Prédikun flutt í Seltjarnarneskirkju á kristniboðsdaginn 2021.
Lexía: Jes 12.2-6; pistill: Róm 10.8-18; guðspjall: Matt 9.35-38
Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Kæri söfnuður, í dag er kristniboðsdagurinn og ritningarlestrar og guðspjall dagsins bera það sannarlega með sér því að í þeim er hið gegnumgangandi þema boðun góðra tíðinda. Guðspjall merkir einmitt góð tíðindi og í Nýja testamentinu höfum við fjögur guðspjöll, Matteusar-, Markúsar-, Lúkasar- og Jóhannesarguðspjall. Þegar við tölum um guðspjall erum við hins vegar í raun að tala um ákveðið bókmenntaform; það átti sér fyrirmyndir í rómverskri menningu og guðspjallamennirnir voru sér fullmeðvitaðir um það. Sér í lagi voru það Matteus og Lúkas sem meðvitað sömdu sín guðspjöll með fæðingarfrásögunum með rómversk keisaraleg guðspjöll í huga.
Orðið guðspjall hefur þannig verið notað um rit guðspjallamannanna fjögurra sem boðuðu fagnaðarerindið um Jesú Krist, son Guðs, sem varð maður, þjáðist og dó en var síðan af Guði reistur upp frá dauðum, mönnunum til ævarandi og endanlegs tákns um yfirhönd lífsins yfir dauðanum og vilja Guðs til þess að fyrirgefa mönnum syndir þeirra.
Orðið fagnaðarerindi er hins vegar notað um innihald og boðskap guðspjallanna og annarra rita Nýja testamentisins. Í málnotkun kristninnar er meira að segja venja að tala um fagnaðarerindið, með ákveðnum greini, eins og fagnaðarerindið sé aðeins eitt og það sé aðeins að finna í Nýja testamentinu. Það er hins vegar misskilningur sem líklegast má að miklu leyti skýra með vísun í guðfræðilegan málatilbúning Páls postula, ekki síst í Rómverjabréfinu, þar sem hann virðist stilla upp sem andstæðum lögmáli gyðinga annars vegar en fagnaðarerindinu um Krist hins vegar. Páll virðist halda því fram að lögmál gyðinga, sem Gamla testamentið vitnar um, gagnist á endanum ekki til hjálpræðis; hið eina sem geri það sé trúin á Krist. Nýjustu rannsóknir í nýjatestamentisfræðum benda hins vegar til þess að sú hefðbundna túlkun kirkjunnar að Páll stilli þannig lögmáli og fagnaðarerindi upp sem andstæðum, sé misskilningur sem byggi m.a. fyrir sitt leyti á því að ekki hefur verið tekið nægjanlegt tillit til þess að viðtakendur bréfs hans til Rómverja voru ekki gyðingar heldur fólk sem áður hafði játað trú á rómverska guði. Það má nú án nokkurs fyrirvara halda því fram að Páll hafi verið sannfærður um gagn þess fyrir gyðinga að fylgja boðum lögmálsins og halda gyðinglega siði og venjur. Í augum Páls, fylgjenda Jesú og Jesú sjálfs, sem öll voru gyðingar, var það því engum vafa undirorpið að þeirra heilaga ritning, sem við köllum Gamla testamentið, boðaði fagnaðarerindi.
Lexía dagsins boðar fagnaðarerindið um kærleika Guðs og vilja hans til að fyrirgefa mannlegar misgjörðir með þessum orðum:
Þú varst mér reiður
en þér hvarf reiðin
og þú huggaðir mig.
Sjá, Guð er hjálp mín,
ég er öruggur
og óttast ekki.
Þessi vitnisburður er ekki aðeins vitnisburður einstaklings heldur alls trúarsamfélagsins sem er hvatt til þess að bera vitni um hið lífgefandi samband sitt við Guð meðal þjóðanna:
Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna.segir í textanum,
Lofsyngið Drottni því að dásemdarverk hefur hann gert.
