Guðspjall: Matt 15.21-28
Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“ En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“
Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“ Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“ Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“
Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.
Mikil er trú þín!
Eitt af ótal orðtökunum, sem sótt eru beint í Biblíuna. Og þetta segjum við þegar okkur finnst einhver vera full bjartsýnn á framgang mála.
Sagan af kanversku konunni er ein þeirra frásagna, sem mér fundust ekki samrýmast kærleika Krists. Mér fannst frelsarinn ekki koma vel fram við þessa útlendu konu. Hann gerði lítið úr vanda hennar og veikindum dóttur hennar, eins og það kæmi ekki við hann, snerti hann ekki. Hann segist bara hjálpa sumum, ekki öðrum. Og mér fannst hann ekki sýna ekki nærgætni í erfiðum aðstæðum hennar. Hann svarar í fyrstu eins og kerfið svarar: Tölvan segir nei!
Þar er svo oft einhver ómöguleiki fyrir hendi. Lög og reglur eru skýr og eftir lagabókstafnum skal farið. Allt fast í formi – og á það stundum til að hindra alla sanngirni. Þetta þekkja margir foreldrar, sem vilja hjálpa barni sínu í erfiðleikum en mæta sjálf hindrunum og skilningsleysi. Margir hafa einhvern tíma verið í sporum kanversku konunnar. Fundið sig máttlausa gagnvart ytri aðstæðum, hvort sem þar eru veikindi eða annar vandi, svo sem þeir sjá barnið sitt hverfa inn í heim neyslu og sinnuleysis. Hvað eru móðir og faðir ekki tilbúin að leggja á sig? Þannig er konan í guðspjalli dagsins, gildir einu þótt hún mæti fordómum, útlendingahatri. Hún kyngir stoltinu, kærleikans og umhyggjunnar vegna. Hliðstæður þessa sjáum við og heyrum alla daga. Fólki er vísað úr landi. Fólk berst við að ná rétti sínum, en kerfið, sem sett er til verndar og öryggis fyrir lífið í landinu, virðist stundum verka öfugt. „Computer says no!“
Ég sá og heyrði í gærkvöldi óperuna „Ragnheiði“ í félagsheimilinu Hörpu. Sú saga úr Skálholti á ofanverðri 17. öld hefur orðið þjóðinni hugstæð og atburðarásin fastsett í skáldverkum, sem styðjast frjálslega við heimildir. En þar fjallar um fólk í fjötrum síns eigin tíðaranda. Persónur með tilfinningar, fólk í þröngum aðstæðum ytri menningar og siða og það á einni fátækustu öld Íslandsbyggðar. En rétt eins og lærisveinar Krists sem létu viðtekin viðhorf samtímans stjórna sér, þannig gekk það til í Skálholti. Réttlæti umfram kærleika og miskunnsemi.
Hvernig er það í dag? Hjá okkur sem erum samtíða sjálfum okkur?
Við skulum ekki láta okkur detta í hug að mikið hafi breyst þótt umgjörðin sé önnur. Við lifum við fjötra rétthugsunar, viðhorfa, sem ætlast er til að við höfum. Margt af óhamingju og erfiðleikum nútímans er vafalaust tilkomið af því.
Erindi Jesú Krists í dag er að benda okkur á þetta – eins og hann kenndi lærisveinum sínum. Samtal hans og kanversku konunnar á sér ákveðinn tilgang. Hann vísar henni á bug samkvæmt hugmyndum þjóðar sinnar, Gyðinga. Guð heimsins væri Guð þeirra einna umfram aðra. En nú skyldu þeir gefa eftir frumburðarréttinn.
Mattheus, guðspjallamaðurinn, lærisveinninn, trúmaðurinn, sagnaritarinn, vissi a.m.k. síðar hvað Jesús var að fara. Um leið og Kristur reyndi á trú konunnar var hann að kenna lærisveinum sínum í hverju trúin fælist. Af trúnni á hann skyldu allir hljóta blessun. Og síðustu orðin í guðspjalli Mattheusar eru í samræmi við þetta, skírnarskipunin til lærisveina hans: Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu, farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum... ... ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar. Allir njóti náðar, allir séu velkomnir.
