heima – jólin eru komin og allt fær yfir sig svo einstakan hátíðarblæ, þetta kvöld sem er engu öðru kvöldi líkt.
Það gerðist í þorpi á landsbyggðinni fyrir allmörgum árum. Þar var venja að setja upp helgileik jólaguðspjallsins á aðventunni í kirkjunni eins og við gerum hér á aðventunni. Öll börn skólans tóku þátt í helgileiknum og komu fram í búningum og það var alltaf mikill spenningur hver fengi að leika hvern og sumir þráðu lengi að fá að leika eitthvert hlutverkið. Svo var það eitt árið. Það muna allir í þorpinu eftir helgileiknum það ár. Sumir segja að helgileikurinn hafi verið eyðilagður, aðrir segja að hann hafi aldrei verið betri og brosa hlýlega af minningunni.
En þetta ár var í skólanum drengur sem kallaður var Valli. Valli var ekki með sama andlegan þroska og jafnaldrar, en stór og sterkur strákur, ósköp hjartahlýr og góður, hvers manns hugljúfi og alltaf þegar einhver átti bágt eða einhverjum var strítt, þá tók Valli alltaf stöðu með þeim minna mátti sín. Það voru alltaf börnin í 4. bekk sem fengu að leika aðalhlutverkin í helgileiknum og þegar Valli var í 4. bekk þá hlakkaði hann mikið til að taka þátt. Hann hafði lengið vonað að hann fengi að leika vitring, því hann langaði svo mikið að gefa Jesúbarninu gjöf, það fannst honum að hlyti að vera langskemmtilegast. En Valli fékk ekki að leika vitring. Hann, svona stór og með sína hvellu háu rödd, þótti heldur ekki passa í englakórinn, og ekki til að gefa barninu gull, reykelsi eða myrru - en leikstjórinn valdi hins vegar Valla til að segja eina mikilvæga setningu í leiknum, hann taldi hann vel færan um að segja hana hátt og snjallt svo vel heyrðist og þar með var Valli valinn til að leika hlutverk gistihúseigandans.
Og svo hófst helgileikurinn, allt fallegt og vel undirbúið og María og Jósef birtust eftir langa ferð frá Nasaret til Betleham og María komin að því að fæða barn. Þau bönkuðu á dyr gistihússins ferðalúin - Valli gistihúseigandi kom til dyra. Jósef spurði hvort hægt væri að fá herbergi. Valli hrópaði hátt og snjallt svo allir heyrðu: Nei hér er ekkert rúm. Jósef sagði þá: Ég held hún María heitmey mín fæði barnið í nótt og hún verður að fá húsaskjól. Valli hrópaði einbeittur aftur: Nei, hér er ekkert rúm. Jósef bað : Góði maður er einhvers staðar hægt að komast í skjól, þó ekki væri nema í fjárhúsið þitt? Jú, sagði Valli, þið megið fara þangað. Jósef og María þakka honum. En allt í einu horfir Valli á þau, horfir í andlit þeirra og augu í stað þess að horfa með ströngum og stífum svip fram í kirkjuna.
Og á því andartaki þegar hann leit þau, breyttist svipur hans algerlega, harkan hvarf og nú hrópaði Valli og var mikið niðri fyrir, gott ef ekki mátti sjá tár blika í hvarmi: Nei bíðið. Komið aftur, ég lána ykkur bara rúmið mitt, Jesúbarnið má fæðast í rúminu mínu. Og nú brosti Valli út að eyrum - og þau öll sem í kirkjunni voru það kvöld fóru að skellihlæja.
Það varð eiginlega ekkert meira úr helgileiknum – það sem á eftir kom féll algerlega í skuggann, Valli breytti framvindunni svo gjörsamlega. Sumir sögðu að Valli hefði eyðilagt kvöldið, en flestir höfðu bara gaman af og enn í dag man fólk í þessu þorpi alltaf eftir Valla sem gistihúseiganda sem breytti öllu. En barnið fæddist í fjárhúsi, því ekki var rúm fyrir það í gistihúsinu. Fjárhús varð umgjörð og umhverfi kærleikans mesta, jatan vaggan barnsins. Og hirðar gættu hjarðar úti í haga. Fjárhirðar, í raun heimilislausir menn sem fáir vildu eiga samneyti við, þeim birtast fagnaðarboðin, þeir sjá sýnina fegurstu sem hefur verið boðuð þessum heimi: „Yður er í dag frelsari fæddur“ .
