Íslensk trú

Íslensk trú

Stóru þemun í myndinni snerta til að mynda umgengni okkar við náttúruna, hina pólitísku prédikun, ásókn stóriðju og áhrif hennar á nærsamfélagið, og hlutverk trúarinnar í samtali og mótun menningarinnar.

Liljur vallarins

[audio:https://s3-eu-west-1.amazonaws.com/hladvarp/2011-03-14-ktht-liljur-vallarins.mp3]

Liljur vallarins er ný íslensk heimildamynd eftir Þorstein Jónsson, sem var frumsýnd sl. haust. Hún greinir frá lífinu í fallegri sveit og stórum sem smáum viðfangsefnum fólksins í sveitinni.

Hlutverk prestsins í samfélaginu og samskipti hans við sóknarbörnin er ákveðinn útgangspunktur í myndinni. Þannig verða til spurningar hjá áhorfendanum um mót trúar og reynslu, hlutverk prédikunarinnar í pólitík dagsins í dag, og hvað það er sem mótar sýn manneskjunnar á stöðu hennar í sköpunarverkinu og mannlegu samfélagi.

Stóru þemun í myndinni snerta til að mynda umgengni okkar við náttúruna, hina pólitísku prédikun, ásókn stóriðju og áhrif hennar á nærsamfélagið, og hlutverk trúarinnar í samtali og mótun menningarinnar. Sögusviðið er Kjósin og presturinn þar er dr. Gunnar Kristjánsson prófastur og sóknarprestur á Reynivöllum. Myndin er tekin á tíma sem nær yfir nokkur misseri og Þorsteinn fylgir Gunnari eftir í starfinu, m.a. sjáum við prestinn þar sem hann þjónar söfnuðinum sínum í helgihaldi og prédikun og í prófastshlutverki sínu á fundum í Kjalarnessprófastsdæmi með prestum og fleirum.

Dr. Gunnar leikur stórt hlutverk í þessari mynd en stærsta hlutverkið er kannski í höndum sköpunarverksins sem flæðir yfir tjaldið - náttúra, dýr og manneskjur – í ólíkum klæðum eftir árstíðum og tilefnum.

Þessi látlausa og hófsama mynd er í sjálfu sér prédikun um hina klassísku dyggð hófsemdina, sem segja má að nái yfir hið sanngjarna í samskiptum við náttúruna og við meðbræður okkar og – systur. Hún rekur hvernig hugmyndir um grundvallarþættina og það sem er mikilvægt í lífinu, þar með talin trúin á Guð og hlutverk kristinnar kirkju, birtast hjá fólkinu í sveitinni, og hvernig þessar hugmyndir eru ræddar út frá reynslu daglegs lífs og þess sem fengist er við hverju sinni.

Meðmæli mín þegar horft er á Liljur vallarins eru þessi:

Fylgstu með sterkri nærveru náttúrunnar og hvernig hún talar fyrir sig og fylgstu með hvernig lífið í sveitinni mótast af nálægðinni við þessa sterku náttúru.

Fylgstu með trúarveruleikanum sem birtist í myndinni, í gegnum samtöl og yrðingar, frá leikum og lærðum.

Og njóttu þess trausts sem þér sem áhorfenda er sýnt þegar fólkið í Kjósinni býður þér inn til sín og alla leið að hjartanu – því þar verða vangavelturnar um lífið til.

Byggt á innlýsingu á sýningu Kjalarnessprófastsdæmis á Liljum vallarins í Bíó Paradís 14. mars.