Og þetta er nú einmitt erindi trúarinnar og kirkjunnar: Trú fyrir alla – og kirkjan öllum opin. Vettvangur til þess að segja frá og sýna kærleika Krists.
Það hittir vel á að söguna af Kristi og kanversku konunni skuli bera upp á 16. Mars, messudag Guðmundar góða, Arasonar, Hólabiskups, á 13.öld. Hann líkti eftir Kristi sjálfum með því að ferðast um landið, förufólk með honum, þó nokkur lærisveinahópur. Hann mætti ofríki valdsmanna á sinni tíð, en hann hélt ótrauður áfram í fótspor frelsarans, ferðaðist um landið, blessaði, skírði og helgaði. Eins og Kristur ef einhver var hjálpar þurfi. Eins og sá er og sá reynist sem kærleikurinn knýr til góðra verka. Samfélag við Jesú Krist styrkir, nærir, frelsar, göfgar. Þau áhrif vill hann sjálfur hafa á allar kynslóðir.
Hann færist ekki undan, heldur kemur. Það er miklu fremur að boðskapur hans sé hindraður og að reynt sé að hindra framgöngu hans og blessandi áhrif. Okkar vestræni heimshluti vegur dálítið að rótum eigin tilveru, menningar og siðar.
Gyðingar kenna gyðingleg fræði í skólum sínum vítt um heiminn. Múslimar sinna því vandlega í almennu fræðslukerfi í múslimalöndum og hvar sem samfélög þeirra eru. En í gamalkristnum vestrænum löndum er kristindómurinn settur út úr skólakerfinu. Í nafni jafnræðis. Sumt er ekki auðvelt að skilja. En aftur að baráttu útlendu konunnar, sem bað Krist hjálpar. Hvað leggjum við mikið á okkur til að fylgja fram hjartans málum okkar og sannfæringu? Biblían er kannski ekki mjög aðgengileg bók að taka og lesa, jafnvel fráhrindandi á köflum, stundum eins og standi á svörum. Þá getur þurft mikla trú til að gefast ekki upp. Og í því sem öðru getum við hjálpast að. Pistill dagsins eru góð ráð um samhjálp í öllum atvikum lífsins, til gleði og sorgar. Knúinn af kærleika finnur sá sem leitar, sá öðlast sem biður – og fyrir þeim sem knýr á mun upp lokið verða. Æðruleysi er nauðsynlegt – að taka því sem ekki verður breytt.
Við erum hvert öðru háð og bundin á svo margan hátt. Hamingja eins er hamingja annars. Sorg eins er einnig sorg annars. Heimurinn er á margan hátt óréttlátur, öfugsnúinn. En í stað þess að sökkva sér niður í slíkar hugsanir gildir það að leggja af mörkum til fegurra mannlífs – kveikja ljós í stað þess að sitja í myrkrinu.
Föstutíminn stendur yfir. Hann áréttar að þrengingar, þjáning og erfiðleikar eru hluti af lífinu á jörð. Svo koma páskarnir sem vilja benda þér á að öll él birtir um síðir. Og að ekkert stöðvi sigurgöngu Krists og lífsins sem hann hefur fyrirbúið. Hann staðhæfir það að ljós muni skína fram úr öllum skuggum. Hugarafstaða okkar skiptir þar miklu.
Albert Camus, hinn franski heimspekingur, ritaði einhverju sinni um það, að margur maðurinn vildi sýna gáfur sínar og þekkingu með því að vera á móti einu og öllu. Finna öllu allt til foráttu, leita að misfellunum í lífinu, því einu sem miður fer og hrærast í því. Sjálfur segist hann hafa orðið sá hamingjumaður að hafa byrjað á því ungur að vera með, að dást að fegurð lífsins. Þótt hann hafi alist upp við erfið kjör þá hafi hann ekki fyllst beiskju. Öfund og illkvittni hafi hann sloppið við en öfund, óánægju og illkvittni kallar hann alvarlegasta mein hvers þjóðfélags.
Það skyldi þó aldrei vera að þeir meginkvillar hindri velferð og lífshamingju hvað mest í okkar landi?
Þeirri spurningu ætla ég ekki að svara frekar en þetta. Skil við spurninguna opna - okkur til umhugsunar.
Í Jesú nafni.