Bænasvar Guðs er ljóð

Bænasvar Guðs er ljóð

En bænasvar er líka dálítið eins og ljóð, stór heimur á smáum fleti sem opinberast í gegnum lífsgönguna alla, og það sem í fyrstu virðist ekkert svar verður að lokum það eina rétta í þínu lífi, fyrir þitt líf, hver veit betur en Guð hvaða svar hentar þér? Sá sem skapaði þig, málaði líf þitt og orti sál þína, sá sem elskar þig meir en þú sjálfur.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
10. maí 2010
Flokkar

Rithönd Guðs ( Ísak Harðarson) Skrifað í rykið

Í hvítri kistu gluggans liggja þrír pennar

Blár til að fanga himininn rauður til að vekja ástríðuna svartur til að yrkja dauðann

Þrír pennar og eins og almættið sjálft rétti ég út höndina eftir einum þeirra

en heyri þá snöggan þyt risahandar sem nálgast hratt og ákveðið, og skil í einni svipan að sjálfur er ég penni að sjálfur er ég penni Sem forsjónin notar til að semja Mín eigin örlög og annarra!

Og sjá: Hún grípur mig almáttkum fingrum, skrúfar af mér lokið og ber oddinn að pappírnum löðrandi hausinn að skráþurrum pappírnum

Æ GUÐ LÁTTU MIG ÞÁ FREKAR SPÝTA LJÓSI EN MYRKRI!

Og jafnvel þótt svo fari að enginn lesi eins og tíðkast nú á tímum fársins láttu mig þá finna fró í því

að sjálfur sonur þinn skrifaði fingri í rykið eitthvað sem enginn las.

Já Guð láttu mig frekar spýta ljósi en myrkri segir skáldið Ísak Harðarson í þessu nýútkomna ljóði. Það er eitthvað við svona setningar sem gerir það að verkum að maður vill helst af öllu láta þær standa einar og sér í fullkomnum friði og ekki kryfja veruleikann að baki þeim af ótta við að hann minnki og missi birtu sinnar, verði kaldur og hrár.

Ljóð er eins og málverk hvert orð er pensildráttur er skapar veröld lita og forma, fyrirheita sem voru og eru og verða á meðan maðurinn hefur hjarta á meðan maðurinn hefur sál.

Ljóð er eins og málverk Stór heimur á smáum fleti. ( HEB)

Hefurðu ekki oft fundið fyrir löngun til að koma við málverk sem heillar þig eða vekur með þér framandi líðan? Langað til að snerta pensilstrokurnar sem eru þornaðar eins og þú munir skynja betur hugsun listamannsins, skilaboðin hans, ef þú bara færð að snerta það sem hann hugsaði eitt sinn á striga. Kannski er það vegna þess að snerting lýgur sjaldnast, það er eitthvað sem afhjúpast við snertingu, þegar við finnum áferð og hita, sá sem kemur að slysi bregst ósjálfrátt við með því að snerta hinn slasaða til þess að ganga úr skugga um lífsmörk, áður en lengra er haldið, snerting er staðfesting á svo ótal mörgu, bæði því besta og því versta í þessu lífi. Snerting staðfestir dauða og líf, ofbeldi og ást. Ég upplifi boðskap Jesú sem eitt samfellt ljóð, að baki hverju orði er stórt og litríkt málverk sem nær út fyrir sjónsvið okkar mannanna og geta okkar til að fanga það í heild sinni er ekki til staðar, einfaldlega af því að við erum menn og sem slík erum við hluti af sköpuninni, en viðleitni okkar til þess er samt góð og gríðarlega mikilvæg, þ.e. viðleitnin til að túlka og skilja í ljósi samtímans. Enginn fangar sannleikann nema Guð einn, sannleikann að baki orðum og gjörðum Jesú frá Nasaret, ljóðskáldið eða myndlistarmaðurinn eru einmitt þeir einu sem sjá verk sín frá öllum hliðum og sjónarhornum og kannski þess vegna er ekki vinsælt hjá þeim að kryfja verkin til grunna, kryfja þau þangað til þau verða köld og hrá og hafa ekkert meira að gefa. Sannleikurinn á að vera leit í gegnum lífið, frá fæðingu til dauða, því allt það mikilvægasta krefst fyrirhafnar og áreynslu, allt það besta opinberast okkur í smáum skrefum vegna þess að við erum þiggjendur að þessu lífi og leitin að sannleikanum er til þess fallin að gera okkur þakklátari og um leið auðmjúkari og meira gefandi. Þannig upplifi ég samfylgd Jesú og lærisveinanna og þannig upplifi ég gjarnan samfylgd eldri kynslóða við lífið. Svo framarlega sem fólk hefur löngun til að leita og stækka sem manneskjur. Biðjið segir Jesús í guðspjalli dagsins, hefurðu tekið eftir að þegar Jesús talar um bænina og okkur þá notar hann boðhátt eða skipun sbr fjallræðuna biðjið og yður mun gefast og í guðspjalli dagsins segir hann: “Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn:” Samt erum við svo dæmalaust feimin við bænina og ef ekki feimin þá kannski efins um mátt hennar af því að á öllum öðrum sviðum lífsins erum við vön að sjá afleiðingar gjörða okkar, svart á hvítu. En bænasvar er líka dálítið eins og ljóð, stór heimur á smáum fleti sem opinberast í gegnum lífsgönguna alla, og það sem í fyrstu virðist ekkert svar verður að lokum það eina rétta í þínu lífi, fyrir þitt líf, hver veit betur en Guð hvaða svar hentar þér? Sá sem skapaði þig, málaði líf þitt og orti sál þína, sá sem elskar þig meir en þú sjálfur. Biðjið segir Jesús, þetta er vissulega ekki slagorð tíðarandans sem myndi fremur segja: Takið og þér munuð eignast. Nú höfum við fundið mjög sterkt hvað sú boðun er afdrifarík og hvað sjálftökusiðferðið er mann og samfélagsskemmandi, sjálftökusiðferðið er uppskrift að tifandi tímasprengju, Guð forði okkur frá því að stunda slíka tilraunastarfssemi oftar. Mig langar til að deila með ykkur reynslu okkar séra Bjarna hér í vetur í fermingarfræðslunni, ég þreytist raunar seint á að segja frá þessu en á hverjum einasta þriðjudegi höfum við átt dásamlegar bænastundir með fermingarhópnum þar sem við höfum myndað hring í kringum altarið og borið fram mismundandi bænarefni. Oftast höfum við haft eitt þema þar sem annar presturinn hefur talað um þakklæti eða von eða það að biðja Guð um að taka frá sér áhyggjur og kvíða og beina sjónum fram til vonar, það hefur verið svo magnað að upplifa þetta bænasamfélag vaxa og dafna og dýpka og ef ég tala bara fyrir mig sjálfa þá verð ég að viðurkenna að sjaldan eða aldrei hefur mér liðið betur í bænahópi, sennilega vegna þess að allt var svo einlægt og eðlilegt já og blátt áfram, bænirnar orðaðar eins og unglingunum sjálfum er eiginlegt. En svo var líka annað sem gerðist, það myndaðist grundvallar virðing og dýpt í samskiptum og það einkenndi fermingarstarfið í heild sinni, bænin lagði grunninn að gefandi andrúmslofti, um það er enginn efi í hjarta mínu, þess vegna er kirkjan svo mikilvæg hreyfing, hún er umfram allt bænasamfélag því iðkun bænarinnar laðar fram guðlega eiginleika í sérhverri sál, bænin opnar hjarta manneskjunnar fyrir fyrirgefningu, sátt og sanngirni, já og jafnræði því þegar þú biður í hópi manna afvopnast valdsmennskan og hrokinn. “Biðjið” segir Jesús í guðspjallinu, þetta orð er ef til vill lykillinn stóri að farsælu lífi, þetta orð skapar ekki bara tengsl milli Guðs og manna þar sem manneskjan finnur sig eiga persónulegt samband við Guð, þar sem manneskjan tekur ábyrgð á tilfinningum sínum, orðum og gjörðum, viðukennir vanmátt sinn og gefur sig algóðum Guði á vald, þetta orð undirstrikar jafnframt allt það besta sem gerist í samskiptum manna. Enda krefst það fyrirhafnar og áreynslu. Til er fólk sem getur aldrei beðið neins, samt getur það endalaust þegið, það er vegna þess að bón eða bæn krefst meira hugrekkist en nokkur önnur leið að settu marki. Ástæðan fyrir því siðferðishruni sem við tökumst nú á við sem þjóð er sú að okkur skorti auðmýkt til að biðja og gæði markmiðanna sem við stefndum að var í samræmi við leiðirnar, gæðin voru ekki einu sinni fólgin í raunverulegum eignum heldur í hugmyndum um eignir og stjarnfræðilegar fjárupphæðir á hvítum pappír, blekkingarleikur.

