Þá heilsar hversdagurinn að nýju. Skrautið er komið aftur í geymslu og jólatrén enduðu daga sína í bálkesti. Komandi dagar verða væntanlega talsvert grárri en þeir sem á undan fylgdu. Liturinn í kirkjunni er ekki lengur hvítur eins og var yfir hátíðarnar. Nú er hann grænn og við erum aftur minnt á að það er hlutverk okkar að vaxa og þroskast á jarðvistardögum okkar.
Síðustu jól
Þar sem ég stóð í ströngu heima að raða marglitum glerkúlum í kassa þá velti ég því fyrir mér hvort þessi jól hefðu verið á einhvern hátt frábrugðin öðrum. Jú, sumir hátíðardagar sitja eftir í minningunni fyrir ýmsar sakir. Mér er það enn í fersku minni að aðallitur hátíðarinnar árið 2007 var svartur. Þá sýndu fyrirmyndir og tískumógúlar okkur svartar kúlur, svart jólaskraut og borða sem hengd voru á tré og prýddu heimili. Það þótti ári síðar hafa verið ansi mikið, já einmitt 2007. Þá gekk í garð hátíð heimilisiðnaðar. Landsmenn skynjuðu fegurðina í hinu smáa og fábrotna. Hversu gaman var það nú að fá handprjónaða vettlinga í pakkann eða ávísun á samverustund með vini eða ættingja?
Síðustu jól gætu reynst söguleg í þeim skilningi einnig. Mögulega rifjum við þau upp síðar með svipuðu hugarfari og við gerðum um svörtu jólin á sínum tíma. Reyndust þau vera endir á tilteknu skeiði sem við mögulega höfðum gaman af á sínum tíma. En í í ljósi þeirrar þekkingar sem reynslan hefur fært okkur þá söknum við tíðarandans alls ekki.
Hagvöxtur
Við þurfum ekki að setja okkur í mjög spámannlegar stellingar til að skynja það að við stöndum á þröskuldi nýrrar hugsunar og lífsmáta. Ég sá það um daginn að yfirvöld hafa stefnt að því að ná árlegum hagvexti upp á 3%. Það þýðir jú, nokkuð jafn vöxtur lífsgæða og fólk á nóg milli handanna til að geta skipt út því gamla og keypt sér eitthvað nýtt. Út á það gengur jú hagkerfi okkar.
En svo fór ég að reikna – það er svo sem ekki flókið á þessari upplýsingaöld okkar. Spurði leitarvélina hvað það tæki langan tíma að tvöfalda hagkerfið ef meðalvöxtur væri einmitt 3% á ári. Svarið kom mér eiginlega í opna skjöldu. Það tekur ekki nema rúm 23 ár að ná þeim vexti. Já, nóg göngum við á auðlindirnar í dag – en takist okkur að auka um helming öll okkar umsvif, ferðirnar, neysluna, ruslið, reykinn og plastið – þá þarf ekki djúpt innsæi til að sjá hversu já óraunhæf sú áætlun er, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Lífríkið ræður ekki við þau ósköp. Nú þegar gengur harkalega á það og við horfum máttvana á myndir af gróðureldum víðsvegar á plánetunni.
Það er ekki laust við að sú hugsun sæki að, að við séum einmitt nauðug, viljug að fara að breyta lífsmáta okkar. Til þess að það verði unnt þarf auðvitað fyrst að endurnýja hugarfarið og afstöðuna.
Jórdan
Og á þessum fyrsta sunnudegi að loknum jólum birtist okkur myndin af Jóhannesi skírara í textum dagsins. Hann er náttúrubarnið í guðspjöllunum, fulltrúi hins óhefta og stóð utan við borgaralegt samfélag þess tíma. Hann sagði sig á vissan hátt úr lögum við þá siðmenningu sem hann beindi spjótum sínum gegn. Hann leit gagnrýnum augum á venjurnar sem fólkið hafði tamið sér, oftar en ekki í hugsunarlausri áþján vanans.
Það er svo margt sem heillar við Jóhannes. Til að mynda var það ekkert nýtt á þessu svæði að fólk væri ausið vatni og þar með skírt inn til nýrrar tilveru og trúarsannfæringar. Við musterið í Jerúsalem voru laugar og hver þeirra var í umsjón einhvers trúarsamfélags sem keppti um sálirnar á þessum tíma. Þessar laugar voru kallaðar mikvah og voru þarna í hjarta borgarinnar. Það var um leið til að undirstrika að fólk væri hluti hins gyðinglega samfélags þegar það tók skírn á þessum stöðum.
Jóhannes aftur á móti leitaði í óbeislað vatnið sem rann þarna í gegnum landið. Það var hluti þess vistkerfis sem skipti sköpum fyrir þetta landsvæði. Með því móti dró hann enga í dilka eða raðaði þeim í flokka. Hann undirstrikaði það að allir voru jafnir og allir voru líka hluti náttúru og vistkerfis.
