Bænir á Alþjóðlegum bænadegi kvenna 2016

Bænir á Alþjóðlegum bænadegi kvenna 2016

Við lofum þig, Guð, og færum þér drauma eldri borgaranna, framtíðarsýn unga fólksins og visku barnanna. Hjálpaðu okkur að læra af börnunum að meðtaka hvert annað, án þess að mismuna. Gefðu okkur að vera fólk sem leitar sátta milli þjóðfélagshópa og kynslóða. Fyrirgefðu okkur að við höfum ekki gefið rými fyrir samtal ólíkra hópa, að við höfum hleypt að vantrausti og valdabaráttu. Fyrirgefðu okkur að við höfum horft framhjá ofbeldi gegn konum, börnum, fötluðum og eldri borgurum sem svo víða er að finna.
fullname - andlitsmynd María Guðrúnardóttir Ágústsdóttir
04. mars 2016
Meðhöfundar:
Sigríður Schram
Flokkar

Yfirskriftin er: Takið á móti börnunum. Takið á móti mér og byggir á orðum Jesú í Mark 9.36-37 og 10.13-16 (sjá hér að neðan).

Bænir Guð tilveru okkar, þú elskar lífið eins og barn og prýðir það gleði og ánægju. Með þér verður hver dagur kraftaverk og hvert andartak fyllt fögnuði. Við lofum þig og tökum undir söng fuglanna, pálmatrjánna, fljótanna og allrar sköpunarinnar. Við þörfnumst kærleika þíns og visku eins og blómið sem vex við lækinn og þarfnast ferskvatns til að fegurð þess komi fram.

Við lofum þig og færum þér drauma eldri borgaranna, framtíðarsýn unga fólksins og visku barnanna. Hjálpaðu okkur að læra af börnunum að meðtaka hvert annað, án þess að mismuna. Gefðu okkur að vera fólk sem leitar sátta milli þjóðfélagshópa og kynslóða. Fyrirgefðu okkur að við höfum ekki gefið rými fyrir samtal ólíkra hópa, að við höfum hleypt að vantrausti og valdabaráttu. Fyrirgefðu okkur að við höfum horft framhjá ofbeldi gegn konum, börnum, fötluðum og eldri borgurum sem svo víða er að finna.

Guð gleðinnar, eins og börn sem leika sér af lífsgleði þiggjum við gleði úr þinni hendi og erum fús að deila henni með öðrum. Takk fyrir að vera Guð barnanna og að koma sem barn til að dvelja mitt á meðal okkar. Við þökkum þér fyrir friðsamlega sambúð margra kynslóða sem deila hefðum, visku og félagsskap. Við biðjum um sættir og endurreisn inn í fjölskylduerjur. Við biðjum fyrir börnum og eldri borgurum sem hafa gleymst eða orðið útundan í þjóðfélaginu okkar. Mættu eyru okkar vera opin fyrir röddum þeirra þannig að við vöxum saman í visku og náð.

Við biðjum í nafni Jesú Krists, okkar vitra meistara og uppsprettu eilífra gæða sem gefur okkur að drekka af kærleikslind sinni. Við biðjum í anda Guðs, sem er heilög viska, opinberuð börnum og nálæg í dag í draumum okkar og vonum. Andi lífsins, frelsa okkur undan áþján kúgunar og gefðu okkur að ganga upplitsdjörf og heilshugar í ást þinni hvern dag. Amen.

Heitstrenging Guð, þú sem ert kærleikur og tekur hverju mannsbarni opnum örmum. Við treystum því að við séum þín elskaða sköpun og að við eigum rúm í hjarta þínu. Því strengjum við þess heit að: • Tala vingjarnlega hvert við annað og vera samfélag sem er fúst að fyrirgefa; • Virða hverja manneskju sem einstaka og elskaða af Guði ; • Hafa trú á framtíð í réttlæti og friði. • Veita börnum rými til að eiga sér drauma, leika sér, dansa og elska án mismununar.

Blessun Göngum út til daglegs lífs með hjartað fullt af mildi í garð barna og fullt af von um Guðs ríki; fullviss um að eins og þú tekur á móti börnunum tekur þú á móti mér. Guð blessar okkur og sendir til að taka við börnunum með bæn, trú og þrautseigju, skuldbindingu og gleði. Í dögun hvers dags meðtökum við í bæn þá blessun sem fylgir þjónustu umhyggjunnar og fögnum því að vera samverkafólk í kraftaverki lífsins. Raddir kvenna, ljós ykkar kallar okkur saman og býður okkur að taka við lífinu. Við tökum við Jesú. Amen.

María Ágústsdóttir tók saman eftir þýðíngu Sigríður Schram úr efni frá kúbverskum konum.

Mark 9.36-37: Og hann tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá: „Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig.“

Mark 10.13-16: Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki.Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.