Brjóstvit forsetans

Brjóstvit forsetans

Það er frábært að heyra þau tala af þekkingu um málskotsréttinn, þjóðaratkvæðagreiðslu og ESB en mig langar líka til að heyra þau tala um sín persónulegu lífsgildi, á hverju byggja þau brjóstvit sitt og dómgreind, hvernig hefur lífsreynsla þeirra mótað þau, hvaðan koma þau? Hvar leita þau styrks
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
17. júní 2012
Flokkar

17.júní er dagur sem minnir okkur umfram annað á að varðveita lýðræðið, hann minnir okkur á að færðar voru fórnir svo við mættum eignast þessi dýrmætu lífsgæði sem lýðræðið er. Lýðræði og trú tengjast órofa böndum, sá sem játar trú á Jesú Krist elskar hann og virðir hlýtur einnig að virða og elska lýðræðið. Lýðræði bergmálar orð og athafnir Jesú Krists, Gullna reglan „ allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulu þér og þeim gjöra“ tvöfalda kærleiksboðorðið , elskaðu Guð og náungann eins og sjálfan þig“ kvenréttindayfirlýsingin á páskadagsmorgni þegar konurnar komu fyrstar að gröfinni eða þegar Jesús gerði útskúfuðu konuna við brunninn að kristniboða svo fátt eitt sé nefnt . Páll postuli dregur þessa hugsun saman í Galatabréfinu þar sem segir „Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð öll eitt í Kristi Jesú.” Lýðræði og trú lifa og nærast í samfélagi þess vegna er hvort tveggja andstæða einveldis og hvort tveggja lifir ekki né hefur áhrif nema sem flestir séu þess meðvitaðir. Við eigum aldrei að ímynda okkur að ein manneskja geti komið á lýðræði meðal heillar þjóðar og það sama gildir um kirkjuna, það er ekki yfirstjórn hennar ein sem hefur úrslitaáhrif um það hvort kristni sé ástunduð í landinu. Þessi stóru gildi, lýðræði og trú vaxa og dafna í takti við þann fjölda sem ljær þeim lið, þess vegna snerust hinstu fyrirmæli Jesú til lærisveina sinna um það að fara út um allan heim og skíra fólk til trúar og til samfélags innan kirkjunnar. Nú stöndum við frammi fyrir því verkefni sem þjóð að velja okkur forseta, það gerum við af því að við erum lýðveldi þar sem lýðræði grundvallar alla stjórnskipan, þjóðin velur sér forseta og fulltrúa á þing, það eru ótrúlega dýrmæt gildi, víða um heim hefur einstaklingurinn enga rödd í samfélaginu, sumstaðar er það þingið sem velur þjóðhöfðingja og sumstaðar er ekkert þing heldur bara ein manneskja sem stjórnar allri þjóðinni að eigin geðþótta. Við fáum hins vegar að velja okkur forseta, það er mikið ríkidæmi sem við verðum að fara vel með og meta. En við þurfum þá líka að skoða hvaða kröfur við gerum til slíks embættis og þeirrar manneskju sem því þjónar, forseti á ekki að vera einhverskonar foreldri þjóðarinnar sem ræður henni heilt eins og ofvöxnum unglingi heldur samferðarmaður sem hlustar á vilja þjóðarinnar og á samtal um öll þau mál er varða hag hennar og farsæld. Að þeim orðum sögðum er engin ástæða til að leita eftir einhverri ofurmanneskju í þetta starf, aðal atriðið er að viðkomandi hafi ekki bara sjálfan sig að markmiði,heldur virði lýðræðið og sjái starfið sem tímbundna fórn, því svona þjónusta er í eðli sínu fórn, alvöru lífsgæði fást heldur ekki nema fyrir einhverskonar fórn, það vita allir sem fylgja Jesú og þekkja píslarsögu hans. Allir frambjóðendurnir sem um er að ræða til þessa stóra embættis, hafa vissulega eitthvað gott og viturlegt fram að færa, þetta er fólk sem hugsar áður en það talar og leggur áherslu á þjónustuhlutverk sitt, það er vel. Þó verð ég að segja að ég sakna þess dálítið að þau tali ekki meira frá hjartanu og af meiri ástríðu um hugsjónir sínar og líf, þau mega líka vera aðeins persónulegri þó ég viti vel að það sé vandmeðfarið, en þjóðarleiðtogi þarf einmitt að kunna það sem er vandmeðfarið. Hvernig á maður að velja sér forseta án þess að vita hvað býr í grunni hans/hennar ? Það er frábært að heyra þau tala af þekkingu um málskotsréttinn, þjóðaratkvæðagreiðslu og ESB en mig langar líka til að heyra þau tala um sín persónulegu lífsgildi, á hverju byggja þau brjóstvit sitt og dómgreind, hvernig hefur lífsreynsla þeirra mótað þau, hvaðan koma þau? Hvar leita þau styrks? Þetta er fólkið sem þarf líka að kunna að bregðast við ef hamfarir ríða yfir landið, náttúruhamfarir eða stórslys, þetta er fólkið sem þarf þá að geta ávarpað þjóðina á tilfinningalegum nótum. Mig langar að kynnast þessu fólki betur, mig langar að heyra þau segja hvað það er sem hefur mótað þau helst sem manneskjur. Amen.