Á Alþingi sumarið 1000 fól helsti höfðingi kristinna manna, Síðu-Hallur, heiðnum höfðingja, Þorgeiri Þorgeir Ljósvetningagoða, að segja upp lög, ein fyrir kristna og önnur fyrir heiðna. Þorgeir lá undir feldi nær sólarhring og flutti þingheimi ræðu áður en hann sagði upp lögin. Margir telja ræðuna eina þá bestu sem flutt hefur verið á íslenskri grund. Í henni eru meðal annars þessi orð samkvæmt Íslendingabók Ara fróða:
"En nú þykir mér ráð að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorir tveggja hafi nakkvað síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn."
Ég ætla ekki að íhuga hér þá niðurstöðu Þorgeirs að best væri að hafa ein lög og einn sið í landinu heldur þau tilmæli hans að láta þá ekki ráða er mest vildu í gegn gangast.
Þegar mál eru tekin til umfjöllunar í fjölmiðlum er gjarnan valin sú leið að velja viðmælendur með sem andstæðastar skoðanir. Þá er helst von á fjörugum skoðanaskiptum. Vinir mínir í hópi blaðamanna viðurkenna þetta margir hverjir. Umræðan þurfi að hafa skemmtanagildi. Enskir menn kalla þetta "infotainment" til að gefa til kynna að um sé að ræða blöndu af skemmtun og upplýsingamiðlun. Það er oft görótt blanda og hefur þær afleiðingar að almenningur þekkir illa málin sem verið er að fjalla um, heldur aðeins öfgar þeirra til beggja átta. Fólk stendur í þeirri trú að valkostirnir séu aðeins tveir og þannig fá þeir að ráða, sem mest vilja í gegn gangast.
Mér fannst þetta koma vel í ljós eftir hina margfrægu Prestastefnu á Húsavík. Fólkið í landinu virðist telja að einungis sé um tvennt að velja í afstöðu kirkjunnar til samkynhneigðar. Annað hvort gefi kirkjan þá saman í hjónaband eða samkynhneigð sé hafnað. Það er mikil einföldun og raunar afbökun á því sem fór fram á stefnunni.
Það sem gerðist á Prestastefnu er að mikill yfirgnæfandi meirihluti presta samþykkti ályktun kenningarnefndar Þjóðkirkjunnar um staðfesta samvist, en þannig nefnist hjúskapur samkynhneigðra samkvæmt gildandi hjúskaparlögum. Mér fannst margt merkilegt í ályktuninni. Þá voru samþykkt drög helgisiðanefndar að blessunarathöfn staðfestrar samvistar. Það er líka merkilegt og með því að lýsa sig reiðubúna til að blessa sambúð samkynhneigðra er íslenska Þjóðkirkjan í því skrefi að ganga jafnlangt og þær kirkjur sem lengst hafa gengið í álfunni.
Tillögu um að óska eftir því við Alþingi að það samræmi hjúskaparlög og lög um staðfesta samvist þannig að vígslumönnum skráðra trúfélaga verði heimilt að annast hjónavígslu samkynhneigðra var á hinn bóginn algjörlega hafnað. Sú tillaga gekk töluvert lengra en álit kenningarnefndar og í raun er með henni verið að fara fram á að hjónabandinu, einhverri elstu stofnun samfélagsins, sé gjörbreytt og gert kynhlutlaust. Prestar landsins voru ekki tilbúnir að stíga svo stórt skref, alla vega ekki að sinni. Innan stjórnmálaflokkanna hefur ekki verið mikil umræða um slíkar breytingar og heldur ekki innan kirkjunnar.
Nú liggur fyrir að kirkjan blessar samvist samkynhneigðra. Ég veit að margir hefðu viljað sjá stærri skref en málinu er ekki lokið. Álit kenningarnefndar er að sögn biskups Íslands málamiðlun og grundvöllur áframhaldandi samtals. Þeir voru ekki látnir ráða sem mest vildu í gegn gangast. Hitt verður að koma fram að þegar fyrir liggur sú opinbera afstaða Þjóðkirkjunnar að hún blessi samvist samkynhneigðra eru engin rök fyrir öðru en að vígslumenn hennar geti gefið þá saman að lögum, gift þá, ef menn vilja nota það orðalag. Næstu daga mun biskup Íslands láta gera könnun meðal presta kirkjunnar til að sjá hversu margir þeirra eru reiðubúnir að framkvæma lagalegan hluta hjúskaparstofnunar samkynhneigðra. Frekari tíðinda er því að vænta.