Að kvöldi þessa kristniboðsdags, þegar kirkjan minnist kristniboðs um víða veröld og þeirra sem af ríkri ósérhlífni boða og hafa boðað kristna trú öðrum til vakningar, hlýðum við hér á vel flutta tóna ættaða frá raddböndum rokkkóngsins Elvis Aron Presley. Og einhverjir kynnu að spyrja sig hvað klerkur eigi nú við með því að bjóða upp á messu kennda við þetta íkon vestrænnar dægurlagamenningar á degi kristniboðs. Er hann einkum að hugsa um að laða fólk til kirkjunnar, hefur Elvis eitthvað með trú að gera, hefur hann lagt eitthvað til í samhengi kristniboðs? Þetta eru áhugaverðar spurningar. Ef ég ætti að svara þeim örstutt, þá myndi ég bregðast við þeirri fyrstu á þann veg að það kaupir enginn fólk til kirkju, sá er heldur því fram hefur mjög takmarkaða trú á fólki, næstu spurningu væri hægt að svara á ótal vegu, en ég segi að trú hefur snert hverja manneskju með einum eða öðrum hætti, enginn kemst hjá því að velta henni fyrir sér og allar lífssögur miðla einhverri trú, það hefur meira að segja saga Elvis gert. Síðustu spurninguna væri hægt að tækla í stuttu máli þannig að það hafi hann einkum gert með nokkuð geðfelldum söng sínum og ekki síst áhuga fyrir gospeltónlistinni, þeirri tónlist er sprettur upp úr jarðvegi fjötra og þjáninga og finnur lausn og frelsun í hinum upprisna Jesú Kristi, sem sagði: Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.“ Eitt af því sem sækir á huga minn, þegar um Elvis er fjallað, er sú staðreynd að með því versta sem hægt er að gera fólki er að tilbiðja það. Sú varð raunin með rokkgoðið sáluga og hefur það náð fram yfir gröf og dauða, eins og menn þekkja, þeir allra hörðustu halda því jafnvel fram að Elvis gangi enn á meðal okkar og hvika ekki frá þeirri trú. Líf hans kennir okkur það að það þolir ekki nokkur mannssál og á það heldur ekki skilið að vera tilbeðin hversu dásamleg hún kann að vera, með tilbeiðslu nefnilega fölnar hún frekar, hverfur meira og meira inn í sig sjálfa, fer að líta á sig sem Guð almáttugan og veikleikarnir brjótast fram af fullum þunga. Þegar talað er um hrós og hvatningu, þá er það nú allt önnur Ella, svo því sé haldið til haga. Tilbeiðsla gerir hverja mannssál að fórnarlambi, því það á enginn að þurfa að keppa við Guð og það er jafnframt fjarri vilja Hans, því svoleiðis lagað flokkast þar að auki undir andlegt ofbeldi. Án þess að ég sé að líkja mannssálinni við djöfulinn sjálfan, þá er verðugt að minna sig á freistingafrásögu Nýja testamentisins þegar djöfullinn reyndi með kænsku sinni að fá Jesú til að tilbiðja sig. Hann bauð frelsaranum öll ríki veraldar, veldi þeirra og dýrð í staðinn. Jesús féll ekki í þá freistni og sagði þess í stað: „Drottin Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ Við tilbiðjum ekki manneskjur, með tilbeiðslu sýnum við þeim vanvirðingu. Vinsældir og frægð er vissulega vandmeðfarið viðfangsefni og þar geta línur milli áhuga, aðdáunar og tilbeiðslu verið ákaflega þunnar. Það kemur nú hvað best í ljós þegar Elvis var hvað ríkastur og frægðarsólin reis sem hæst, þá var fátækt hans í raun aldrei meiri, hún birtist t.a.m. í formi einsemdar og vansældar og traust var honum fjarlægt hugtak og reyndist t.d. þrándur í götu í ástarmálunum. Í uppvexti sínum bjó Elvis við veraldlega fátækt, en þar var víst hans helsta ríkidæmi að finna í kærleika móður hans, sem lét sér verulega annt um hann og hún átti traust hans, hún sá fyrir þeim mæðginum með saumaskap á meðan faðirinn sat í fangelsi. Móðirin var þó heldur ekkert gallalaus, óhófleg áfengis- og lyfjaneysla dró hana til dauða 46 ára gamla, en svo virðist sem að Elvis hafi samt sem áður kynnst því hvað er að treysta hjá henni og þá áttu kirkjuferðir á yngri árum að hafa haft sterk áhrif á drenginn, hann heillaðist mjög af söng kórsins, og sömuleiðis hreyfingum og þátttöku prestanna í tónlistarflutningnum eins og segir á einum stað. Albert Goldman lýsir í bók sinni um Elvis heimili söngvarans í Graceland, þar segir: „Svefnherbergi Kóngs er furðulegasta vistarveran í þessari hillbillyhöll.“ „Hvílíkt rúm! Tvöföld yfirstærð, 2,7 metrar á hlið, búið margvíslegu prjáli og skarti. Öðrum megin þess er stór ljósmynd af móður Elvis, hinu megin málverk af Jesú Kristi. Úti í hornum kúra gríðarstórar sessur, klæddar hvítum gervifeldi.“ Þarna voru móðir hans og Jesús Kristur, þessar tvær persónur, þessir tveir holdgervingar gæsku og trausts innan um prjál og gervifeldi, sem enn minntu hann á hvaðan hann kom og hver hann var. Það var víst þannig að trúin var snar þáttur í uppeldi Elvis og þá ekki hvað síst tónlistaruppeldi. Hann tilheyrði Fíladelfíukirkjunni og þar var tónlistin í hávegum og svo var hlustað á útvarpið á kvöldin þar sem hljómuðu trúarsöngvar, sem fóru margir á plötur síðar meir í flutningi Elvis. Þá var það víst þannig að þegar Elvis var dapur og tregafullur þá leitaði hann sér huggunar í trúnni á þann hátt sem honum var eðlilegur. Ýmsir hafa bent á það að svokallaður „kalvínskur“ grunnur trúarsannfæringar Elvis hafi gefið honum gott veganesti, að hann myndi njóta ávaxta erfiðis síns í þessu lífi. Þegar talað er um kalvínskan grunn þá er verið að vísa í Jóhannes Kalvín, sem var uppi á tímum siðskipta og var það kjarnastef í kenningum hans að Guð væri búinn að velja út þá sem kæmust áfram í lífinu þ.e.a.s. að frelsun mannsins væri undir útvalningu Guðs komin. Þeir tókust á um þetta Kalvín og Marteinn Lúther, en Lúther sagði hins vegar að ef maðurinn tæki við Guði og leyfði Guði og gæðum Hans að móta persónu sína myndi hann öðlast hjálpræði, frelsun Guðs og styrk. Í þessu samhengi er allt í lagi að láta það koma fram að Þjóðkirkjan hér á landi er lútersk. Móðir Elvis Aron Presleys, Aron væntanlega eftir bróður Móse í annarri Mósebók helgrar ritningar, lagði jafnframt áherslu á það að hann væri jafn þeim, sem betur stóðu í lífinu, þrátt fyrir að fjölskyldan hafi tilheyrt fátækri hvítri lágstétt í Suðurríkjunum. Með þá hvatningu fór Elvis úr foreldrahúsum á vit ævintýra og búinn þeirri stóru náðargjöf, sem rödd hans var, en það er mál manna að hann hafi verið afar góður og hæfileikaríkur söngvari, en þær fígúrur er urðu til af honum og mynduðust í allri markaðssetningunni og tilbeiðsluæðinu, hafi varpað skugga á þá miklu