Í augum Marteins Lúthers var mikilvægast af öllu að fólk gæti lesið og skilið Biblíuna. Aðeins þannig gæti orð Guðs verið kjölfestan í lífi þess. Fyrirheit Guðs um líf var lykill Lúthers að frelsi manneskjunnar. Á grundvelli trúarinnar á þetta fyrirheit Guðs erum við kölluð til ábyrgðar í heiminum. Þannig er Biblían, trúin, náðin og Kristur sjálfur grundvöllurinn fyrir líf hinnar kristnu manneskju í heimnum.
Kristur er miðja trúar okkar og kirkjunnar sjálfrar. Þetta er höfuðeinkenni lútherskrar trúar. Á hverjum sunnudegi þegar við söfnumst til guðsþjónustu, játum við trúna á samfélag hinna heilögu. Það þýðir ekki að við trúum á kirkjuna sjálfa - heldur að við trúum því að samfélagið sem við eigum í kirkjunni sé raunverulegt. Hin heilögu eru í lútherskum skilningi þau sem treysta Guði og byggja líf sitt í trú á fyrirheitið um líf og frelsi. Þannig réttlætast þau fyrir trú en ekki af því þau eru svo frábær.
Hvar sem við söfnumst saman um orð Guðs, þar er kirkjan. Líf hinna kristnu fer alltaf fram í samfélagi, allt frá tímum Biblíunnar. Það er sérstaklega mikilvægt þegar lífstíll okkar og hraði samtímans hrekur fleiri og fleiri í einangrun og einmanaleika.
Kirkjan sem kennir sig við Martein Lúther er þannig samfélag þeirra sem byggja sjálfsmynd sína á trúnni (sola fide) á náð Guðs (sola gratia) sem Kristur (solus christus) birtir okkur í Biblíunni (sola scriptura). Þetta samfélag nærir okkur, brýnir og styrkir til að þjóna bræðrum okkar og systrum í heiminum sem Guð elskar.