Við lifum á tímum mikils upplýsingaflæðis og mikillar fjölbreytni. Til þess að geta lifað í mannlegu samfélagi, hvort sem er á heimili, í bæjarfélagi, þjóðfélagi eða sem borgari í hinni stóru veröld, verðum við að þekkja til og læra að virða mismunandi aðstæður og siði. Trú er oftar en ekki stór þáttur í uppeldinu og grundvöllur lífsskoðana fólks. Við verðum að kunna að tala saman um trú, geta átt upplýstar samræður án sleggjudóma um það sem öðrum er heilagt, verið ósammála án þess að sýna óvirðingu. Bleiku og bláu biblíusögurnar Þar er skólakerfið mjög mikilvægt. Þegar ég var barn lásum við bleiku og bláu biblíusögurnar sem gerðu okkur læs á svo margt í menningunni og lögðu mörgum okkar grundvöll að trúarlegri sjálfsmynd, ásamt auðvitað trúaruppeldinu heima með kvöldbænum og kirkjugöngu. Ekki minnist ég þess að hafa lært neitt um trúarbrögð eftir fermingaraldur í íslenska skólakerfinu. Er svo að mestu enn. Ég var hins vegar svo lánsöm að vera í dönskum menntaskóla þar sem virðing var borin fyrir því að þekking á trúarbrögðum væri hluti af eðlilegu námsefni ungmenna. Þar er trúarbragðafræði skyldunámsgrein í framhaldsskóla í eitt ár. Svo hefur hins vegar aldrei verið hér á Íslandi. Ef trúarbragðafræði er kennd er hún hluti af öðrum greinum, t.d. sögu, eða valfag.
Brýnt er að gera könnun á stöðu trúarbragðafræðslu á Íslandi á öllum skólastigum. Við búum í nútímaþjóðfélagi þar sem aukin samskipti við fólk af öðrum uppruna en kristnum eru að verða daglegt brauð. Til þess að þau samskipti gangi greiðlega þurfum við að þekkja okkar eigin trúarhefð – og vita á hverju aðrir byggja.
Við foreldrar þurfum líka að halda vöku okkar varðandi nám barna okkar í kristnum fræðum og trúarbragðafræði, fylgjast með hvað kennt er og ræða við skólayfirvöld ef svo ber undir. Og ekki má gleyma því að í langflestum tilvikum vilja nýir Íslendingar, fólk sem hingað flytur frá öðrum menningarsvæðum, þekkja þá trú og siði sem mótað hefur íslenska menningu. Fræðsla um kristna trú er þar í lykilhlutverki.
Margbreytileiki trúarinnar Það er alvarlegt mál ef unga fólkið okkar fær enga leiðsögn í að ræða saman um trú, staðnæmist svo að segja í því málfari um 13-14 ára aldurinn, eins og dr. Sigurður Pálsson hefur margoft bent á í ræðu og riti. Sáralítil kennsla er um trúarbrögð og kennslufræði trúarbragðakennslunnar í kennaradeild Menntavísindasviðs HÍ. Greinin ,,Trúarbragðafræðsla og margbreytileiki” er valfag undir Samfélagsgreinum en ætti að sjálfsögðu að vera skyldufag þar sem flestir kennarar, ef ekki allir, munu í starfi sínu þurfa að sinna mjög margbreytilegum nemendahópi í framtíðinni.
Trúarbrögðin eru ekki bara ólík um eitt og lík um annað. Innbyrðis eru þau líka margbreytileg eftir stefnum og straumum og heimshlutum. Kristin trú hefur til dæmis ávallt tekið á sig ólíkar myndir eftir því umhverfi sem hún hrærist í og þetta þurfum við líka að fá fræðslu um til að vera fær um að ræða hvert við annað. Í samtíma okkar reynir mjög á samskipti og samtal við ólíkt fólk og til að geta unnið saman að friðsamlegu og samheldnu samfélagi verðum við að vera reiðubúin að hlusta, meðtaka og byggja upp góð tengsl, grundvölluð á þekkingu.
Þvertrúarlegt samtal í Aþenu Gott dæmi um þvertrúarlega samræðu er að finna í síðari ritningarlestri Jónsmessu, Post 17.22-31. Þar er að finna brot úr samtali Páls postula við gríska heimspekinga úr hópi Epíkúringa og Stóumanna, en Páll var þá staddur á Aresarhæð í Aþenu á einni af kristniboðsferðum sínum. Fræðimönnunum fannst ræða Páls um Jesú og upprisuna nýstárleg og vildu gjarna vita meira. Páll fann tengingu við þessa áhugasömu menn með því að vísa í trú þeirra sem meðal annars birtist í virðingu fyrir ókunnum guði.
Þarna fékk Páll tækifæri til að vitna um trú sína án þess að gera lítið úr trú viðmælenda sinna. Hann tengdi Guð skaparann við hinn ókunna guð; Guð sem vill að þjóðirnar leiti sín - og finni. ,,En eigi er hann langt frá neinum af okkur. Í honum lifum, hrærumst og erum við”.
