Sífellt dekur við dauða hluti

Sífellt dekur við dauða hluti

Íslenskt samfélag hefur líklega aldrei þarfnast þess meir en nú að kirkjan gegni því mikilvæga hlutverki að miðla gildum eins og kærleika, miskunnsemi og umburðarlyndi sem byggjast á þeim grundvallarmannskilningi trúarinnar að hver manneskja sé heilög af því að maðurinn sé skapaður í mynd Guðs. Það hefur líklega aldrei verið eins knýjandi að leggja rækt við það sem fegrar og bætir mannlífið og er til þess fallið að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd þess sem ber virðingu fyrir öðrum jafnt sem sjálfum sér – á grundvelli þeirrar sannfæringar að allir menn séu skapaðir jafnir, í mynd Guðs.
Mynd

Prédikun í Háteigskirku 15. sd. e. þrenningarhátíð 8. september 2024

Lexía: 2. Mós. 32.1- 8; Pistill: 1. Tím. 6. 6-12; Guðspjallið: Lúk. 18.28-30

 

Kæri söfnuður, líklega er enginn ósnortinn af þeim hræðilegu slysum og ofbeldisglæpum  sem dunið hafa yfir íslenskt samfélag á undanförnum vikum og hugur okkar allra er hjá þeim sem hafa misst ástvini sína á voveiflegan hátt, ekki síst hjá foreldrum og fjölskyldu Bryndísar Klöru Birgisdóttur, 17 ára stúlku sem lést eftir hnífstunguárás 16 ára gamals drengs á menningarnótt. Það er ekki annað hægt en að taka undir orð frænku hennar í Facebook-færslu, sem birt var í fjölmiðlum, um að það hlyti að vera til marks um að eitthvað mikið væri að í okkar litla samfélagi þegar börn væru farin að ganga um með hnífa og deyða önnur börn. Já, það er eitthvað mikið að. Það er eitthvað sem hefur riðlast; það hefur orðið einhvers konar rof í þeim siðferðilega og hugmyndafræðilega grunni sem samfélagið hefur hvílt á hingað til.

Í umræðunni sem skiljanlega hefur vaknað í kjölfarið í tilraun til þess að finna skýringar á þeim ógöngum sem samfélagið virðist vera komið í hefur verið talað um geðheilsu og líðan barna og unglinga, fíkn og ofbeldismenningu. Og í því sambandi er gjarnan – og ekki í fyrsta sinn – bent á hið gríðarlega og óheilnæma áreiti internets og samfélagsmiðla sem börn og ungmenni hafa verið útsett fyrir síðan snjallsímar komu fram á sjónarsviðið og urðu ómissandi fylgihlutur hvers manns, bæði barna og fullorðinna. Oft hefur verið gert lítið úr slíkum áhyggjum sem ástæðulausu rausi og bent á notagildi snjalltækjanna. Jú, jú, það er sannarlega rétt af þessari tækni má hafa ýmislegt gagn en það breytir því ekki að þessi tiltölulega nýtilkomna tækni felur líka í sér miklar hættur og er í raun ekki barna með færi.  Það versta er að hún hefur umbylt því í grundvallaratriðum hvernig við höfum samskipti hvert við annað og því miður bendir margt til þess að samskiptamiðlarnir, sem á yfirborðinu virðast auka samskipti, sem ætti að vera jákvætt, ýti þvert á móti undir einangrun og vanlíðan, ekki síst ungmenna.

Margt af því sem haldið er á lofti á samfélagsmiðlum og hefur áhrif á börnin okkar er ekki til þess fallið að auka virðingu þeirra fyrir sjálfum sér eða öðrum; ég veit að þetta er ekki svona svart-hvítt og að netið geymir einnig margt fræðandi og gagnlegt en því miður held ég að það sé ekki efnið sem vekur mesta athygli. Okkur hefur á síðustu misserum orðið tíðrætt um vaxandi ofbeldismenningu og lækkandi þröskulda hjá ungmennum þegar kemur að því að beita grófu ofbeldi. Það er varla hægt að halda því fram að þar spili ofbeldisdýrkun dægurmenningarinnar og óheftur aðgangur að samfélagsmiðlum enga rullu. En fleira virðist koma til og þar á meðal kórónuveiran.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, gerði það einmitt að umtalsefni í viðtali í Spursmálum á MBL að svo virtist vera að kórónaveirufaraldurinn hefði valdið því að börn og ungmenni hefðu misst fótanna og leitað skjóls á internetinu og í tölvuleikjum þegar þeim var kippt út úr eðlilegri rútínu og svipt möguleikanum til þess að eiga eðlileg samskipti. Sjálfsmynd og félagsþroski barna hafi beðið skipbrot í mörgu tilliti.

