Við sátum nokkrir afmælisgestir og ræddum tilgang Facebooklífsins. Sitt sýndist hverjum um gagn og gaman þessa fyrirbæris og ólíkt höfðumst við að með okkar eigin síður, sum höfðu lítinn hóp lærisveina í kringum sig á meðan aðrir kusu að boða öllum „heiminum“ fagnaðarerindið um líf sitt. Hvað má segja og hvað má ekki segja á Facebook?
Við vorum öll sammála um að það væri hið mesta böl að setjast við lyklaborð undir áhrifum áfengis, þá er hætta á að menn missi prófið eða það sem verra er, særi aðra. En hvernig á þá að höndla þennan magnaða veruleika sem hefur dáleitt heimsbyggðina til fylgis við sig? Er Facebook auglýsingamiðill, stefnumótasíða, sjálfsstyrkingarnámskeið, eineltisathvarf, stjórnmálaþáttur, prestur eða sálfræðingur? Kannski sitt lítið af hverju.
Er gott að tala um tilfinningar sínar á Facebook, vonbrigði, reiði og óuppgerð mál?
Sem prestur segi ég nei, út frá faglegu sjónarmiðið segi ég nei, sem manneskja segi ég nei. Og hvers vegna? Það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég svara þeirri spurningu er setning úr fyrsta kafla Jóhannesarguðspjalls „Og orðið varð hold, hann bjó með okkur, fullur náðar og sannleika.“ Orðið var nefnilega Guð sem sá ekki betri leið til að nálgast okkur mennina en verða sjálfur maður, mæta okkur sem Jesús Kristur af holdi og blóði, þannig leysti Guð ágreining sinn við mannkynið. Það er fyrsta stóra vísbendingin um að breytingar geta ekki orðið öðruvísi en í nánd, mannlegri nánd og sú nánd næst aldrei í gegnum tölvuskjá, það er af því að við erum ekki bara það sem við segjum, við erum í raun meira það sem við erum á meðan við segjum hlutina.
Facebook er til margra hluta gagnlegt en það er ritstýrður veruleiki og samskipti innan þess eru gríðarlegum takmörkunum háð eins og við vitum öll. Ég er mjög ósammála því að fólk opni sár sín á Facebook vegna þess að það þarf snertingu og nánd til að græða sár, það þarf augnsamband, nærveru og sýnilega samlíðan sem aðeins verður greind með atferli samverunnar. Hefurðu ekki annars rekið þig á að tvær manneskjur geta sagt nákvæmlega sama hlutinn, orðrétt, en önnur kallar fram gremju á meðan hin veitir gleði og jafnvel lausn. Það eru gömul sannindi og ný að það er ekki sama hvernig hlutirnir eru sagðir.
Ræða getur þannig verið misgóð og jafnvel misinnihaldsrík eftir því hver flytur hana, sumir tala af svo mikilli tilfinningu að þú tekur allt sem þeir segja inn að hjarta og hugleiðir og geymir eins og fjársjóð, þá eru það ekki bara orðin sem tala, það er atferlið og hjartalag flytjandans.
Tilfinningar eru einfaldlega of dýrmætar til að hægt sé að selja þær ódýrt, við verðum að hlúa að þeim með raunverulegum samskiptum þar sem við tökumst á við okkur sjálf og aðra, auglitis til auglitis. Það er nefnilega svo auðvelt að komast upp með að tala undir rós og segja hálfkveðnar vísur bak við skjáinn þegar ekkert andlit er til að spegla hugrenningar manns og líðan og það er ekki heilbrigður veruleiki, gerir engum gagn. Þar með er ég ekki að segja að Facebook sé til einskis nýtt, það er áhugaverður miðill í takmörkunum sínum sem undirrituð hefur oft gaman að og tekur virkan þátt í. Og oft einfaldar það boðleiðir svo um munar og víkkar vitund manns um þjóðmálin.
Vefröskun er ný tegund geðröskunar á vesturlöndum sem finnur sér gjarnan stað meðal unglinga, þá er eins og tölvuheimurinn gleypi þau með húð og hári og lami með öllu löngun þeirra til að taka þátt í raunveruleikanum. Á almannaheillafundi hér á Akureyri heyrði ég fyrst af þessum nýja vágesti geðheilbrigðiskerfisins, þar lýstu geðlæknar áhyggjum sínum af þessari þróun. Þetta er mjög umhugsunarvert í ljósi umræðunnar um fíkniefnanotkun unglinga hér á Íslandi og misnotkun á læknadópi, það virðist vera eitthvað í menningu okkar sem gerir það að verkum að börnin vilja flýja. Hvað er það? Er það skortur á mannlegri nánd? Er það afskiptaleysi? Röng forgangsröðun? Brenglað gildismat?
Það kom a.m.k mjög við mig á dögunum þegar við hjónin settumst niður með 9 ára syni okkar og spiluðum við hann, þegar hann sagði „þið eruð bestu foreldrar í heimi að nenna að spila við mig“ við höfum nefnilega aldrei nennt því hingað til en ákváðum að setja þarfir okkar til hliðar þetta eina kvöld og afraksturinn varð þessi líka fölskvalausa gleði drengsins.
Ég var hugsi eftir þetta og ætla að vera það dálítið lengur. Og kannski þarf ég líka að vera aðeins minna inn á Facebook.