Leyfum börnunum að vera börn

Leyfum börnunum að vera börn

Sagan um Jesú minnir okkur á að hlusta á börn og heyra hvað þau hafa fram að færa. Nægir aðminnast á sænsku stúlkuna Gretu Tunberg sem hefur hefur vakið heimsathygli vegna baráttu sinnar í garð loftslagsmála í heiminum. En leyfum líka börnunum okkar að vera börn. Mér finnst það skipta miklu máli að ræna ekki frá þeim sakleysinu á æsku og unglingsárum

Jesús var tólf ára samkvæmt frásögunni, milli þess að vera barn og fullorðinn. Það er oft erfitt tímabil í lífi sérhvers unglings og ekki síður foreldra sem leitast við að ala barn sitt upp með aga og umvöndun Drottins. Unglingurinn vill hins vegar stundum fara síðan eigin leiðir og það getur leitt til árekstra milli hans og foreldranna ef málin eru ekki rædd og komist að samkomulagi. Ég á lítinn afastrák sem er rúmlega tveggja ára. Hann er ótrúlega stjórnsamur miðað við aldur og virðist bera höfuð og herðar yfir leikskólaystkin sín að þessu leyti. Já, snemma beygist krókurinn er stundum sagt.

Þegar María var á leið frá Jerúsalem eftir að hafa verið þar á páskahátíðinni þá tók hún eftir því að Jesús gekk ekki með henni. Hún hugsaði með sér að þar sem  hann væri tólf ára þá hlyti hann að álykta að hann væri orðinn fullorðinn og hlyti því að vera með föður sínum Jósef.  Jósef tók eftir því að Jesús var ekki með sér og hugsaði með sér að hann hlyti því að vera með móður sinni, Maríu.  Það var langt liðið á kvöld þegar þau gerðu sér fyrst grein fyrir að Jesús var ekki með þeim.

Þau urðu óttaslegin og sögðu: Hvernig er þetta mögulegt? Næsta morgun flýttu þau sér til baka til Jerúsalem og það var langt liðið á þriðja dag þegar þau fundu hann loks í musterinu og voru þau harmþrungin eins og segir í guðspjallinu. Þeim var mjög brugðið að sögn en þess er  ekki getið að þau hafi grátið eða verið mjög reið. María sagði við Jesú: ,,Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin, því að við vissum ekki nema að þú værir dáinn. Hugsaðir þú ekkert um það hvernig okkur kynni að líða?

Jesús leit á hana skýrum augum og svaraði: ,,Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns? Vissuð þið ekki að mér ber að sinna skyldum mínum gagnvart föður mínum?“ Hann var í raun og veru að segja eftirfarandi við Maríu: ,,Ég vil vissulega hlusta á þig og hugsa um þig. Ég vil elska þig en það er faðir minn, Guð sem mér ber frekar að hlusta á og hugsa um og elska. Hann á að vera í fyrsta sæti.

Þessi lýsing á Jesú 12 ára er lýsing á sérhverju barni Guðs án tillits til aldurs. Þetta eru ótrúleg tilsvör hjá 12 ára gömlu barni en þau gefa kannski líka til kynna hversu langt hann var kominn í þroska. En líkt og Jesú þá munum við öll vaxa þegar við svörum kærleiksríku kalli Guðs.

María skyldi þetta ekki og ekki heldur Jósef.  Hún hvorki gat né vildi viðurkenna að Jesú hafði þroskast. Hún geymdi þetta allt í hjarta sér og skildi það síðar þegar hún stóð undir krossinum og virti Jesú fyrir sér og sárin sem hann bar á líkama sínum. Himnesk bönd voru yfirsterkari jarðneskum böndum í lífi sonar hennar. Það sýndi sig frá þeirri stundu er þau fundu hann 12 ára í musterinu þar sem hann var að tala við öldungana sem furðuðu sig á þekkingu hans svo ungum.

Jesús vissi tólf ára að aldri hvert hlutverk sitt væri. Við höfum líka öll margvísleg hlutverk . Við erum foreldrar, afar og ömmur, við erum umhyggjusöm en kannski líka afskiptalaus. Vitum við alltaf hvar við erum stödd á vegferð okkar í gegnnum lífið eða erum við týnd eins og Jesús var í augum foreldra sinna um tíma.

