Bann við umskurði drengja

Bann við umskurði drengja

Frumvarp til laga um bann við umskurði drengja hefur vakið mikla athygli erlendis, ekki síst í Danmörku þar sem ég er við nám og andstaða við umskurð fer vaxandi.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
27. febrúar 2018

Frumvarp til laga um bann við umskurði drengja hefur vakið mikla athygli erlendis, ekki síst í Danmörku þar sem ég er við nám og andstaða við umskurð fer vaxandi.

Frumvarpið leggur til breytingar á lögum frá 2005 sem skilgreinir svonefndan „umskurð‟ stúlkubarna, sem ofbeldi gegn börnum, nánar til tekið líkamsárás, refsiverða allt að 6 ára fangelsi.

Lögin frá 2005 eru í takt við skilning alþjóðastofnana á borð við Alþjóða heilbrigðisstofnunina (WHO), Barnastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNICEF) og fjölmörg læknasamtök sem berjast gegn limlestingu á kynfærum stúlkubarna (Female Genital Mutilation) á alþjóðavísu. Baráttan hófst á sjöunda áratugnum og árið 1997 fordæmdu WHO og UNICEF auk Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) verknaðinn formlega.

Ef frumvarp Alþingis til laga verður samþykkt í núverandi mynd er umskurður drengja skilgreindur með sama hætti sem ofbeldi, nánar til tekið líkamsárás, og þessi fyrirbæri lögð að jöfnu í lögunum. Umskurður drengja er hvergi á vettvangi alþjóðastofnana skilgreindur sem ofbeldisverknaður eða líkamsárás og hér er því um grundvallarbreytingu að ræða.

Á heimasíðu WHO er að finna víðtækt lesefni um umskurð drengja og umræðu um þátt umskurðar í baráttunni við HIV smit í löndum Afríku. Þar er jafnframt að finna viðamikla skýrslu frá 2010, þar sem fjallað er um umskurð drengja á heimsvísu. Í niðurlagi þeirrar skýrslu er umskurður „almennt talin örugg aðgerð‟ ef hún er framkvæmd af heilbrigðisstarfsfólki og mælir stofnunin með að aðgangur að þjónustu sé tryggður. UNICEF hefur mælt sérstaklega með umskurði drengja í 13 löndum afríku, með ráðgjöf til foreldra og drengja, og vinnur að því að koma henni á í þremur löndum þar sem ekki er hefð fyrir umskurði.

Læknasamtök hafa almennt ekki mælt með banni við umskurði drengja og sú afstaða hefur meðal annars verið gefin út af læknasamtökum Svíþjóðar (2014). Bandarísku barnalæknasamtökin AAP gáfu frá sér ályktun í ágúst 2012, þar sem kemur fram að kostir umskurðar vegi þyngra en mögulegir fylgikvillar. Samkvæmt ályktuninni er ákvörðunin um hvort umskera eigi sveinbarn foreldranna, „í samhengi við trúar-, siðferðis- og menningarafstöðu‟ þeirra.

Ályktun AAP um kosti umskurðar var gagnrýnd af fjölþjóðlegum hópi lækna undir forystu Morten Frisch í apríl 2013 og í þá grein vitna íslenskir læknar sem stutt hafa frumvarpið. Dr. Morten Frisch er danskur læknir sem starfar við Serum stofnunina í Kaupmannahöfn og hefur verið ötull baráttumaður gegn umskurði drengja.

Margir læknar hafa stutt málstað hans en dönsku læknasamtökin hafa fram til þessa ekki viljað mæla með banni, þó þau taki undir sjálfsákvörðunarsjónarmið. Í yfirlýsingu samtakanna frá 2016 er lögð áhersla á að umræðan um breytta löggjöf verði einungis tekin „í samráði við þá þjóðfélagshópa þar sem umskurður drengja hefur sérstaka trúarlega eða menningarlega merkingu‟.

Sú fullyrðing sem kemur fram í undirskriftalista íslenskra lækna að umskurður „brjóti gegn Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna‟ er hluti tilvitnunar í grein Frisch og fleiri, en sá skilningur er ekki almennur á alþjóðavettvangi. Sú afstaða kemur jafnframt fram í sameiginlegri yfirlýsingu umboðsmanna barna og barnaskurðlækna á Norðurlöndum frá 2013 og vakti hún meðal annars athygli af þeim sökum.

Mannréttindastofnun Danmerkur hefur fjallað um bann við umskurði (2014) og tók þá afstöðu að umskurður drengja yrði vart („næppe‟) talinn mannréttindabrot á vettvangi Mannréttindadómstóls Evrópu eða
Sameinuðu Þjóðanna (CRC), með þeim fyrirvara þó að hvorug stofnun hefur fengið slík mál til umfjöllunar. Lög sem takmarka rétt foreldra til umskurðar fela að þeirra áliti heldur ekki nauðsynlega í sér mannréttindabrot.

Frummælendur frumvarps til laga um bann við umskurði hafa haldið á lofti barnaverndarsjónarmiðum og undir þau ber að taka. Lýsingar íslenskra heilbrigðisstarfsmanna á aukaverkunum og afleiðingum umskurðar, hafa margar verið frá aðstæðum þar sem foreldrar hafa farið til upprunalands síns til að láta framkvæma umskurð eða fengið til þess ófaglært fólk. Í Þýskalandi hefur verið farin sú leið að leyfa sérstaklega með lögum umskurð sveinbarna (2012), m.a. til að tryggja aðgang að heilbrigðisþjónustu við umskurð, og í Svíþjóð er umskurður drengja háður löggildingu (2001) og öll sjúkrahús eru hvött til að veita umskurð af sænska þinginu (2005).

Biskup Íslands gaf umsögn um frumvarpið og vill greinarhöfundur taka undir með afstöðu hennar. Það skref að skilgreina umskurð drengja sem ofbeldi, nánar til tekið líkamsárás, samkvæmt lögum er ekki til þess fallið að skapa sátt og samtal við trúarhópa sem lögin varða eina á Íslandi. Sú afstaða hefur litað umræðuna um frumvarpið og ef það verður að lögum er það einstakt á heimsvísu. Jafnframt bendir biskup á þá leið að tryggja öryggi barna við umskurð, í stað þess að þvinga foreldra af landi brott með því að glæpavæða umskurð sveinbarna.

Heimildir:
http://www.who.int/hiv/pub/malecircumcision/neonatal_child_MC_UNAIDS.pdf
https://www.unicef.org/esaro/5482_7884.html
http://www.slf.se/Lon–arbetsliv/Etikochansvar/EAR-anser/Omskarelse-av-pojkar/
https://www.aap.org/en-us/about-the-aap/aap-press-room/pages/newborn-male-circumcision.aspx
Frisch, Morten og fleiri, „Cultural bias in the AAP’s 2012 Technical Report and Policy Statement on male circumcision.‟ Pediatrics, 131 (4), s. 796 – 800.
https://www.laeger.dk/sites/default/files/laegeforeningens_politik_vedroerende_omskaering_af_drengeboern_uden_medicinsk_indikation_dec_2016.pdf
https://menneskeret.dk/sites/menneskeret.dk/files/media/dokumenter/udgivelser/policy_briefs/omskaering_policy_brief_final_maj_2014.pdf
https://www.bundestag.de/dokumente/textarchiv/2012/42042381_kw50_de_beschneidung/210238
https://web.archive.org/web/20120222063038/http://www.socialstyrelsen.se/publikationer2007/2007-107-7

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu mánudaginn 26. febrúar 2018