Í samhengi þessa benti hann á hvernig hið opinbera kerfi hefði brugðist börnunum og vakti athygli á misræminu í því að 100 milljónum hefði verið veitt í geðheilsuátak barna eftir að svört skýrsla kom út 2021, á sama tíma og ráðgjafarnir sem veittu ráðgjöf í sambandi við sölu ríkisins á Íslandsbanka hefðu fengið 3 milljarða í þóknun. Það sem Grímur er að benda á þarna afhjúpar gjörbrenglað verðmætamat sem birtist á svo mörgum sviðum samfélagsins, verðmætamat sem leggur nánast alla áherslu á efnisleg gæði en hirðir lítt um sálarheill í víðasta skilningi. Lífsgæðakapphlaupið hefur í för með sér að líf íslenskra fjölskyldna einkennist af hraða og stressi og vinnuálagi. Og þegar þreyta og tímaskortur koma saman gefast kannski lítil tækifæri til innihaldsríkra og uppbyggilegra samskipta. Og þá er spurning hvort börnin verði ekki berskjaldaðri fyrir öllu því slæma sem tröllríður netinu og fyllist ótta – jafnvel svo að þau sjái sig knúin til þess að ganga um með eggvopn í vasanum. Og það er skelfilegt að hugsa til þess að ótti muni stjórna samskiptum fólks í íslensku samfélagi.

 

Forseti Íslands sagði í gær að kerf­is­breyt­ing­ar dygðu ekki til heldur þyrfti öll þjóðin að vinna sam­an að því að gera kær­leik­ann að vopn­inu í sam­fé­lag­inu. Það er einn siður sem hefur í hartnær tvö þúsund ár sett fram og boðað samfélagssýn þar sem kærleikur skuli ríkja og liggja allri samfélagsgerðinni og samskiptum fólks til grundvallar. Sá siður hefur líka fylgt íslenskri þjóð í þúsund ár í blíðu og stríðu og verður ekki aðgreindur frá menningu og sögu þessarar þjóðar. Þið vitið að ég er að tala um þann kristna sið sem kirkjan varðveitir og sem henni ber að boða, þjóðinni til heilla.

Kirkja og kristni hafa átt undir högg að sækja undanfarna áratugi og legið undir ámæli fyrir að vera úrelt fyrirbæri; ég hef jafnvel heyrt því haldið fram að kristinn boðskapur væri bara aumingjaskapur. En staðreyndin er sú að það þarf miklu meira hugrekki til þess að sýna kærleika en til þess að beita ofbeldi.

Íslenskt samfélag hefur líklega aldrei þarfnast þess meir en nú að kirkjan gegni því mikilvæga hlutverki að miðla gildum eins og kærleika, miskunnsemi og umburðarlyndi sem byggjast á þeim grundvallarmannskilningi trúarinnar að hver manneskja sé heilög af því að maðurinn sé skapaður í mynd Guðs.

Það hefur líklega aldrei verið eins knýjandi að leggja rækt við það sem fegrar og bætir mannlífið og er til þess fallið að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd þess sem ber virðingu fyrir öðrum jafnt sem sjálfum sér – á grundvelli þeirrar sannfæringar að allir menn séu skapaðir jafnir, í mynd Guðs.

Það hefur m.ö.o. sjaldan verið mikilvægara að boðskapur kirkjunnar um hina réttu forgangsröðun fái skotið rótum í hug og hjarta þjóðarinnar, um forgang andans fram yfir efnið, um forgang gagnkvæmrar ábyrgðar og kærleiksríkra samskipta umfram sjálfhverfan hégóma og lífsgæðakapphlaup. Því að þegar við dönsum í kringum gullkálfinn steypum við okkur í glötun og ef við viljum bara verða rík og hugsum ekki um neitt annað þá föllum við í freistni og lendum í snöru alls kyns óviturlegra og skaðlegra fýsna eins og segir í lestrum dagsins. Ef við sem samfélag berum hins vegar gæfu til þess að fylgja Kristi með kærleikann að vopni þá munum við uppskera margfalt.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi orti í einu ljóði sínu um hætturnar sem felast í efnishyggjunni og mikilvægi þess að rækta andann. Hann orti svo:

Byrgðu þig aldrei í bústað þínum

bak við lokuð hlið.

Því stærri veröld sem við þér blasir

því voldugri sjónarmið.

 

Láttu þér fátt um flos og sessur

og fágaða skápa og borð.

Sífellt dekur við dauða hluti

er dulbúið sálarmorð.

 

Láttu þér nægja þann ytri auð

að eiga til skeiðar og hnífs.

Andleg fegurð og frelsisþrá

er forði til næsta lífs.

 

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.