Trúir þú þessu? Já segjum við a.m.k. á þessari stundu, á þessu töfrumlíka kvöldi. Ég hef sjálf séð þessa frásögn breyta fólki. Ég hef séð harðan svip mýkjast, andlit opnast, augu geisla, umhverfi lýsast upp þegar þessi frásögn verður sem lifandi gerð í sálmum, lofgjörð og tjáningu í kirkjunni á jólum.
Trúir þú þessu? Kannski er það ekki rétt spurning. Heldur viljum við trúa, viljum við taka á móti barninu, kærleikanum, góðum Guði. Fara inn í fjárhúsið til hans og bjóða hann velkominn.
Það var falleg mynd í sjónvarpinu í liðinni viku sem vakti til umhugsunar. Hún var um lítil börn, fylgst var með fyrsta ári í lífi fjögurra barna, barns frá Bandaríkjunum, Japan, Namibíu og Mongólíu. Börn sem fæðast og alast upp við svo gjörólíkar aðstæður - í strákofa í Namibíu og annað í tjaldi á gresjum Mongóliu og börnin í Bandaríkjunum og Japan sem fæðast til nægtir og hafa nóg af öllu. Svo ólíkar aðstæður heimsins barna. Samt var svo margt líkt með þessum litlu börnum. Hvernig þau uppgötvuðu heiminn og fögnuðu honum. Litla barnið í Namibíu lék sér að beini og pöddum á meðan barn alsnægtanna hoppaði í rólu eða ók um litlum leikfangabíl. Það var ekki auðvelt að sjá, hvert þessara barna var endilega ánægðara en annað, öll kunnu þau svo vel að brosa fallega og líka gráta ef þeim mislíkaði. Þekkt orð Tómasar Guðmundssonar skálds, komu í hugann: „hve hjörtu mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu“.
Eitt var sameiginlegt þessum börnum sem fylgst var með, - þau voru öll elskuð, þau nutu umhyggju og ástúðar. Það skiptir mestu. Þau bjuggu við það öryggi að hafa foreldri sitt nálægt og þau fundu strax með móðurmjólkinni tengsl og kærleika nærsamfélags. Og þá leið þeim vel. Hvort sem þau voru í Ameríku og Mongólíu, Japan eða Namibíu.
Það er líkt og litlu börnin, hvar í heiminum sem þau eiga heima séu eiginlega í sínum fjárhúsum þegar þau hvíla í öryggi og trausti kærleikans foreldra og fjölskyldu. Þar skín stjarna yfir og litla barnið heldur að allur heimurinn sé öruggt og gott skjól, fjárhús, sem geislar bjartrar stjörnu skína á, sem gerir allt svo fallegt og gott. Já, litlu börnin þekkja bara góðan heim, þegar þau njóta kærleika og umhyggju. En hvað spillir þessari heimsmynd ? Þessari fallegu veröld barnsins sem er eins og hlýtt og skjólgott fjárhús.
Enn er heimurinn allt annað en öruggt skjól, sem stjarna bendir á.
Betri og tryggari heimur verður ekki einungis með ytri aðstæðum eða umbúnaði. Það þarf hjarta. Það þarf alltaf hjarta sem hvílir í traustum faðmi kærleika. Heilinn bræðir ekki harðan svip, heilinn fær heldur ekki augun til að geisla, við elskum ekki af skynsemi heldur af hjarta, það er ástríðan, kærleikurinn sem á heima í hjartanu, sem vill gefa, hjálpa, annast og styðja, sem vill hið góða, bjarta og fagra.
Valli kunni þetta. Hann gat fylgt leikritahandritinu á meðan hann hugsaði bara um sjálfan sig og horfði fram kirkjuna ákveðinn á svip, en um leið og hann sá andlitin, sá manneskjuna sem þurfti og þráði, umkomulausar og einmanna manneskjur sem réttu fram tómar hendur, - það var þá sem hann lifði sig inn í lifandi sögu, þá bráðnaði gjörsamlega stóra hjartað hans og hann sagði hátt og með tárin í augunum – þið getið fengið mitt rúm.
Umhyggja, samhugur. Þessi fallegu orð. Heimurinn í dag, íslenskt samfélag í dag þarfnast svo umhyggju og samhugar, að við elskum og virðum hvert annað – að við setjum okkur í spor annarra, finnum til, sjáum þörf náungans fyrir hendur okkar. Horfum með hjartanu, með kærleika.
Við erum öll velkomin í fjárhúsið með honum Valla, til að umbreyta því og gera það bjartara og fallegra. Umhyggjan fyrir öðrum, að sýna samhug, og trúa á vonina og birtuna í mannlífinu. Þá birtir yfir og stjarna skín skært og vísar veginn góða, að vöggunni hans sem sem frelsar og gjörir alla hluti nýja. Amen.