En þrátt fyrir það sem orðið er og raunar vegna þess sem orðið er, verðum við að varðveita viturt hjarta og bænahug, við megum ekki spýta myrkri þegar kemur að uppgjöri og því að draga menn til ábyrgðar heldur skoða markmið uppgjörsins og gæði þeirra, gæðin eru engan vegin fólgin í því að sefa óánægju almennings, óánægju okkar, eins og ein fyrirsögn netmiðla hljóðaði í vikunni sem leið. Markmið uppgjörsins á að snúast um sannleiksást og réttlæti og mannvirðingu, uppgjör, hvort sem er í heilu þjóðfélagi, inn á heimili eða milli tveggja einstaklinga er mikilvægt til að sjá og skilja afleiðingar rangra ákvarðanna, uppgjör er forsenda fyrirgefningar og sátta, uppgjör felur í sér viðurkenningu mistaka og er þannig upphafsreitur í nýju þroskaferli sem er öflugra en hið fyrra. Þess vegna eru mistök dýrmætar gjafir sem við verðum að nýta. Ég er persónulega mjög þakklát fyrir að lifa í þjóðfélagi þar sem menn standa saman um að afhjúpa spillingu og óréttlæti og sækja leyndarmálin niður í undirdjúpin, mér finnst við Íslendingar vera býsna heilbrigð fjölskylda. Við erum kannski litin hornauga af alþjóðasamfélaginu en það er líka vegna þess að við erum að taka til og lofta út og allir nágrannarnir sjá inn til okkar á meðan en það vegur bara ekki eins þungt og hreina loftið og hvítu veggirnir og hið nýja og þroskaða samfélag sem við munum sannarlega uppskera. Við gerðum mistök og þegar þau tóku að fljóta upp á yfirborðið þá köfuðum við dýpra og fundum orsakir þeirra og það heitir hugrekki og heilbrigði og ég verð að segja að ég er persónulega mjög stolt af því að tilheyra slíku samfélagi. Mér finnst miklu betra að vera Íslendingur í dag en fyrir þremur árum. Guð veit hvers þú þarfnast og hvers við þörfnumst sem þjóð, bænasvar Guðs er ekki alltaf og kannski sjaldnast fyrirsjáanlegt, bænasvar Guðs er eins og ljóð, það er stór heimur á smáum fleti sem opnast þér smátt og smátt eftir því sem á ævina líður. “Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þegar þið ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður.” Æ GUÐ LÁTTU MIG ÞÁ FREKAR SPÝTA LJÓSI EN MYRKRI! Þetta er góð upphafsbæn nýrra tíma. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen