Mannaveiðar

Mannaveiðar

Það virðist ekki beinlínis ætlast til þess í dag að fólk hafi hátt um trú sína, hvað þá boði öðrum hana. Viðkvæðið er gjarnan að það sé með eindæmum hrokafullt að þröngva eigin trú upp á aðra og telja fólki trú um að hún sé sú rétta.

Knappstaðakirkja

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mér hefur alltaf þótt vænt um guðspjall dagsins, þar sem segir frá fiskidrætti Péturs, ekki síst vegna þess að það var guðspjallið sem ég prédikaði út frá þegar ég þreytti frumraun mína í prédikunarstólnum. Ætli það séu ekki orðin ein 13 eða 14 ár síðan. Ég var ferlega stressaður og hálf aumingjalegur guðfræðinemi. En ég man að ég var býsna ánægður með mig á eftir og nokkuð stoltur. Það vill svo til að ég á þessa ræðu enn þá og leit á hana í gær mér til gamans þegar ég var að hugleiða guðspjallið – og það er skemmst frá því að segja að sú ræða verður aldrei flutt aftur, af ýmsum ástæðum. Ég ætlaði augljóslega að segja allt sem segja þurfti í einni ræðu og tók mér langan tíma til þess. Ég hef nú sennilega fallið í þá gryfju oftar en einu sinni. En það var þá. Við sjáum hvað verður í dag. Guðspjallið um fiskidrátt Péturs er margþætt og margrætt eins og guðspjöllin jafnan eru. Það greinir frá persónulegum kynnum. Það segir frá því þegar Jesús varð fyrst á vegi fiskimannsins Símonar Péturs. Jesús var, líkt og svo oft áður og síðar, að tala til mikils fjölda manns við Genesaretvatnið. Núna vildi ekki betur til en að Jesús hrökklaðist út í bát vegna ágangsins og ákafa fólksins sem hafði komið til að hlýða á hann. Það reyndist vera bátur Péturs. Pétur virðist ekki hafa gefið Jesú háa einkun fyrirfram en lét undan honum þegar Jesús bað hann síðar að kasta netum sínum út á vatnið. Það sem á eftir fylgdi opnaði augu Péturs fyrir því að Jesús væri ekki hver annar maður. Hann varð ekki samur á eftir, ekki frekar en aðrir fyrr og síðar sem hafa orðið á vegi Jesú. Upp frá þessu fylgdi Pétur Jesú og helgaði líf sitt þjónustunni við hann. Hann snéri sér að annars konar veiðum en þeim sem hann var vanur.

Að þessu leyti segir guðspjallið líka með sínum hætti sögu kirkjunnar og áréttar hlutverk hennar. Bátur er ævafornt tákn fyrir kirkjuna sem veltist um mannhafið með Jesú fyrir stafni. Kirkjunni, þ.e. samfélagi þeirra sem leggja traust sitt á Jesú, trúa á hann og fylgja honum, er ætlað að veiða fólk. Henni er með öðrum orðum falið það hlutverk að gera alla að lærisveinum og fylgjendum Krists með því að kenna þeim og fræða þá um allt það sem Jesús sagði og gerði. Það er hið mikla og stóra hlutverk kirkjunnar, það sem sérhverjum kristnum manni er ætlað að gera: Að lifa trú sína gagnvart sjálfum sér og öðrum – að boða trúna!

Kirkjan er kölluð. Við erum kölluð fram. Það er hin orðrétta merking gríska orðsins ekklesia sem merkir kirkja. Kirkjan er þau sem kölluð eru fram. Og sem kristið fólk erum við kölluð. Við erum, eins og Pétur áréttar sjálfur í pistli dagsins, útvalin, kölluð til „heilags prestdóms, til að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar“. Okkur ber öllum að vitna um Guð og bera vilja hans vitni í okkar lífi. Okkur er ætlað að vitna um eigin trú, í orði og verki. Til þess erum við kölluð sem lærisveinar Krists.

„Legg þú út á djúpið“, segir Jesús. Hann er að tala um mannhafið. Og hann er að tala við okkur. Hann er að kalla á okkur. Hann er að kalla á þig og mig. Og hvað gerum við? Hvernig bregst þú við? Hlýtir þú kallinu? Það er spurningin! Hvað ert þú reiðubúinn að gera? Og hvað mætir þeim sem leggja út á djúpið? Ja, ólíkt Jesú hrökklast maður kannski ekki í burtu vegna alls þess fjölda sem kemur til þess að hlýða á orð Guðs. Ágangurinn er ekki slíkur. Eftirspurnin er ekki sú sama nú og áður. Það verður að viðurkenna það. Það er miklu fremur að maður hrökklist í burtu og láti hugfallast vegna þeirrar gagnrýni og tortryggni sem mætir þeim sem hafa guðsorð á vörum og ræða opinskátt um trú sína. Sú gagnrýni getur verið óvægin og hatrömm. Þeir sem hlusta eftir trúmálaumræðunni í dag, ekki síst þegar kemur að kirkju og kristni, vita hvað ég á við. Auðvitað er hún ekki á eina lund. En þeir sem fyrirferðamestir eru tala allir á sömu nótum. Þeir vara við hættunni sem fólki steðjar af kirkjunni og kristinni trú. Það þurfi að koma einhverjum böndum um hana, þagga niður í henni eins og kostur er, draga úr áhrifum hennar og sýnileika, gera sem minnst úr henni.

