Haustið 1981 fluttist ég með fjölskyldu minni til háskólabæjarins Lundar í Svíþjóð og hóf þar doktorsnám í gamlatestamentisfræðum. Það sama haust kom Nýja testamentið út í nýrri þýðingu á sænsku. Fékk hin nýja útgáfa mikla kynningu í fjölmiðlum en talsvert bar líka á óvæginni gagnrýni, eins og raunar virðist lögmál þegar ný biblíuútgáfa á í hlut. Sama sumar hafði komið út í bráðabirgðaútgáfu ný Biblía hér á landi með nýrri þýðingu guðspjallanna og Postulasögunnar. Sjálfur kom ég lítillega að frágangsvinnu þar, þýðingu tilvitnanakerfis og orðaskýringa. Ég taldi mig geta staðhæft að ég hefði lesið alla Biblíuna í gegn.
En fljótlega eftir að ég settist á skólabekk á nýjan leik, að þessu sinni á erlendri grundu, varð mér hugsað til þess að ég læsi í Biblíunni daglega sem hluta af námsefni mínu, væri öllum stundum að glíma við merkingu einstakra setninga og hugtaka úr hinum hebresku ritningum og rannsaka baksvið textanna með lestri bóka eftir marga af kunnustu biblíufræðingum heimsins. Sama hversu heillandi þær athuganir allar voru þá var eins og eitthvað vantaði upp á að ég væri að lesa fyrir sjálfan mig. Ég gaf mér ekki tíma til að njóta hins biblíulega boðskapar, gaf ekki gaum að ljóðrænni fegurð og trúarlegu innihaldi textanna, leyfði þeim ekki að tala til mín.
Þetta var mér talsverð uppgötvun og umhugsunarefni. Ég ákvað því að taka mér nokkrar mínútur á degi hverjum og lesa úr Ritningunni „fyrir sjálfan mig“. Hin nýja þýðing sænska Nýja testamentisins var mér kjörið tækifæri til þess. Það opnaði mér satt að segja alveg nýja sýn á Biblíuna þegar ég tók að lesa daglega valinn kafla úr henni og njóta sem fagurra bókmennta og trúarlegs texta.
Ekki spillti fyrir að lesin var sænsk þýðing sem raunar var oft gagnrýnd fyrir að meira væri lagt upp úr að koma merkingu til skila en orðréttri þýðingu. Hvað sem þeirri gagnrýni leið fannst mér þýðingin heillandi og ég sá margt í nýju ljósi, auk þess sem það hjálpaði mér að læra hið nýja tungumál. Sænska Nýja testamentið frá árinu 1981 skipar síðan sérstakan sess í hjarta mínu.
Þessi daglegi biblíulestur minn, utan gamlatestamentisfræðanna sjálfra, reyndist gefa mér mikið og ég fann það skipti mig miklu máli að eiga þannig hljóða stund með sjálfum sér og Guðs orði. Ég skal þó fúslega gera þá játningu að oft hefur orðið tímabundið hlé á þessari iðju minni. En jafnan finn ég þá fljótlega að eitthvað vantar.
Hin nýja íslenska Biblía, sem út kom síðastliðið haust, varð til þess að ég hóf enn einu sinni daglegan lestur hinna helgu ritninga. Biblía 21. aldar, sem svo hefur verið nefnd, veitir nýja sýn á fjölmarga texta en flestir þeir þekktustu eru lítið breyttir. Við þýðinguna var í senn leitast við að halda tryggð við íslenska biblíumálshefð og gera textann sem aðgengilegastan fyrir nýja kynslóð lesenda.
Útgáfu nýrrar Biblíu markar jafnan nokkur tímamót og er kjörið tækifæri til að taka sér tíma til lesturs helgra ritninga, svipað og ég sjálfur gerði á sænskri grundu haustið 1981, sællrar minningar.
Best þykir mér að hefja daginn á lestri Biblíunnar og verður mér oft hugsað til þess hve víða ritningin tengir hjálp Guðs morgninum (sbr. Sl 5:4): „Á morgnana heyrir þú ákall mitt, Drottinn.“
Að undanförnu hef ég verið að lesa Síraksbók. Það er hefur verið afar gefandi lestur. Þýðing sr. Árna Bergs heitins Sigurbjörnssonar á þessari mögnuðu bók er hreint afbragð. Ég hef notið þess í ríkum mæli að lesa og íhuga boðskap Síraksbókar og blessa um leið í huganum minn góða vin og samverkamann Árna Berg fyrir hans ómetanlega framlag.
Í ljósi umræðna um nýju biblíuþýðinguna er mjög fróðlegt að lesa hinn ævaforna formála Síraksbókar, afar merkilega heimild um hinar elstu þýðingar. Þar segir svo: „Ég bið ykkur nú að lesa bókina af velvilja og eftirtekt og taka ekki hart á því þótt misbrestur kunni að virðast á þýðingunni á stöku stað en allan lagði ég mig fram við verkið. En það sem upphaflega var samið á hebresku fær að einhverju leyti aðra merkingu þegar því er snúið á aðra tungu.“
Þessi orð hins forna þýðanda eru sannarlega enn í fullu gildi og álitamálin eru ótalmörg þegar unnið er að nýrri þýðingu og möguleikarnir jafnan margir. Það er eins og ýmsum þeim sem gagnrýnt hafa hina nýju þýðingu sjáist hreinlega yfir þetta. Oft er talað eins og aðeins ein rétt þýðing sé möguleg. Það er auðvitað fjarri öllu sanni. Löng og glæsileg saga íslenskra biblíuþýðinga færir svo sannarlega heim sanninn um annað.
Það var lærdómsríkt að fá að vinna um langt árabil við hlið þess vísa og hógværa manns sr. Árna Bergs Sigurbjörnssonar að nýrri þýðingu Gamla testamentisins. Fáum mönnum hef ég kynnst sem hafa verið jafn handgegnir Ritningunni og hann. Árni Bergur las enda í Ritningunni á degi hverjum og stóð reglulega fyrir biblíulestrum með sóknarbörnum sínum. Ég veit að hann var ekki einn um það meðal presta en fleiri mættu standa fyrir biblíulesrum í söfnuðum sínum. Biblía 21. aldar mætti gjarnan verða tilefni til slíks framtaks í hinu kirkjulega starfi.
Hinn vísi Sírak hefur margt viturlegt að segja um gagnrýni, svo sem: „Finn eigi að neinu að ókönnuðu máli, hygg fyrst og gagnrýn síðan (Sír 11:7), „Oft er áminnt í ótíma, tíðum er viturlegra að þegja“ (Sír 20:1).
Því er ekki að neita að svo virðist sem ýmsir taki hinni nýju Biblíu þannig að þeir lesi hana fyrst og fremst í leit að textum sem betur mættu fara og finni þeir fljótlega einn eða tvo slíka þá setjast þeir við tölvuna og skrifi skammargrein, sendi Mogganum og heimti nýja prentun gömlu Biblíunnar. Komist svo jafnvel að því síðar að „gallaði“ textinn var nákvæmlega eins í gömlu Biblíunni.
Með þessum pistli vil ég hvetja lesendur til að gefa sér tíma til að lesa í hinni nýju biblíuþýðingu, lesa fordómalaust, leitast við að njóta og íhuga innihald þeirrar helgu bókar sem fylgt hefur íslenskri þjóð um aldir. Þeim mínútum sem á degi hverjum er varið til slíkrar iðju er ekki illa varið.