Þar að auki er áin Jórdan stórmerkileg frá sjónarhorni landafræðinnar. Við getum við sagt að á þessi flytji sína predikun á alveg sérstakan hátt. Hún rennur í tvö vötn og þau eiga enga aðra vatnsuppsprettu. Þó eru vötnin tvö eins ólík og hugsast getur. Annað þeirra, Geneseretvatn eða Galíleuvatn er fullt af lífi og veitir þar að auki næringu sína til landsvæðisins þarna í kring.
Hitt vatnið sem áin rennur í er svo Dauðahafið. Jafnvel þótt Jórdan sjái því líka fyrir öllu vatni, er það eins og nafnið gefur til kynna með öllu lífvana. Skýringin á þessum andstæðum er sú að fyrrnefnda vatnið er jafn lífríkt og raun ber vitni er sú það miðlar vatninu áfram. Áin rennur aftur út úr Geneseretvatni og fyrir vikið helst þar eðlileg hringrás lífs og efna. Dauðahafið á hinn bóginn hleypir engu frá sér. Berglögin í kringum það eru svo þétt að þar lokast allt inni og svo þegar sólin skín á yfirborðið gufar vökvinn upp en söltin verða eftir.
Það er eins og áin minni okkur á það að sá sem hrifsar allt til sínl, miðlar engu áfram. Sá sem kærir sig ekki um hina náttúrulega hringrás, staðnar, dofnar, visnar og deyr rétt eins og hið dauða haf.
Nægjusemi
Já, þessi er vettvangur Jóhannesar sem hafði einmitt þennan sama boðskap að flytja til fólksins sem kom úr borginni út í óbyggðirnar og hlýddi á orð hans. Lúkas lýsir því sem svo:
Mannfjöldinn spurði hann: „Hvað eigum við þá að gera?“ En hann svaraði þeim: „Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“ Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: „Meistari, hvað eigum við að gera?“ En hann sagði við þá: „Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt.“
Svona var boðun Jóhannesar skírara og hún var í samræmi við lífsmátann hjá okkar manni. Frá því er svo greint í guðspjallinu þar sem hann mætti Jesú af auðmýkt og sagðist frekar eiga skilið að þiggja frá honum skírn en að skíra hann.
Það er sennilegt að einmitt þessi boðskapur fari að taka við í samfélagi okkar í allra nánustu framtíð. Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt – ef við hugleiðum það þá hafa boðorð samtímans einmitt verið öndverð þessari hugsun. Heimtið sífellt meira – þannig hljóðar áróðurinn sem á okkur dynur í sífellu og það er ekki lítið í húfi að við fylgjum honum til hlítar. Ef við fáum ekki leið á því sem við eigum, ef það bilar ekki samkvæmt áætlunum þá loka búðir og verksmiðjur.
Vandinn er auðvitað sá að ólíkt því sem hagfræðin hefur boðað undanfarin 200 ár þá er það ekki svo að enginn beri skaða af því þegar umsvif eru mikil og tannhjólin snúast ört. Hugmyndin að með aukinni velsæld opnist nýir markaðir og að hagur allra aukist fyrir vikið – hefur runnið sitt skeið. Nú horfum við upp á það að sköpunin stynur undan þeim ágangi sem þessu fylgir. Tíminn er orðinn naumur.
Eitt stórt dauða-haf
Biblían miðlar þeim boðskap að skyldur mannsins rista dýpra en svo að maka eigin krók. Kristur varar fylgjendur sína við því að gerast þjónar mammons. Lúther túlkaði þau orð á þann veg að þau snerust um það hvert átrúnaður okkar beinist. Hvað er það sem við kjósum að gerast undirgefin í lífi okkar? Er það veraldarauðurinn? Erum við ekki yfir það hafin? spyr Lúther og bendir á að tilgangur okkar sé ríkulegri og meiri en að ánetjast því sem veröldin býður upp á. Við erum tengslaverur og eigum að tengjast náunga okkar og Guði.
Og nú flytja vísindin okkur sama boðskap. Undirgefni okkar við hin tímanlegu og fallvöltu gæði, græðgin og auðsöfnunin er að gera heiminn að einu stóru dauða-hafi.
Tíminn til að breyta um lífsháttu er ekki endalaus. Því fyrr sem við tökum stakkaskiptum þeim mun betra. Þannig geta jólin sem nú eru nýliðin – orðið tilefni endurminninga síðar meir fyrir það þegar við héldum áfram að eyða og sóa eins og enginn væri morgundagurinn. Mögulega verða næstu jól tími nægjusemi og íhugunar um það hvar hinn sönnu verðmæti okkar liggja. Ef við hugsum út í það, þá hefur sá boðskapur ómað í gegnum mannkynssöguna. Jóhannes flytur hann, það gerðir Kristur líka. Sjálf stöndum við frammi fyrir því að þurfa að taka okkur taki og lifa í þeim anda sem skaparinn og sköpunin ætlast til af okkur.