Það virðist ekki beinlínis ætlast til þess í dag að fólk hafi hátt um trú sína, hvað þá boði öðrum hana. Viðkvæðið er gjarnan að það sé með eindæmum hrokafullt að þröngva eigin trú upp á aðra og telja fólki trú um að hún sé sú rétta. En þá spyr ég og vona að aðrir gera það líka: Er sá sem slíkt segir trúlaus eða viðhorfslaus með öllu? Nei, vitanlega ekki. Enginn er það. Krafa þess sem svo segir ber vitni um skýr viðhorf og afdráttarlausa trú sem hann vill þröngva upp á aðra og telja þeim trú um að sé hin eina rétta. Með öðrum orðum telur sá maður sig í fullum rétti til að gera einmitt það sem hann vill meina öðrum um. Það sjá allir hvað er að slíku viðhorfi.

Annað sem maður heyrir oft í þessu samhengi er að trúað fólk eigi einfaldlega að sjá sóma sinn í því að halda trú sinni fyrir sig. Ég hugsaði um þetta þegar ég horfði á kosningavöku sjónvarpsins vegna forsetakosninganna. Hinir og þessir voru kallaðir til að lýsa skoðunum sínum á frambjóðendunum og sýn sinni á kosningarbaráttuna. Þar á meðal var bóndi, fyrrum forsætisráðherra, búfræðingur, leikstjóri, almanntengill, sagnfræðingur, leiðtogafræðingur og samfélagsstjóri. Og ég hugsaði með mér: Hvað ef prestur hefði nú verið kallaður til eða bara yfirlýstur kristinn maður? Hver hefði þá þótt vera utanveltu og skera sig úr hópnum? Sennilega ekki leikstjórinn. Og örugglega ekki bóndinn. Bændur sóma sér vel hvar sem þeir eru.

Raunin er sú að það er ekki til þess ætlast að kristin trú, eða trú almennt, leiki hlutverk eða hafi áhrif á opinberum vettvangi. Trúarleg sjónarmið eiga ekki að móta samfélagslega umræðu. Sú þróun er langt gengin í hinum vestræna heimi og fer vaxandi hér á landi. Af þeim sökum hefðu ýmsir litið svo á að prestinum væri ofaukið í umræðunum. Hvað í ósköpunum hefur prestur, eða sá maður sem kemur ekki á öðrum forsendum en þeim að vera kristinnar trúar, að gera sem álitsgjafi í kosningavöku sjónvarpsins? Margir hefðu spurt sig. Þið áttið ykkur á því hvað ég á við. Samfélagsleg umræða á að vera veraldleg í eðli sínu. En með því er einfaldlega verið að segja að einungis þeir sem eru trúaðir verða að skilja við sig þann hluta mennsku sinnar sem þeir telja mikilvægastan, ef þeir ætla á annað borð að taka þátt í samfélagslegri umræðu og hafa skoðun á henni. Aðrir mega koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. En þetta er auðvitað fráleitt. Trú fólks er ekki ein skoðun við hlið annarra í lífi fólks. Hún er ekki einn aðskilinn þáttur af mörgum heldur það sem rammar inn allt lífið og fellir það saman í eina merkingarbæra heild. Það er trúin sem geymir svör fólks við grundvallarspurningum lífsins og mótar upplifun þess af og skilning þess á lífinu og sjálfu sér. Það er trúin, innsta sannfæring fólks, sem gefur lífi þess merkingu og gildi. Það á við um alla, líka þá sem telja sig vera trúlausa. Og þið getið verið viss um að þeir sem tala fyrir því að fólk skilji trúarleg viðhorf sín eftir heima gera ekki sömu kröfur til sjálfs sín.