Þessi orð Páls, að öll eigum við upphaf í Guði, er trúarsýn sem byggir brýr. Hún er ekki útilokandi heldur sýnir Guð sem er með opinn faðminn eins og faðirinn í guðspjalli síðastliðins sunnudags. Í skjali um kennslu kristinna fræða í samtali við aðrar trúarhefðir sem ráðstefna trúarbragðafræðikennara í Genf í Sviss sendi frá sér árið 2000 (Teaching Christianity in dialogue with other faith traditions) er einmitt lögð áhersla á sköpunartrúna. Hún tjái virðingu fyrir gildi hverrar manneskju og jöfnum réttindum okkar allra sem sköpunar Guðs.
Guð leitar tengsla Annað atriðið sem talið er upp í skjalinu sem grundvöllur samtals er holdtekningin, að Guð varð maður í Jesú Kristi, sem sýni vilja Guðs til að eiga tengsl við mannkyn. Þá er bent á samúð með þeim sem þjást og spámannlega boðun réttvísi inn í ranglátar aðstæður. Loks nefna trúarbragðafræðikennararnir sáttargjörð og kærleika sem grundvöll kristinnar fræðslu í samtali við aðrar trúarhefðir.
Í lok ræðu Páls á Aresarhæð nefnir þessi lærði maður réttvísi Guðs. Í henni er fólginn dómur yfir ranglætinu og um leið umhyggja fyrir þeim sem líða vegna ranglætis. Á þá leið lýsir Páll kærleiksríkum afskiptum Guðs af mannkyni sem hann þráir að þreifi sig til hans og finni hann. Sönnun þessa er líf og dauði Jesú Krists sem Guð reisti til lífs að nýju. Þannig eru ráðleggingar trúarbragðafræðikennaranna í Genf í fullu samræmi við ræðu Páls í Aþenu forðum daga.
Sumir gerðu gys, nokkrir tóku trú Viðbrögðin við þessu þvertrúarlega samtali gyðingkristna fræðimannsins Páls og grísku heimspekinganna voru blendin. Sumir gerðu gys að upprisu dauðra en aðrir vildu fá að heyra meira. Nokkrir slógust í fylgd með Páli og tóku trú, tvö eru nafngreind, Díónýsíus og Damaris.
Nú er það ekki tilgangur þvertrúarlegra viðræðna eða trúarbragðafræðikennslu að boða eina trú umfram aðra. Tilgangurinn er að upplýsa, fræðast, mynda tengsl, stuðla að friði og farsæld samfélagsins. Þetta er vandmeðfarið, eins og bent var á á ráðstefnu norrænna trúarbragðafræðikennslufræðinga sem ég sótti á dögunum hér í Reykjavík. Ef við segjum að öll trúarbrögð séu jafn sönn erum við að öllum líkindum að boða Bahá´ía trú. Ef við segjum að öll trúarbrögð séu ósönn erum við að halda fram vantrúarstefnu með tilheyrandi virðingarleysi fyrir þessu mikilvæga sviði mannlífsins. Við skulum forðast allar rökræður um sannleiksgildi en vera þess í stað heiðarleg með okkar trú, fara ekki í felur með afstöðu okkar, óttast ekki að svara séum við spurð, sýna okkar eigin trú virðingu um leið og við sýnum virðingu fyrir trú annarra.
Að láta góðar fréttir berast En auðvitað er það er eðli trúarinnar að leita út. Fáir þú góðar fréttir langar þig ósjálfrátt að deila þeim með öðrum. Ekkert hik var á Jóhannesi skírara sem ,,boðaði mönnum að taka sinnaskiptum og láta skírast til fyrirgefningar synda” (Lúk 3.3). Jóhannes varð til vegna þess að Guð vildi það, þrátt fyrir aldur foreldranna. Hans beið mikið hlutverk og því hlutverki sinnti hann allt til dauða.
Áður en Jóhannes varð til í móðurlífi fékk Sakaría faðir hans að vita að þau Elísabet myndu eignast dreng og drengsins biði sérstakt hlutverk. Sakaría efaði að þetta gæti gengið eftir og missti málið um hríð. En við umskurn og nafngift drengsins fékk Sakraría málið aftur og fyrsta sem hann gerði var að lofa Guð, hann fylltist heilögum anda og mælti fram lofsöng sinn af spámannlegri andagift (Lúk 1.67 og áfram). Þetta er stórkostleg lofgjörð þar sem meðal annars segir:
Og þú, sveinn, munt nefndur verða spámaður Hins hæsta því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu sem er fyrirgefning synda þeirra. Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor og lýsa þeim sem sitja í myrkri og skugga dauðans og beina fótum vorum á friðar veg. Og beina fótum vorum á friðar veg. Friðurinn felst í fyrirgefningu syndanna – sáttargjörð. Friðurinn á sér uppruna í Guði sem vitjar okkar í kærleika sínum og biður okkur að lýsa með sér í mannheimi. Til þess erum við kölluð og til þess þurfum við að uppbyggjast. Ekki til að standa í fánýtum rökræðum heldur til að eiga hið góða samtal á öruggum stað sem hefur rými fyrir hvert og eitt okkar, eins og við erum. Guðs andi gefi vöxtinn.
Textar Jónsmessu: Jes 40.1-8 Post 17.22-31 Lúk 1.57-66