Hver er Jesús og hvert er hlutverk hans. Það vitum við kristið fólk. Hjálpræðisverk Jesú hófs með fæðingu hans en hann er ekki farinn að prédika eða lækna, það gerist síðar. Hvað gerðist þá? Það vitum við líka.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna María og Jósef leituðu að Jesú á röngum stöðum í þrjá daga?  Hvers vegna tók þrjá daga fyrir þau að uppgötva að Jesú hlyti að vera í musterinu að tala um málefni Guðs ríkis við öldungana?  Hafði leyndardómurinn um fæðingu sonar þeirra fjarað út fyrir margt löngu? Það hafði ekki sést til fleiri engla í 12 ár, engum hrifnæmum fjárhirðum, engum vitrin

María og Jósef fundu Jesú lifandi og hressan eftir þrjá daga á stað sem þau reiknuðu ekki með að finna hann á.  Þetta minnir mig á Páskana og upprisu Jesú frá dauðum á þriðja degi.

Þegar við tölum um erfiðleika í fjölskyldum okkar þá höfum við margt til að tala um t.d. rifrildi sem átti sér stað, ótryggð, óhlýðni, virðingarleysi, kæruleysisleg meðferð fjármuna og þannig mætti lengi telja.  En stöndum við frammi fyrir vandamálinu sem heilaga fjölskyldan glímdi við þennan dag í Jerúsalem? Spyrjum við okkur einhvern tíman að því hvort við sem fjölskylda höfum  raunverulega sameiginlegan áhuga á að vita hver sé vilji Guðs? Höfum við sem tilheyrum alls konar fjölskyldum áhuga á ríki Guðs hér á jörðu?  Ræðum við saman heima um trúarleg málefni?  

Ég velti því fyrir mér hvort við séum oft á tíðum ekki alltof upptekin af því sem að fjölskyldu okkar snýr í þessum efnislega heimil? Erum við sem fjölskylda nægilega opin gagnvart stærri málum í þessum heimi? T.d. málefnum ríkis Guðs á jörðu, málefnum friðar, réttlætis, einingar og kærleika?  Gefum við af tíma okkar í þágu þessara málefna? Ég hygg að ef svo væri þá myndi það hjálpa okkur að takast á við og sigrast á ýmsum vandamálum sem fjölskyldur glíma við í dag.

Jesús fór heim með þeim.  Guðspjallið segir að hann hafi upp frá þeirri stundu hlýtt þeim. Samt sem áður hafði allt breyst? Þau vissu núna hverjum hann var hollastur. Frá þessari stundu myndi hann fyrst og fremst gera vilja Guðs allt sitt líf. Þetta leituðust María og Jósef einnig við að gera. Á þennan hátt kenndu þau okkur öllum hvað heilagleiki innan fjölskyldu, innan samfélags merkir. Það sem er heilagt er frátekið fyrir Guð. Það  tilheyrir Guði föður og málefnum ríkis hans hér á jörðu sem á himni.

Eitt sinn ferðaðist ungt barn frá Vestmannaeyjum í fyrsta sinn upp á land. Þegar silfurband fjallalæksins í Ingólfsfjalli bar fyrir augu, hrópaði hrifnæmt barnið: ,,Ó, hvað þetta er fallegt. Hvað er þetta mamma? ,,Það er fjallalækur, unginn minn”. ,,Af hverju eru ekki fjallalækir í Vestmannaeyjum, mamma?“ Umhugsunarþögn móðurinnar varaði uns hraðfara hugur barnsins svaraði sjálfs sín spurningu: ,,Ég veit það mamma. Það rignir svo mikið í Vestmannaeyjum, að Guð veit að þar þarf engan læk”  Giuð gefur nóg af vatni í regninu.

Er ekki nauðsynlegt fyrir okkur að eignast hið barnslega trúnaðartraust og einlæga barnslega gleði og forvitni barnsins sem spyr út í hið óendanlega og eilífa jafnvel.  María og Jósef upplifðu það sem drengurinn þeirra þurfti að ganga í gegnum á fyrstu árununum, tanntökuna, eyrnabólguna og magakveisuna. Það olli þeim andvökum og áhyggjum. Þau hvöttu hann til dáða þegar hann fór að taka fyrstu skrefin í átt til þeirra. Þau glöddust yfir einlægri hrifningu hans yfir því sem fyrir augun bar, fiðrildi sem flögraði um í sólargeislanum í musterinu. Þau leiddu hann og löðuðu að musterinu að gyðinglegum sið.