Við getum auðveldlega sett okkur í spor Péturs og hinna lærisveinanna. Það er auðvelt að láta hugfallast og freistandi að loka sig af með trú sína og láta lítið fyrir henni fara. En það megum við ekki gera. Mesta hættan sem steðjar að kirkjunni eru ekki þeir sem tala hana niður og gagnrýna heldur miklu fremur þeir sem tilheyra kirkjunni og kenna sig við nafn Jesú en þegja þunnu hljóði. Við erum köllum fram, kölluð fram til orða og athafna. Ef við tökum trú okkar á annað borð alvarlega getum við ekki leyft okkur annað. Hvað er annars trú sem þarf að fara í felur með? Trú sem þolir ekki dagsljósið? Við setjum ekki trú okkar undir mæliker heldur á ljósastiku svo hún lýsi öllum sem á vegi okkar verða, hvar sem er á vettvangi lífsins. Höfum boð Drottins og fyrirheit hugföst: „Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig og boða hvað eina sem ég fel þér. Þú skalt ekki óttast þá því að ég er með þér til að bjarga þér,“ segir Drottinn . . . Ég veiti þér vald yfir þjóðum og ríkjum til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og gróðursetja.“

Guðspjallið minnir okkur á og áréttar hvað hægt er að gera, hvað getur gerst og mun gerast, þegar Jesús er með í för, hvað getur gerst og gerist þegar vilji hans fær að ráða og leiða. Pétur var ekki fullkominn maður. Hann var breyskur og mistækur, fljótfær og hrokafullur. Það sama á við um alla lærisveinanan. Það er viss huggun fyrir okkur. Við erum ekki heldur fullkomin. Við erum mannleg og verðum að horfast í augu við eigin bresti. Og kirkjan er mannleg. Hún getur ekki annað verið enda er hún samfélag manna, safn ófullkomins fólks. En við erum leidd af fullkomnum Guði, kölluð af honum, send af honum, til þess að vitna um hann. Það er ekki fórn í neikvæðri merkingu. Að yfirgefa allt vegna Jesú merkir ekki skeytingarleysi gagnvart öllu öðru heldur miklu fremur að láta ekkert halda okkur frá Jesú eða skyggja á hann og gera það allt fremur að vettvangi þjónustunnar við hann, hvort heldur sem er innan marka einkalífsins eða á opinberum vettvangi.

Það eru forréttindi okkar að fá að þjóna algóðum og almáttugum Guði og vitna um hann, bera vilja hans vitni og ganga fram í kærleika hans. Hann kallaði okkur öll til lífs og til samfélags við sig í lífinu. Það á að vera okkur uppspretta gleði og hamingju að tala við hann og ekki síður um hann, að vitna um trú okkar, um þann mikla Guð, skapara himins og jarðar, sem við ávörpum og áköllum sem föður okkar. Kirkja sem gerir það, kirkja sem lætur leiðast af honum, mun standa af sér alla storma. Og slík kirkja mun alltaf fiska vel, hvernig sem samtíminn vegur og metur þann afla. Og þegar allt kemur til alls er kristin trú ekki fólgin í öðru en að treysta í einu og öllu á Guð eins og Jesús Kristur birtir hann og bera orðum hans og vilja vitni í hugsunum, orðum og gjörðum.

* * * *

Kollekta:

Drottinn Guð, þú, sem hefur fyrirbúið þeim er þig elska þá blessun, er ekkert auga leit: Lát hjörtu vor fyllast kærleika, svo að vér elskum þig í öllu og öðlumst þannig það, sem þú hefur heitið og yfirgnæfir allar óskir vorar. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Ritningarlestrar

Lexía: Jer 1.4-10

Orð Drottins kom til mín: Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig. Áður en þú fæddist helgaði ég þig og ákvað að þú yrðir spámaður fyrir þjóðirnar. Ég svaraði: „Drottinn minn og Guð. Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“ Þá sagði Drottinn við mig: „Segðu ekki: Ég er enn svo ungur. Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig og boða hvað eina sem ég fel þér. Þú skalt ekki óttast þá því að ég er með þér til að bjarga þér,“ segir Drottinn. Síðan rétti Drottinn út hönd sína, snerti munn minn og sagði við mig: „Hér með legg ég orð mín þér í munn. Ég veiti þér vald yfir þjóðum og ríkjum til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og gróðursetja.“

Pistill: 1Pét 2.4 -10

Komið til hans, hins lifanda steins, sem menn höfnuðu en er í augum Guðs útvalinn og dýrmætur. Látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestdóms, til að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar. Því að svo stendur í Ritningunni: Sjá, ég set hornstein í Síon, valinn og dýrmætan. Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar. Yður sem trúið er hann dýrmætur en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, orðinn að hyrningarsteini

og:

ásteytingarsteini og hrösunarhellu. Þeir steyta sig á honum af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað. En þið eruð „útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir hans,“ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. Þið sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðin „Guðs lýður“. Þið sem „ekki nutuð miskunnar“ hafið nú „miskunn hlotið“.

Guðspjall: Lúk 5.1-11

Nú bar svo til að Jesús stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. Þá sá hann tvo báta við vatnið en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn er Símon átti og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.

Þegar hann hafði lokið ræðu sinni sagði hann við Símon: „Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar.“

Símon svaraði: „Meistari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“ Nú gerðu þeir svo og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska en net þeirra tóku að rifna. Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana svo að nær voru sokknir.

Þegar Símon Pétur sá þetta féll hann á kné frammi fyrir Jesú og sagði: „Far þú frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ En felmtur kom á hann og alla þá sem með honum voru vegna fiskaflans er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“ Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.