Þá sagði ég við ykkur: „Óttist þá ekki og verið ekki hrædd. Drottinn, Guð ykkar, sem fer fyrir ykkur, mun berjast fyrir ykkur eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi. Í eyðimörkinni sást þú hvernig Drottinn, Guð þinn, bar þig eins og maður ber son sinn (faðir ber barn sitt, þýð 1981) hvert sem þið fóruð uns þið komuð á þennan stað.“ En þrátt fyrir þetta trúðuð þið ekki á Drottin, Guð ykkar, sem gekk á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann fór fyrir ykkur um nætur í eldi en um daga í skýi til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að halda. 5Mós 1.29-33
Drottinn Guð fer fyrir þér. Hann berst fyrir þér eins og hann hefur barist fyrir fólkinu sínu frá upphafi. Þú þarft ekkert að óttast. Drottinn Guð hefur þig í faðmi sér eins og faðir barn sitt. Hann hefur borið þig uppi allt til þessa dags, gengur á undan þér, finnur þér hvíldarstað og vísar þér veg.
Þessi hugsun Gamla testamentisins er grundvöllur meginstefs Nýja testamentisins: Að Guð er kærleikur – að Guð elskar okkur að fyrra bragði. Sá kærleikur birtist okkur í Jesú Kristi. Því svo elskaði Guð þig að hann sendi son sinn eingetinn til þess að þú í trú á hann ættir eilíft líf. Þú ert umvafin/n ást Guðs í lífi og í dauða og ekkert fær hrifið þig úr hendi hans.
Að vera – í Guði Í pistli dagsins er þessi veruleiki tjáður með orðunum Guð í okkur – Guð hefur gefið okkur anda sinn - við erum í honum. Síðasta setningin segir þetta hvað skýrast: Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.
Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. 1Jóh 4.10-16
Þessa sömu hugsun tjáir Páll postuli með hugtakinu Í Kristi. Ef einhver er í Kristi er hann orðinn nýr maður, hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til (2Kor 5.17). Að vera stöðugur í Guði, í Kristi, felur í sér nýtt upphaf, ferska byrjun, umbreytingu til nýs lífs, samfara helgun dag frá degi.
Í guðspjalli dagsins er samfélagi Guðs og manns - í Jesú Kristi fyrir heilagan anda – lýst sem vináttusamfélagi:
Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað. Jóh 15.12-17
Tökum eftir því að vináttan felst í því að gera það sem Jesús Kristur býður okkur. Samt er hér ekki um samband þjóns og húsbónda – yfirmanns og undirmanns - að ræða heldur gagnkvæma vináttu í virðingu og kærleika. Því hvað er það sem hann býður okkur? Jú, að framganga í kærleika, dvelja í kærleika Guðs og bera þann kærleika út til annarra.
Þjónar - vinir Við munum eftir því að skömmu áður talaði Jesús um samband sitt við lærisveinana með líkingunni um þjón og herra, sendiboða og þann sem sendir (Jóh 13.12-20). Þetta var undir síðustu kvöldmáltíðinni, en allt þetta samtal er í því samhengi (kaflar 13-17 í Jóhannesarguðspjalli). Hann notar orðin meistari og Drottinn og herra um sjálfan sig fyrr um kvöldið en samt þjónar hann lærisveinunum með fótaþvottinum. Það gerir hann til að sýna þeim hinn sanna kærleika sem ekki hreykir sé upp og leitar ekki síns eigin (1Kor 13.4-5).
Í Jakobsbréfinu er talað um Abraham (Jak 2.21-24). Hans verk var að trúa á Guð og fyrir það var hann kallaður vinur Guðs. Að gera það sem Guð býður okkur er að trúa á hann, treysta honum, elska hann. Allt eru þetta hugtök fyrir sama andlega veruleika. Þannig erum við vinir Guðs þegar við dveljum í honum og göngum fram í trú.
Forsenda og afleiðing í senn Þegar við í trú reiðum okkur algjörlega á frelsarann og fylgjum boðorðum hans mun líf Jesú flæða inn í líf okkar. Þannig get ég sagt með Páli postula: Sjálf/ur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér (Gal 2.20). Frá þessum veruleika spretta tvær staðreyndir trúarlífsins. Sú fyrri er að að bænir okkar eru áhrifamiklar þar sem þær eru í raun bænir sem Kristur biður sjálfur (Jóh 15.7: Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið og yður mun veitast það). Hin er að ástin sem Guð sýndi okkur með dauða Jesú – að hann var fús til að gefa okkur sitt líf – streymir út frá þeim sem í honum dvelja (Jóh 15.12: Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað, eins og ég hef elskað yður).
