Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Nú að afloknu aðfangadagskvöldi með öllum sínum góðu gjöfum og hvild jóladagsins með fjölskyldunni þá er lífið senn að fara í sinn fyrri farveg aftur. Hátíðisdagarnar líða hjá og nýtt ár heilsar okkur senn.
Skiladagarnir getum við hæglega kallað þessa daga milli jóla og nýjárs. Stundum fengum við tvær eins bækur, peysu sem var of stór eða jafnvel hálsfesti sem ekki féll í geð. Þessu þarf að skila í verslanirnar sem fyrst og taka út nýjar gjafir okkur til handa. Flott að hægt sé að skipta vörum. Því þá verðum við ánægð. En ánægja og hamingja er eitthvað sem við viljum öll sækjast eftir. Væri ekki magnað ef við byggjum í þannig veröld að stundum væri hægt að skila dögunum líka? Slæmu dagarnir færu bara aftur á vit örlaganna og við fengjum nýja góða daga í staðinn. Þetta er því miður ekki hægt eins og við vitum öll. Slæmu dagarnir koma og stundum allt of margir.
Vissuð þið að á lyklaborðinu á tölvunni ykkar er að finna takka sem virka saman þannig að þeir taka til baka það sem hefur verið gert síðast. Kontrol z og síðasta aðgerð er ógild. Frábær aðgerð!
En hvað með lífið okkar? Þar finnst víst hvorki skilaréttur á því sem hefur verið sagt eða gert eða hnappur sem tekur til baka síðustu atburði hversu mjög sem við annars kunnum að sjá eftir því öllu. Með það í huga þá ættum við að vanda sérstaklega allt sem við segjum og gerum því flest af því er svo endanlegt og verður ekki tekið til baka aftur eða lagað ef það skemmir eitthvað. Er ekki margt sem við hefðum viljað hafa öðruvisi á liðnu ári? Alveg örugglega. Hafi eitthvað verið sagt og gert sem var slæmt þá eigum við að reyna að laga það á nýja árinu og fyrir alla muni læra af því og endurtaka ekki mistökin.
Við áramót er hefð að líta yfir gamla árið áður en því nýja er heilsað. Þessu má líkja við árvissa vörutalnignu verslana þar sem litið er til birgðastöðu lagersins. Lagerinn okkar eru minningarnar og lífsreynslan sem við höfum öðlast á liðnu ári. Ég geri ráð fyrir að margar góðar minningar komi upp og vona að efst í minningunum séu góð orð frá öðrum, góð verk, góðar samverustundir eða smáir og stórir sigrar á ýmsum vettvangi. Ég vona að árangur og velgengni hafi umlukið líf þitt á liðnu ári.
En ég veit að lífið hefur ekki bara þessa hlið. Ég veit að orð hafa verið sögð í reiði. Hlutir gerðir í bræði og hugsanir beinst inn á miður uppbyggilegar brautir. Ekki allt hefur orðið til góðs. Sumt fór á verri veg. Þar er því miður ekki skilaréttur eða endurtökuferli í boði. Það eru þessir slæmu dagar sem okkur ekki líkar. Hvernig getum við losnað við þá? Við því er ekki til einfalt svar. Þó vitum við mætavel að sumt er á okkar valdi. Orðunum sem við beinum að öðrum stýrum við sjálf og þau þarf að velja vel. Ég hef oft hitt fólk sem hefur sagt hafa hve gömul orð sögð í hugsunarleysi eða gremju sitja í huga. En þið megið vera þess fullviss að góður og vel stilltur hugur er líklegur til að bera ávöxt ykkur og öðrum til góðs. Hvatning dagsins úr Harmljóðunum segir: “Rannsökum breytni vora og prófum og snúum aftur til Drottins. Fórnum hjarta og höndum til Guðs á himnum.”
Í guðspjalli dagsins heyrum við um manninn sem plantað hafði fíkjutré í víngarð sinn og beið efftir ávexti þess. Á dögum Jesu mun trjágróður ekki hafa verið ýkja mikill í Palestínu en þeim mun mikilvægari voru þau tré sem þó spruttu. Vingarðar voru mikilvægir og til að veita skjól hinum lágvaxna vínviði var venjan sú að planta ávaxtatrjám mitt í slíkan garð. Þau mynduðu skjól og bættu skilyrði vínviðarins. Eigandinn er óánægður með að tréð ekki ber ávöxt. Tréð gerir ekki það sem það á að gera og hann vill fella það. Garðyrkjumaðurinn biður því lífs og vill vökva og bera að því áburð til að glæða það lífi. Hann biður trénu semsé griða.
