Flutt 27. febrúar 2018 í Hallgrímskirkju
Byrjum á Jakobi postula. „Líði nokkrum illa yðar á meðal“ segir
hann og kallar sig „þjón Guðs og Drottins Jesú“ (vers 1). Það er eins
að hann gangi út frá því að okkur geti liðið illa, að minnsta kosti af
og til, - því þegar það gerist, skulum við biðja. Það hefur þessi maður
lært. Hann er stundum nefndur bróðir Drottins í skýringarritum, þessi
bréfritari, en flestir eru á því alla vega að hann hafi verið einn af
postulunum 12. Hann vissi hvað það var að biðja. Og hann vissi líka
áreiðanlega hvað það var að líða illa. Við vitum það örugglega öll, hvað
það er að líða illa. Stundum líður okkur svo illa að við erum eins og
bjargarlaus og vanmátta. Samkvæmt Jakobi bréfritara ættum við að biðja,
þegar þannig hagar til í lífi okkar, eða bara einhvern venjulegan dag.
Það þarf ekki mikla ástæðu til. En svo er það hitt, ef okkur líður vel,
þá er best að syngja, syngja lofsöng, þ.e. að vera þakklát og leyfa
gleði okkar og dafna í hjarta okkar.
Þetta virðist allt vera frekar einfallt, en það býr í þessu hvorutveggja
fyrirbærinu mjög mikil hugsun, sem snerti allt það vitræna og allt það
tilfinningalega. Þetta með að biðja í vanlíðan, er nefnilega ekki bara
fólgið í því að fara með utanaðlærða þulu ( ég meina bæn ). Það er gott
að kunna bænir og fara með þær, en stundum þurfum að leggja með
bænalestrinum allt sem innra með okkur býr. Og það reynir oft verulega
á.
Lítum t.d. á þann Jakob, sem fyrr var getið í lestrum dagsins. Jakob, var sonur Ísaks og Rebekku, átti Rakel, og með henni soninn Jósef, sem fór til Egyptalands, og réði þar m.a. drauma Faraós og varð sáttamaður í máli bræðra sinna við Egyptalandskonung. En Jakob þessi hafði átt í erfðadeilum við bróður sin Esaú, fyrir utan nú að vera í hörðum viðskiptadeilum við tengdaföður sin Laban. Þegar hæst stóð í þessu veraldlega og tilfinningalega fjölskyldustríði, fann Jakob til mikillar vanlíðunar og þurfti að takast á við málið í heild. Sagt er í textanum að maður nokkur hafi glímt við hann. Í hebreska orðinu, sem notað er um þennan mann er að finna nafnorðið, „ish“ sem oftast er þýtt sem maður, en er þó líka til sem orðið Guð. Þá skýrist betur hugtakið „Ísrael“, sem þýðir ‚sá sem glímir við Guð’. Það er nú það. Þessi saga, glímann við manninn er þá glímann við sjálfið í spegilmynd Guðs. Við fáum ekki séð ásjónu Guðs, en við eigum hana í persónu Jesú Krists. Gæfa okkar er sú að mega standa frammi fyrir mynd Krists og takast á við grundvallaratriði. Ef Jakob er hafður til viðmiðunar geta átökin orðið hrikaleg. Í glímu sinni gengur Jakob úr augnakörlunum, og verður einni manneskju varla rækilegar komið úr jafnvægi. Niðurstaða sögunnar er svo ennfremur stórbrotin. Sársauki Jakobs fær viðurkenningu, ‚þú hefur glímt við Guð og menn’. Þú hefur tekist á við lífið sjálft, og unnið sigur með því að reyna til hins ýtrasta að öðlast sigur í þínu tilfinningastríði. Þú ert ekki lengur Jakob heldur Ísrael. Þú er ættfaðir þeirra, sem eru reiðubúnir að takast á við erfiðleika lífsins, en um leið að leita náðar hjá skapara þínum og lausnara. Og hann segir: „…ég hef séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“ Í þessari atburðarrás allri gerir Jakob sáttmála við tengdaföður sinn og kemur fram af hyggindum og rausn við bróður sinn.