Dásemdarverkin sem gyðingaþjóðin hefur í huga er ekki bara einhverjar óáþreifanlegar bollaleggingar um Guð og gagnsemi sambandsins við hann heldur beinlínis sögulegir atburðir. Þegar þeir lofsyngja Guð fyrir máttarverk sín, hafa þeir ávallt fyrst og fremst frelsunina úr þrælavistinni í Egyptalandi í huga. Sögulegur trúverðugleiki þeirrar sögu í 2. Mósebók líklega sambærilegur við sagnfræðilegt gildi Landnámu og Íslendingasagna; margt er stórlega ýkt og sagan er samin í ákveðnum tilgangi í sögulegum aðstæðum mörgum öldum eftir að hún á að hafa átt sér stað – en það þýðir þó ekki að grunnþráðurinn í henni sé ekki sannur, að hún byggi ekki á fornu minni um raunverulega atburði. Þessi atburður – frelsun hebreanna úr þrælavistinni undir forystu Móse – er yfirleitt kallaður exodus, brottförin, í samræmi við heiti 2. Mósebókar á latínu. Hann er kjarninn og þungamiðjan í sjálfsmynd gyðinga og í sambandi þeirra við Guð. En exodus átti sér a.m.k. tvisvar stað á því tímaskeiði sem rúmast innan marka Gamla testamentisins.
Önnur brottförin var ekki síður afdrifarík í sögu Ísraels en hin fyrri og hún er ekki umvafin goðsagnakenndri þoku heldur eru um hana áreiðanlegar sögulegar heimildir. Eftir að Babýloníumenn höfðu lagt Jerúsalem í rúst árið 587 f. Kr., og stór hluti Ísraels og meginpartur yfirstéttarinnar höfðu dvalið í útlegð í Babýlon í 48 ár, urðu Babýloníumenn að láta í minni pokann fyrir nýju stórveldi, Persum. Ári eftir sigur Persa gaf Kýrus konungur þeirra út þá tilskipun að gyðingar í útlegð mættu snúa heim til Júda og Jerúsalem og endurreisa musteri Drottins. Þetta var hinn annar exodus, hið annað sinn sem Guð frelsaði þjóð sína og leiddi hana heim. Í lexíunni og samhenginu sem hún tilheyrir sér höfundurinn fyrir sér að Guð muni einn daginn gera öllum þeim gyðingum, sem urðu eftir í öðrum löndum, kleift að snúa aftur til Jerúsalem; þá muni heimförin úr útlegðinni vera fullkomnuð og þá muni þjóðin þakka Guði og lofsyngja hann meðal þjóðanna.
Við getum gert lítið úr þessari túlkun lítillar þjóðar á reynslu sinni og kallað hana ímyndun, eða trúarlega túlkun á sögulegum tilviljunum. Guðsmynd okkar nútímafólksins er vissulega önnur en guðsmynd fólks til forna. Fyrir okkur á sú mynd af Guði ekki lengur við, að hann sé himneskur konungur og stjórni gangi náttúrunnar og geti gripið að vild inn í leikina sem leiknir eru á taflborði mannkynssögunnar.
Ef við hins vegar setjum örlög gyðinga í samhengi við örlög annarra þjóða til forna, þá er ekki að furða þótt þeir hafi þakkað sambandi sínu við Guð að þeir skyldu yfirhöfuð vera til. Því það var alls ekki sjálfsagt, allra síst í tilfelli smáþjóðar. Engin þeirra þjóða sem segir frá í Biblíunni hefur staðist, hvað þá varðveitt menningu sína og trú líkt og gyðingar hafa gert. Engin þeirra smáþjóða sem stórveldi þess tíma lögðu undir sig og tvístruðu út um allar jarðir lifði slíka meðferð af sem þjóð – nema gyðingar. Kannski hafa sögulegar tilviljanir spilað rullu í því en ég er ekki í vafa um að það sem hafði mest að segja var einmitt trú þeirra og traust á Guð, traust á að Guð myndi vel fyrir sjá og ekki síst: trúfesti þeirra sjálfra við eigin sið og menningu.
Slíkt trúartraust felur ekki í sér að hinn trúaði eða hin trúaða muni ekki þurfa að mæta mótlæti eða upplifa þrengingar heldur sú sannfæring að með hjálp Guðs geti hann eða hún tekist á við verkefni lífsins, sama hversu þungbær. Að á endanum muni maður „með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins“ eins og lexían orðar það svo fallega. Þetta trúartraust hefur verið gyðingum sá sproti og stafur í gegnum aldirnar sem hefur huggað þá og haldið þeim á floti sem samfélagi. Og lexía dagsins – í takt við marga aðra texta Gamla testamentisins – birtir þann skilning að þessi „lind hjálpræðisins“ var ekki og er ekki bundin við sögu einnar þjóðar, hún er þvert á móti möguleiki sem stendur öllu fólki til boða.
Páll orðar það þannig í pistlinum í bréfi sínu til Rómverja:
Hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla sem ákalla hann því að „hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn“.