Góðu fréttirnar fyrir okkur eru þær að leit okkar er lokið líkt og hjá Maríu og Jósef því að Jesús sýnir okkur leiðina til Guðs. En leit okkar lýkur ekki þar sem við bjuggumst við. María og Jósef fundu Jesú á stað sem þau bjuggust ekki við að finna hann. Þau fundu hann á meðal öldunganna þar sem Jesú átti síðar eftir að verða dreginn fyrir dóm og sakfelldur og dæmdur til krossfestingar. María og Jósef fundu Jesú á lífi eftir þrjá daga. Ég tel að Lúkas guðspjalamaður gefi hér vísbendingu um dauða og upprisu Jesú á þriðja degi, Hann er hið nýja musteri. Þegar það lýkst upp fyrir okkur þá mun leit okkar endanlega ljúka.  Þá getum við hvílt okkur í þessu musteri andans, hvílt í Guði og safnað kröftum til hinnar hversdagslegu guðsþjónustu í anda frelsarans.

Eftir að María og Jósef fundu Jesú 12 ára í musterinu þá er ekki minnst á aftur á Jesú fyrr en hann þiggur skírn í ánni Jórdan á 32 ári.  Hvar var hann öll þessi ár?  Hann var örugglega hjá góðu fólki sem hjálpaði honum að þroskast af visku og náð frammi fyrir Guði og góðu fólki.

Góðu fréttirnar eru þær að þessi lýsing á Jesú í guðspjalli dagsins er lýsing á hverju Guðs barni, sama á hvaða aldri við erum. Við munum öll vaxa þegar við bregðumst við kærleika Guðs með þakklæti og leitumst við að hlýða kalli hans til að þjóna fólki í kærleika, ekki síst í nærsamfélagi okkar.

Jesús túlkar texta og tekur að túlka lífið á þann hátt að prestar og hin trúarlega elíta í musterinu varð undrandi. Hann kom með eitthvað nýtt. Þegar sem barn stendur hann fyrir eitthvað sérstakt, trúarlega. Á sama tíma stendur hann í ákveðinni hefð sem gyðingadrengur en boðar nýja tíma. ,,Sjá ég geri alla hluti nýja.”

Það var ekki aðeins í musterinu í Jerúsalem sem þörf var á nýrri sýn. Við þurfum líka nýja sýn og brjóta upp vana og venjur. Fræðimenn gyðinga söfnuðust saman um hinn 12 ára Jesús frá Nasaret sem ögraði á sinn hátt og fékk þá til að sjá hlutina í nýju ljósi.

Í lífi okkar þurfum við líka að vera stöðugt minnt á samfellu í hefðum og svo nýsköpun. Grunngildi og svo nýja nálgun. Í lífi okkar þarf að vera grundvöllur en um leið vöxtur og þroski, ekki stöðnun og kyrrstaða á hinu trúarlega sviði lífs okkar.

Hversu heppin eru ekki foreldrar sem týna barni og finna það í húsi Guðs. Fæstir eru svo heppnir reyndar. Börn sem týnast lenda gjarnan í öðrum húsum, miður heppilegum í dag, t.d. fíkniefnabælum.

 Sagan um Jesú minnir okkur á að hlusta á börn og heyra hvað þau hafa fram að færa. Nægir aðminnast á sænsku stúlkuna Gretu Tunberg sem hefur hefur vakið heimsathygli vegna baráttu sinnar í garð loftslagsmála í heiminum. En leyfum líka börnunum okkar að vera börn. Mér finnst það skipta miklu máli að ræna ekki frá þeim sakleysinu á æsku og unglingsárum. Við skulum gefa börnum af tíma okkar, lesa fyrir þau, hlusta á þau lesa fyrir okkur, fara með þeim á íþróttaæfingar og kappleiki, hvetja þau til dáða en líka vera til staðar fyrir þau þegar áföllin dynja yfir á þroskabraut þeirra. Þegar við erum með börnunum þá finnum við okkur sjjálf, barnið innra með okkur og fyllumst einlægri gleði yfir því og fyllumst endurnýjaðri þrá að uppgötva eitthvað nýtt á vegferð okkar með þeim. Guð varðveiti börnin og barnið innra með okkur öllum.

 

Flutt í Seljakirkju í ársbyrjun 2020.            .