Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé?“ Þeir gátu engu svarað þessu.
Jesús gaf því gætur hvernig boðsgestir völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ Lúk 14.1-11
Við höfum til skoðunar hluta af 14.kafla Lúkasarguðspjalls. Kristur er á ferð og eins og jafnan er hann miðpunktur athyglinnar. Þegar hér kemur sögunni greina heimildir svo frá að Jesús frá Nazaret hafi læknað 7 sinnum á hvíldardegi. Þar var það t.d. tengdamóðir Péturs postula, Bartímeus blindi, lamaði maðurinn við Betesda laugina og fleiri.
Maður skyldi ætla að slík afrek hefðu fært honum aðdáun fjöldans og viðurkenningu framámanna í samfélaginu. Hann kom fólki til heilsu, sem þjáðist, fólki sem enginn hafði getað bætt úr fyrir. Það var einangrað og afskipt vegna sjúkleika síns. En það var nú öðru nær. Með sérhverju góðu verki sem Kristur vann, urðu fræðimennirnir og Farísearnir vissari um að hann væri stórhættulegur maður, sem virti engin takmörk og bryti lögin. Allt þyrfti að gera til að stöðva hann. Ein meginástæðan fyrir því að Kristur var tekinn af lífi var sú að hann læknaði fólk á hvíldardögum, m.ö.o. vann á hvíldardeginum og gerðist með því brotlegur við lögin.
Í því tilfelli sem guðspjallið greinir frá er hann kominn til að þiggja heimboð hjá Farísea. Matinn mátti auðvitað ekki sjóða eða útbúa á helgideginum, það varð að gera á föstudeginum áður. Skýr ákvæði voru um það hvað gera mátti á hvíldardeginum – og það var næsta fátt. Eftirlit var með þessu, smásmuguleg eftirgrennslan um athafnir fólks voru trúarbrögðin þeirra. Því var ekki von að slíkt reglugerðafólk skildi Jesú Krist. Sennilega var sjúki maðurinn ekki einu sinni af hendingu staddur við hús Faríseans, heldur hafi honum verið stillt þar upp. Fram kemur í textanum að farísearnir höfðu gætur á Jesú. En hiklaust gekk hann samt sem áður til veika mannsins og læknaði hann. Hann vissi vel hvað þeir voru að hugsa, svo að hann vitnaði í lög þeirra og reglur. Þar var undantekning: Ef dýr féll í brunn mátti bjarga því. Og Kristur segir því: Ef rétt er að bjarga skepnum á hvíldardegi, hvers vegna er þá rangt að bjarga mönnum?
Kristur var sífellt gagnrýndur, hversu mjög sem hann lagði sig fram. Hann neitaði aldrei nokkrum um hjálp. Hann afþakkaði heldur aldrei boð gestrisins fólks. Allt til loka vænti hann þess að fólkið sæi þetta sjálft. Eins og varð t.a.m. í húsi Zakkeusar. Þegar nærvera Krists varð til þess að tollheimtumaðurinn og fólk hans breytti um innstillingu og lífsstíl. Hann þáði líka boð andstæðinga eins og Faríseans í texta dagsins. Ekkert breytist ef við lokum á samskipti, það getur þurft viljastyrk til þess að láta sem ekkert sé, halda áfram þrátt fyrir svikráð og undirhyggju. En góðverkið í dag var notað gegn honum síðar. Kristur linaði þjáningu manns á röngum tíma, það vatt upp á sig, það varð á endanum dauðasök. Fólkið varð múgur, hamslaus og sefjaður múgur sem hrópaði í sífellu “Krossfestu hann.”
Sumpart svipar þessu til Íslands í dag. Áþekkir atburðir hafa alltaf verið að gerast í heiminum – einnig í okkar litla landi. Eftir siðbótina varð rétttrúnaðartímabilið. Þá þurfti að hreinsa kirkjuna, hreinsa af fornum bábiljum. Við hin lúthersku og aðrar kirkjudeildir siðbótarinnar urðum kaþólskari en páfinn. Reglugerðir og ákvæði, sem var vandlega framfylgt urðu markmið margra.