Í líkingum Biblíunnar eru tré iðulega táknmyndir fyrir Ísrelsþjóðina. Fólkið sem Guð hefur útvalið. Við getum litið á þetta tré sem manneskju sem ekki vinnur góð verk, fer ekki að tilgangi sínum sem þáttakandi í Guðs góðu sköpun. Veitir ekki skjól og vernd svo allt fái vaxið, ber ekki avöxt í kærleika til alls lifs í kringum sig. Guð vill dæma en Jesús og sá helgur andi sem á að kveikja trú með hverju okkar biður viðkomandi griða. Biður um ár enn til að vekja trú, skapa kærleika. Þannig stuðlar bænin að náð, en í þessu tilvki mun dómurinn falla um síðir. Tréð sem aldrei ber ávöxt í neinu mun endanlega hljóta þau örlög að vera höggvið burt og kastað.
Ef til vill er þessi saga um frest. Sé tréð höggvið verður það ekki aftur tekið. Það er endanlegt, ekkert kontrol z eða skiladagar. Mér eru minnistæð orð norsks sóknarnefndarmanns sem vildi veita organista sem ekki gat valdið starfi sínu annað tækifæri. Hann sagði: “Ég hef verið húsasmíðameistari allt mitt líf og til mín hafa komið nemar sem ekki gátu smíðað, mitt hlutverk var alltaf að leiðbeina þeim og hjálpa svo að þeir næðu tökum á verkefnunum, tækist það ekki þá hafði mér mistekist.” Mér fannst hugsun hans góð og göfug en hún hafði takmarkanir. Slæm spilamenneska organistans bitnaði hart á kirkjugestum og kvartanir streymdu inn á kirkjuskrifstofuna. Þetta minnir á að val okkar er ekki alltaf einfalt. Stundum velja menn að höggva því ekki ætíð höfum við þolinmæði eða getu til að bíða.
Jesús nefnir stundum tré í líkingum, tré sem skjól fuglum himmins. Hann nefnir litla sinnepsfræið sem er allra fræja minnst en verður síðar að tré sem er stærra og meira en flest önnur eða hann talar um tré sem ekki bera ávöxt eins og tréð okkar í dag. Undirliggjandi er ætíð trúin. Trúin á að vaxa eins og sinnepsfræið og verða að skjóli fyrir mann sjálfan og aðra og einnig þá að bera ávöxt í góðu líferni, orðum og verkum.
Við fáum nýtt ár! Ár til að gera eitthvað gott með.
Jesús leggur áherslu á að við eigum að ganga frá okkar málum á meðan við höfum enn tíma til slíks. Þannig á lífið ekki bara að velkjast áfram stefnulaust og háð tilviljunum. Jesús bendir til þess sem er mikilvægt í mannlífinu og á það sem dregur okkur frá Guði og að einhverju öðru sem ekkert gildi hefur fyrir sálarheill og hamingju okkar. Hvernig sem við erum gerð, hvatvís eða íhugul, snögg upp á lagið eða seinþreytt til aðgerða þá er er eitt víst. Öll erum við manneskjur, skapaðar í Guðs ímynd og verðmæt í augum skapara okkar.
Til þess gerðist Jesú maður til að frelsa okkur frá eigin synd og vonsku. Val er hins vegar ætið til staðar í mannlegu lífi. Ekki val sem hægt er að taka til baka eins og ég hef áður nefnt. Heldur val sem hefur afleiðingar fyrir okkur og aðra. Hins vegar erum við ekki endanlega glötuð þrátt fyrir slæmt val. Því að kærleikur Guðs er stærri en svo. Syndin verður ekki aftur tekin en hún verður mögulega fyrirgefin.
Stóra fyrirgefningin felst í frelsaranum Jesú Kristi að hann með lífi sínu og fórn, greiðir fyrir allar syndir og misgjörðir mannanna alla tíð. Þetta kallast náð. Hún er gjöf Guðs líkt og lífið og valið sem við höfum. Með orðum Páls polstula heitir þetta: Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði, né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert oss viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Jesú Kristi Drottni vorum. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen
Prédikun flutt í Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð 31. desember 2018