Það er ekki hægt annað en leggja orð í belg um stjórnarfrumvarpið á Alþingi sem ætlað er að bæta réttarstöðu samkynhneigðra para. Það sem mér er efst í huga varðandi málsmeðferðina á Alþingi, er breytingartillaga, sem Guðrún Ögmundsdóttir, alþingismaður, hefur kynnt, og snýst um að gera breytingar á hjúskaparlöggjöfinni. Það er vissulega hlutverk Alþingis að setja lög og ekki ætla ég að efast um að Alþingi geti gert breytingar á hjúskaparlöggjöfinni eins og öllum öðrum lögum. Það sem mér þykir varhugavert við breytingartillöguna er sú sögulega staðreynd, að ef hún hlýtur brautargengi, eða ef gerð verður nokkur breyting á hjúskaparlöggjöfinni vegna einhvers konar málamiðlunar núna, mun það stríða gegn allri venju við setningu laga er varða starfsemi Þjóðkirkjunnar. Innan kirkjunnar og í samskiptum við ríkisvaldið og Alþingi, hefur ríkt sú venja að fjalla um svo viðamikil mál á vettvangi kirkjunnar áður en til þess kemur að setja slík lög.
Fari þingmaðurinn fram með breytingartillögu sína og haldi hún henni til streitu núna er hún að leggja til allt annað verklag en ætti að tíðkast. Breytingin á hjúskaparlöggjöfinni varðar ekki aðeins hjónavígsluskilyrðin (og þá hjónaefnin), heldur og hlutverk vígslumanna. Prestar Þjóðkirkjunnar eru stór hluti löggiltra vígslumanna á Íslandi. Gengið yrði algerlega gegn því, sem ég tel vera eðlilega meðferð í málum er snerta vígslumenn landsins ekki síður en kenningu hvers trúfélags. Ekki hefur verið fjallað um þessa hugmynd á Kirkjuþingi, sem lögum samkvæmt er Kirkjuþing sú stofnun er fjallar alla jafna um lagasetningar er varða starfsemi Þjóðkirkjunnar, áður en slík frumvörp verða að lögum frá Alþingi. Kirkjuþingið á lögum samkvæmt að setja Þjóðkirkjunni starfsreglur og getur samþykkt þingsályktanir og stefnumál kirkjunnar, en þar er fjallað um öll mál er varða starfsemi hennar. Gengið yrði algerlega framhjá Kirkjuþingi, sem er æðsta stofnun Þjóðkirkjunnar lögum samkvæmt.
Nái tillagan fram að ganga verður gengið algerlega yfir eðlilega málsmeðferð innan kirkjunnar hvað varðar kenningarleg efni. Það hefur vissulega farið fram umræða í ákveðnum hópum og á ráðstefnum um ýmis mál er varða samkynhneigða. Mjög nauðsynlegt er að þessi umræða geti verið í gangi bæði innan kirkjunnar og í þjóðfélaginu almennt séð. Á síðustu prestastefnu var því formlega beint til kenningarnefndar Þjóðkirkjunnar að fjalla um málefnið enda starfar kirkjan á ákveðnum kenningarlegum grunni. Það hefur auk þess verið ákveðið að fjallað verði um sambúð samkynhneigðra para á næstu prestastefnu, eða þegar kenningarnefnd hefur skilað áliti sínu. Tel ég reyndar ólíklegt að Prestastefna Íslands 2006 muni geta lokið umfjöllun um svo mikið álitaefni í einni lotu en það má þó vera rangt mat. Því hefur verið lýst yfir að Kirkjuþing geti fyrst fjallað um ákveðnar tillögur að vígsluformi haustið 2007. Það er einnig nauðsynlegt að íslenska Þjóðkirkjan taki mið af því sem er að gerast í systurkirkjunum, því litla kirkjan okkar er órjúfanlegur hluti af hinni alþjóðlegu kirkju, að ég tali ekki um hina eilífu kirkju sem helguð er í nafni Jesú Krists. Með fullri virðingu hvet ég hið háa Alþingi til að ana ekki að breytingum á hjúskaparlöggjöfinni hvað varðar hjónavígsluskilyrði, vígslumenn og túlkun á viðteknum skilningi á hjónavígslu og stöðu hjóna. Með því að setja inn valmöguleika fyrir trúfélög að fara eftir yrðu til ólík skilyrði til hjúskapar eftir trúfélögum.
Umræðan um samfélagslega stöðu samkynhneigðra hefur verið á fleygiferð á Íslandi og verður ekki annað sagt en talsmenn samkynhneigðra séu æði fylgnir sér. Ef málefnið er krafa samtímans er þetta mjög eðlilegt. En ég bendi á að kirkjan þarf að hafa svigrúm til að svara kröfum heimsins á hverjum tíma. Það er beinlínis hlutverk kirkjunnar að eiga í þessu samtali um málefni samtíðar sinnar, enda starfar hún í þessum hverfula heimi. Ég fæ ekki annað séð en Þjóðkirkjan ætli sér að vinna af heilum hug í þessu máli. Missi einhverjir þolinmæðina á meðan það er í gangi er það leitt, en það er ábyrgðarhluti af hálfu Alþingis að stuðla að ófremdarástandi hjá kirkju og þjóð með ótímabærri lagasetningu.