Stundum hefur sú skoðun verið uppi að hægt sé að stjórna siðferði fólks með lögum. Að lög og reglur geti náð yfir allt og þannig sé hægt að skapa fullkomið samfélag. Á dögum Kristjáns IV, í þeim jarðvegi sem þá var, varð Stóridómur til. Leit hófst að afbrotum, jafnvel minnstu afbrotum varð nánast takmarkalaus. Vandlæting og rannsókn allra gagnvart öllum. Þá galt margur saklaus maðurinn, karlinn og konan, fyrir litlar sakir með lífi sínu. Galdraofsóknirnar, múgsefjunin, sem grasseraði bæði hér í Evrópu og í Ameríku, voru svo engu betri en rannsóknarrétturinn illræmdi og ofsóknir aðrar. Þessi hætta er alltaf fyrir hendi. Enda þótt svo ætti alls ekki að vera á okkar tímum. Við teljum okkur fremri fáfróðum almenningi fyrr á öldum. Samt sem áður er nú alið á hatri, tortryggni og óvild. Miðað við upplýsinguna, þekkinguna, gáfurnar, skynsemina, ætti varla að þurfa að óttast fordóma og sefjun. Upplýst íslenskt samfélag á ekki að þurfa að falla í slíka gryfju. Því miður eru samt mörg teikn um að það sé einmitt raunin. Kristur vitnaði í undantekningu í reglugerðum skriftlærðra forðum. Ef dýr féll í gryfju eða brunn mátti bjarga því. Hvers vegna má þá ekki bjarga mönnum? Nú er meðferðin slík á nokkrum fyrrverandi ráðamönnum á Íslandi að dýraverndunarsamtök væru komin á fulla ferð ef skepnur ættu í hlut.
Ég sá uppfærsluna á leikverkinu ENRON í Borgarleikhúsinu í vikunni. Vel er því þar lýst hvað fór úrskeiðis í því stóra gjaldþroti. Boðskapurinn kemst prýðilega til skila. Það sem bilaði voru vissulega mennirnir sjálfir. Stjórnendur orkurisans ENRON fundu leiðir framhjá lögum og leikreglum samfélagsins, þeir voru lögbrjótar og svindlarar og þeir vissu það auðvitað sjálfir. En þeir héldu því áfram, gegn betri vitund, meðan hægt var. Það gerðu þeir með fulltingi lögmanna og löggiltra endurskoðenda. Þeir voru einnig dyggilega studdir af yfirborðskenndu fjölmiðlafólki, lítilþægum stjórnmálamönnum og hugsunarlitlum lýð. Orð úr lexíu dagsins eru beint í mark:
Dramb er falli næst, hroki veit á hrun. (Orðskv. Salómons).
Múgsefjun var það, Hrunadans, þar sem hálfærður almenningur dansaði með hóf viðskiptajöfrana til skýjanna, mærði þá á allan hátt og vonaðist um leið til að græða eitthvað sjálfur. Nú eru liðin 8 ár frá því gjaldþroti. Aðeins eru tvö ár frá gjaldþroti íslensku bankanna. Sá tími kemur vonandi fljótlega, að við getum skoðað Hrunið í sögulegu ljósi og byggt á hinum réttu upplýsingum um staðreyndir mála. Og það þurfum við að gera. Sleggjudómar og múgæsingur hafa aldrei leitt til góðs. Því miður er dómsýki mikil í dag af því að við höfðum ekki dómgreind í gær - á árunum fyrir hrunið.
Siðferði, heiðarleika, réttsýni, sanngirni verður ekki skipað með lögum. Þá kosti verður fólk að temja sér, rækta sjálft sig sem siðferðisverur. Og það er ærið dagsverk hvers og eins okkar í þessu lífi. Þetta er eins og með kærleikann og miskunnsemina. Það er ekki hægt að setja lög um kærleika eða gott viðmót. Kærleiksboðorðið er tilboð ekki tilskipun. Það er aðferð til að lifa lífinu, lifa vel, ástunda réttlæti og góða umgengni, með heiðarleika og hreinskiptni.
Kristin trú hefur þetta fram að færa í mannlegu samfélagi. Kristur og trúin á hann er afar dýrmæt á tímum sem þessum. Okkur má ekki fatast miskunnsemin, réttlætið og kærleikurinn. Vissulega fara trúar- og kirkjumálaumræður stundum út í deilur. Mark Twain sagði: Fólk er einlægt að tala um þá hluti í Biblíunni sem það ekki skilur. Það getur ekki sætt sig við trúna og Ritninguna vegna þess að það skilur ekki allt sem þar stendur. Ég á hins vegar í mestum vandræðum með það sem ég skil, eins og það að elska náungann eins og sjálfan mig.
Í þessu ljósi eru orð postulans í pistli dagsins líknandi og græðandi: “Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins.” Í Jesú nafni. AMEN