Þannig er boðorðið um að elska hvort tveggja í senn, forsenda og afleiðing trúarinnar. Guð elskar okkur fyrst og sýnir ást sína í fæðingu, lífi, dauða og upprisu sonar síns. Með honum opnast okkur leiðin til hinnar guðlegu elsku sem er grundvöllur þess að Jesús Kristur kallar okkur vini sína.
Hér er ekki um að ræða þann kærleika sem manninum er eðlilegt og meðfætt að bera til sinna nánustu, foreldrar, systkina, maka, barna og vina. Sá náungi, sem um ræðir í tvöfalda kærleiksboðorðinu (sjá Matt 22.34-40) er ekki bara þau sem standa okkur næst. Náunginn nær heldur ekki bara til nágranna okkar sem okkur kann að líka misjafnlega við. Nei, þarna ræðir líka um þau sem við höfum engar forsendur til að þekkja og láta okkur þykja vænt um á mannlegan mælikvarða, bæði götubarnið í Brasilíu og landflótta móður í Afríku en líka sölumann dauðans í Sidney og hryðjuverkamanninn í Langtbortistan.
Elskum hvert annað Hér í Jóhannesarguðspjalli beinist athyglin einkum að þeim kærleika sem á að ríkja á milli fylgjenda Krists. Og þar er sannarlega þörf á að taka til og hreinsa út hvers kyns tortryggni og úlfúð sem hefur ríkt í gegn um aldirnar. Við kristið fólk þurfum svo sannarlega að standa okkur betur í því að uppfylla boðorð Krists um að elska hvert annað.
Þar þarf hvert og eitt okkar að byrja á sjálfu sér. Tökum eftir því að hér í 14. og 15. köflum Jóhannesarguðspjalls eru nokkur hugtök sem ganga eins og rauður þráður í gegn um ræðu Jesú. Þessi hugtök lýsa þeirri útgeislun sem á að fylgja okkur sem játumst undir nafn Krists. Þetta eru máttug hugtök og byggð á þeim veruleika sem um ræddi hér að framan – að vera í Guði, dvelja í anda hans og ást allar stundir. Þeim veruleika fylgir m.a. Friður, Bænheyrsla, Fögnuður, Elska - og samnefnarinn er Trú.
Er þetta ekki allt eitthvað sem við þráum? Við finnum hvernig ófriðurinn allt um kring skaðar líf okkar. Við finnum vanmátt okkar gagnvart kringumstæðum lífsins, því sem við fáum ekki breytt. Við finnum hvernig allt það tekur oft frá okkur gleðina. Og við finnum áþreifanlega fyrir skortinum á elsku, bæði í eigin lífi gagnvart öðru fólki og líka í framgöngu annarra gagnvart okkur.
Byrjum á byrjuninni Litlu skrefin eru heillavænlegust. Byrjum á byrjuninni – það er hjá okkur sjálfum. Leitum Guðs, sækjumst eftir því að dvelja í návist hans þó ekki sé nema stutta stund hvern dag. Við þurfum ekki að tala neitt eða gera neitt, bara vera, vera frammi fyrir Guði, finna elsku hans til okkar og elska hann á móti í anda og sannleika. Við getum sagt nafnið Jesús innra með okkur, aftur og aftur, eða Faðir eða Heilagur andi og þannig beðið Guð á látlausan hátt um að dvelja innra með okkur.
Best er fyrir þig að ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn sem er í leynum (Matt 6.6). En þú getur líka gefið þig nærveru Guðs á vald hvar sem er og hvenær sem er, muna til hans á þinni daglegu keyrslu og í öllum atvikum lífsins. Það er ástarverk þitt, trúarfórn þín til hans sem gaf þér ást sína að fyrra bragði, verk og fórn unnið í fögnuði og friði og ávinnur þér heiðurstitilinn Vinur Guðs. Þannig verður elska hans æ ríkari þáttur í lífi þínu og þannig mun verða öllum sýnilegt að þú ert lærisveinn Krists.