Þegar Páll talar um að hver sem ákalli nafn Drottins verði hólpinn, og vitnar þar í Jóelsbók og Davíðssálma, er hann líklega ekki að tala um velfarnað í veraldlegum skilningi heldur er hann að tala inn í sameiginlegan hugmyndaheim fornaldar og vangaveltur manna á öllum tímum um afdrif manneskjunnar við dauðans dyr. Þar með er ekki sagt að í augum Páls sé spurningin um trú eða ekki trú aðeins málefni hvers einstaklings fyrir sig eða snúist aðeins um afdrif hans. Þvert á móti verður trú einstaklingsins ekki skilin frá því samfélagi sem hann eða hún tilheyrir enda má fullyrða að tilfinning einstaklingsins fyrir samfélagslegri ábyrgð sinni hafi verið inngróin í forn samfélög ólíkt því sem hefur orðið í nútímanum. Trú einstaklingsins og trúarsamfélagið sem hann tilheyrir eru þannig órjúfanleg heild, enda spyr Páll:
En hvernig eiga menn að geta ákallað þann sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra án þess að einhver prédiki?
Að gyðingkristnum skilningi hlýtur trú einstaklingsins alltaf að endurspeglast í samfélagi hans við meðbræður sína og -systur. Þessi skilningur birtist t.d. í ádeilu spámannanna á vélræna uppfyllingu krafna um fórnir í musterinu án þess að þær fari saman við ástundun réttlætis. Þess vegna áréttar Páll hvað eftir annað í bréfum sínum að hinir kristnu lifi lífi sínu í samræmi við tvöfalda kærleiksboðorðið, að elska Guð og að elska náungann eins og sjálfan sig.
Páll og lærisveinar Krists voru hinir fyrstu kristniboðar. Þeir boðuðu dauða og upprisu Krists, fyrirgefningu syndanna og eilíft líf og ekki leið á löngu þar til þessi boðskapur fékk ritað form í því sem við köllum Nýja testamentið. Það er ekki nokkrum blöðum um það að fletta að varðveisla ritninganna og vitnisburður þeirra hefur skipt mestu máli í því að flytja trúararfinn frá einni kynslóð til annarrar. Um leið er ljóst að í gegnum aldirnar hefur það kannski verið vitnisburður trúarinnar eins og hann hefur birst í líferni hinna trúuðu, sem hefur verið besta trúboðið. Það átti sannarlega við um gyðinga til forna, enda voru fjöldamargir útlendingar, sem gyðingar kölluðu „hina guðhræddu“, sem löðuðust að gyðingdómi og fengu að taka þátt í gyðinglegu helgihaldi að vissu marki. Hið sama má segja um hina kristnu söfnuði í Róm; því hefur verið gert skóna með góðum rökum að það hafi ekki síst verið samstaðan og samhygðin og líknarverkin, sem fólk varð vitni að meðal hinna kristnu og í garð annarra, sem urðu til þess að hinn kristni boðskapur höfðaði æ sterkar til rómverskra borgara svo að á endanum var réttur hinna kristnu til að iðka trú sína lögfestur af Konstantín keisara árið 313.
Tímarnir breytast og mennirnir með en gildi fagnaðarerindisins er alltaf hið sama sem og hlutverk kirkjunnar í boðun þess, útbreiðslu og varðveislu. Í ljósi gjörbreyttrar heimsmyndar og samfélagsgerðar hljótum við þó að spyrja okkur hvort ekki þurfi að skilja merkingu orðsins „kristniboð“ víðari skilningi í nútímanum en við gerum alla jafna og hvort kristniboð dagsins í dag þurfi ekki í auknum mæli að beinast að heimaslóð. Í frétt á heimasíðu Kristniboðssambandsins í tilefni þessa dags er þannig bent á að þeim fer fækkandi sem skráðir eru í kristin trúfélög hér á landi. En jafnframt er bent á þá ánægjulegu staðreynd að „kristnu fólki hefur á sama tíma fjölgað mikið á starfsakri kristniboðsins.“ Og þessi starfsakur kristniboðsins hefur einmitt færst hingað heim með auknum fjölda útlendinga sem vilja gera Ísland að sínu heimalandi, með komu flóttamanna og umsækjenda um vernd. Megi Guð styrkja og styðja kirkjuna alla í því sístæða verkefni að boða fagnaðarerindið, lifa í samræmi við það og varðveita og verja kristinn sið og trú í andstreymi heimsins.
Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.
Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.