Að ná langt en vera samt ekki komin þangað. Oft er þetta fyrsta hugsun þegar réttindi kvenna eru rædd. Gjarnan í kaldhæðnislegum tón og svo er maður ekki bara viss um stöðuna. Formæður sem lögðu allt í sölurnar, konur nútímans sem leggja allt í sölurnar, dæturnar sem bíða eftir lífinu og geta spilað úr gáfum og hæfileikum, jafnræði til vinnu, launa og gæða - og svo er maður bara ekki viss um að við séum komin alla leið til jafnréttis.
Hverju er um að kenna gæti maður spurt. Stjórnvöldum? Afturhaldsöflum? Launagreiðendum? Almennri íhaldssemi? Svo mætti lengi telja. Bríet
Á kvenréttindadegi leggjum við blóm að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem var forystukona og baráttukona. Við göngum að Þvottlaugunum, minnumst formæðra okkar og baráttu þeirra. Höldum guðsþjónustu til heiðurs Guði sem skapar allt líf til jafnréttis. Við vitum því að réttindi okkar til lífs og gæða sem við þiggjum úr hendi skapara okkar eru jöfn - jafnrétti Á kvenréttindadegi hugsa ég líka til réttinda sem mér voru fengin í vöggugjöf, sem dætrum mínum voru fengin í vöggugjöf, mæðrum okkar, systrum, vinkonum og frænkum
Svo einhverra hluta vegna eru þessi réttindi ekki virt, því miður. Við höfum náð langt en erum samt ekki komin þangað. Kannski af því við könnumst ekki við okkar eigin hleypidóma og þá er erfitt að uppræta misrétti. Tungan segir annað en sannfæringin.
Jesús
Á kvenréttindadegi hugsa ég til orða leiðtoga lífsins, Krists, sem beindi sjónum að jafnrétti og kjarki og treysti konum sem öðrum til forystu og verka. En erum við komin alla þá leið sem þar var mörkuð í upphafi ? Þetta er góður dagur til að halda á lofti verkum formæðra okkar sem börðust , ruddu brautir og sýndu kjark og frumkvæði. Þetta er líka góður dagur til að huga til þeirra samtímakvenna sem halda merkjum á lofti og minna okkur á hvar við erum stödd, enn á leiðinni. Guð gefi okkur fullan skilning á misrétti og kraft til að bæta úr svo við getum sagt að við höfum náð langt og stefnum áfram alla leið.