hæfileika, sem hann í raun bjó yfir. Þó voru ekki allir sem tilbáðu hann heldur upplifði Elvis einnig hina öfgana, þar sem kynþáttahatarar og aðskilnaðarsinnar í Suðurríkjunum útilokuðu hann með öllu, vegna auðheyranlegra og sjáanlegra áhrifa tónlistar svartra á hann og limaburðinn. Við vitum væntanlega flest ef ekki öll hvernig ævintýrið hans Elvis fór og endaði, 42 ára var hann allur eftir reglulega óreglu, þar sem hann fann ekki frið í sálu sinni, þetta fórnarlamb frægðarinnar, þeirrar frægðar, sem það sóttist jú fast eftir að eignast á sínum tíma. Honum verður kannski seint hrósað fyrir kvikmyndaferilinn, sem var heldur B-myndalegur, en rödd hans strýkur á vanga og þau lög er hann söng eru mörg hugljúf. Ég persónulega hef lítið hlustað á Elvis, en fyrir þessa messu gerði ég það nú og kynnti mér svolítið líf hans í greinum og bókum. Eitt þeirra laga, sem hann söng, kann ég reyndar afar vel við og ber það titilinn The Ghetto. Textinn er þar líka talsvert áhrifaríkur, því það má vel sjá fyrir sér lífshlaup Elvis í honum. Þar höfum við umfjöllun um hringrás óhamingjunnar í fátækrahverfinu, sorgir mæðranna, um fjöldann sem safnast saman í kringum reiðan ungan mann og fyrir aldur fram lætur hann lífið fyrir eigin hendi. Lögin sem Elvis söng voru mörg tregafull og lýstu ævivegi hans á margan hátt ágætlega, hann hefur vafalaust sungið þau betur fyrir vikið og af meiri innlifun, það á við um The Ghetto, eins og önnur lög sbr. Are you lonesome Tonight, Crying in the Chapel, eða Love Me Tender, Love Me True. Líf Elvis minnir okkur jú áþreifanlega á það hversu mikilvægt það er að beina átrúnaði sínum í heilbrigðan farveg okkur sjálfum og öðrum til heilla og blessunar. Það hefur verið sagt að goðsögnin Elvis hafi löngu sagt skilið við raunveruleikann og í hennar stað er kominn grunnur að trúarbrögðum; þá er það spurningin hvort það geti verið að átrúnaður verði almennur á Elvis Presley vestur í Bandaríkjunum? Það er svolítið merkilegt þegar minnst er á Aron í nafni Elvis, sem var jú bróðir Móse, að þá leituðu Ísraelsmenn einmitt til hans forðum þegar Móse seinkaði ofan af fjallinu og báðu hann um að búa til guð handa sér, sem gæti leitt þjóðina áfram fyrst Móse var ekki kominn. Aron fékk alla gullhringi úr eyrum kvenna og bræddi og steypti úr þeim kálf og síðan reisti hann altari. Þar með brotnaði 1. boðorðið þá þegar, þar sem Guð hafði talað um það að þjóðin skyldi ekki aðra guði hafa en sig. Gullkálfurinn hefur staðið sem minnismerki um óþolinmæði manneskjunnar í trúnni, en sömuleiðis fyrir eðlislæga trúarþörf hennar. Það krefst þolinmæði að trúa á Guð, það hafa ófáir sýnt og sannað sem hafa helgað líf sitt Honum og útbreiðslu fagnaðarerindisins um allan heim, óþolinmæðin og krafan um sýnileika og áþreifanleika eru þættir sem geta beint trúarþörfinni í undarlegustu farvegi, það er ekkert galið að halda því fram að hann Elvis Aron Presley, gospeldrengurinn frá Mississippi, hafi orðið einskonar þolandi gullkálfsdýrkunar. „Verið þið einnig þolinmóð, styrkið hjörtu ykkar því að Drottinn er í nánd.“ Í Jesú nafni. Amen.
Elvis og gullkálfurinn
Flokkar