En það í þessu atriði, glímunni um lögmál og fagnaðarerindi, sem
lærisveinn Jesú, postulinn Jakob kemur inn. „Líði nokkrum illa yðar á
meðal, þá biðji hann.“
Hér er það hinn ljúfi og nærgætni Jakob, sem talar í bréfi sínu
uppörvunar- og leiðbeiningarorð til síns fólks. Það er augljóslega
mikill spekingur hér, maður reynslunnar, maður trúarinnar, einlægur,
auðmjúkur og hann hefur yfirgripsmikla sýn yfir mannlífið. Það er enda
látið að því liggja í fræðunum, að hann hafi verið bróðir Drottins. Ef
svo er, þá heyrum við af orði hans óm þeirra samræðna sem áttu sér stað í
eldhúsinu hennar Maríu, eða á smíðastofu Jósefs. Já, svolítið skrýtið
tilhugsunar að hægt sé að nálgast þá hversdagslegu staði fortíðar,
eldhús og smíðastofu, sem auðvitað eru í vitund okkar helgir staðir og
öðrum merkari. En hvort heldur Jakob var bróðir eða postuli, þá lærði
hann bænargjörð og lofgjörð af Jesú sjálfum. Og í þessu tímamótabréfi
hvetur hann til bænar og lofgjörðar í kjölfar hennar. Síðan er brugðið
upp mynd af því að einhver kunni að vera veikur í hópnum eða líði illa.
Er það ekki einmitt svo á öllum venjulegum heimilum og í venjulegum
fjölskyldum? Hvað var gert á tímum Jakobs postula? Jú leitað til
„rabbíans“ til að byrja með, svo hann gæti smurt hinn sjúka, eða þann
sem illa var haldinn, með olíu og beðið fyrir honum, samkvæmt gömlum
siðum og trú kynslóðanna. Það allt var án nokkurs sársauka eða skemmdar á
líkama eða sál. Ekki virðist Jesús hafa dregið úr ágæti þess að biðja,
syngja eða viðhafa smurningu með olíu. Hið mikilvæga var að hjálpa
viðkomandi til þess að takast á við veikindi sín og búa hann undir
meðhöndlun læknis svo hann væri andlega reiðubúinn meðferðinni. Er það
ekki þannig sem hlutirnir ganga fyrir sig. Þurfum við ekki öll á því að
halda að einhverjir komi til móts við okkur af skilningi, tillitsemi og
uppörvun. Og má það ekki vera augljóst hverjum manni að góð aðhlynning,
andlegur stuðningur og velvild vinnur hálft verkið, þegar einhverjum
líður illa eða er veikur. Ekki er þar með gert lítið úr lækningarmætti
þekkingarinnar, eða þeirri reynslu og yfirsýn, sem vísindin búa yfir í
dag. Nei, heldur þvert á móti, hér er minnt á, að allt þetta þarf að
fara saman, elska og umhyggja, viska og þekking, vísindi og tækni.
Nú má spyrja: Hverjum líður illa? Listinn væri langur, ef út í einhverja upptalningu væri farið. Hvernig líður þeim, sem synjað er um landvistarleyfi, eða tilvistarleyfi, eins og skynja má af spurningunum, sem birtast í listaverkum Kristínar Hreinsdóttur, hér í forkirkjunni. Hvernig líður þeim, sem hverfa úr skóla, án skýringa, og hefur nú gerst hér á landi í auknum mæli? Ég man ekki betur en mér hafi liðið nokkuð illa, þegar ég hljópst á brott úr skólavist unglingsáranna. Og þó að þetta séu mikilvæg umræðuefni fyrir okkur öll, þá skulum samt í dag beina athyglinni að þeim gamla sið: umskurn. Öll þessi mál eru skyld.
Heilbrigðiskerfi, uppeldis- og menntakerfi eru stoðkerfi hvers siðaðs samfélags. Þar standa foreldrar, kennarar og heilbrigðisstéttir saman um að hlú að hverri kynslóð og efla þroska hennar og dáð. Af þeim ástæðum m.a. hafa orðið til sáttmálar þar sem margar þjóðir safnast um grundvallaratriði er varða heilbrigði , vellíðan og framfarir. Börn eru þar ávallt höfð í fyrirrúmi. Réttlæti, raunsæi og miskunnsemi eru þar leiðarljós.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hnykkir á þessum viðhorfum og þar stendur m.a.: Barnasáttmálinn
„felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu“.
„Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar,
litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis,
fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða
athafna foreldra þeirra.“
Umskurn barnungra stúlkna hefur fengið töluverða umfjöllun og það er nú, sem betur fer, almennt viðurkennt, að slík aðgerð er grimmileg, hættuleg og skaðleg fyrir lífstíð. Umskurn drengja er um þessar mundir mikið rædd, og reyndar hefur komið fram tillaga um afnám slíkrar aðgerðar á Alþingi, og að hún verði jafnframt gerð refsiverð.
Margar tilvitnanir má finna í Biblíunni er varða umskurn.
Þær eiga það sameiginlegt að snúast um lögmálið annars vegar og
fagnaðarerindið hins vegar. Jesús fæddist inn í samfélag lögmáls, þar
sem t.d lækning á hvíldardegi var talin brot á lögmáli Guðs. Jesús
breytti þessum lögmálsskilningi og afstöðu til einstaklings og
þjóðfélags þannig, að mestu skipti samúð, mannskilningur, tillitssemi,
miskunnsemi, kærleikur, - ekki umskurn holdsins heldur umskurn hjartans.
Við eigum orð yfir slíka breytingu: Fagnaðarerindi. Í því merkilega
orði felst meðal annars orðið frelsi.
Og svo vitnað sé í annan postula en Jakob, nefnilega Pál, þá segir hann:
…1 Til frelsis frelsaði Kristur okkur. Standið því stöðug og látið ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok.
. umskorinn er sá sem er það í hjarta sínu, í hlýðni við andann, ekki bókstafinn. Hann þiggur ekki lof af mönnum heldur Guði….
Ennfremur má vitna í þá setningu, sem er grundvallarsetning í þessu máli:
6 Í samfélaginu við Krist Jesú gildir hvorki umskurn né yfirhúð heldur trú sem verkar í kærleika.
Líður nokkrum illa á meðal yðar? - Við eigum öll svar við þeirri
spurningu innra með okkur, en henni verður auðvitað ekki svarað á
þessari stundu. Þar er um að ræða glímu hvers og eins, sem aðeins er
hægt að sinna innra með sér eða í samfélagi við þann eða þá sem hver og
einn velur. Spurningin er oftast aðdynjandi mikillar glímu.
Þar sem Alþingi Íslendinga hefur nú sett sig í þessar glímustellingar,
má spyrja, hvort ekki sé rétt að umræðan fari fram, leitað verði ráða
hjá utanaðkomandi aðilum, en tíminn skammtaður til ákvörðunar, því börn
víða um heim eru ennþá undir lögmáli umskurnar, sem er málefnalaus aðför
að þeirra vellíðan.
Bæn kanversku konunnar, sem augljóslega leið illa og bar umhyggju fyrir barni sínu, var hins vegar mjög einföld:
„Drottinn, miskunna þú mér“
„Drottinn, hjálpa þú mér.“
2. sunnudagur í föstu (reminiscere)
Textaröð: A
Lexía: 1Mós 32.24-30
Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur
rann. Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á
mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. „Slepptu
mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú
blessir mig,“ svaraði Jakob. „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn.
„Jakob,“ svaraði hann. Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob
heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“
Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna
spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. Jakob nefndi staðinn
Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó
haldið lífi.“
Pistill: Jak 5.13-20
Líði nokkrum illa ykkar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum,
þá syngi hann lofsöng. Sé einhver sjúkur ykkar á meðal, þá kalli hann
til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni
Drottins og biðja fyrir honum. Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og
Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa
drýgt, verða honum fyrirgefnar. Játið því hvert fyrir öðru syndir ykkar
og biðjið hvert fyrir öðru til þess að þið verðið heilbrigð. Kröftug bæn
réttláts manns megnar mikið.
Guðspjall: Matt 15.21-28
Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur
kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur
Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“
En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“
Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“
Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“
Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“
Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“
Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.