Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg. Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins og altarisins. Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð. Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið. Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins. Matt 23:34-39
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Og gleðileg jól!
Jólin eru undursamleg hátíð sem færir okkur öllum boðskap friðar og kærleika. Við munum bernskujólin og geymum upplifunina af þeim innra með okkur. Og þannig munum við innsta kjarna kristinnar trúar og gildin sem trúin boðar. Þeim er meðal annars miðlað með hefðum sem við endurtökum ár eftir ár.
Barnið í jötunni er okkur tákn um sakleysi og einlægni. En Jesúbarnið í jötunni bjó nú ekki við áhyggjuleysi til frambúðar. Í frumbernsku varð fjölskyldan að flýja til Egyptalands undan blóðþyrstum harðstjóra sem óttaðist keppinaut og sendi menn til að myrða öll sveinbörn í Betlehem. Ótrúleg saga en samt er hún staðfest af sagnfræðingum og svo þekkjum við líka dæmi úr nútímanum þar sem valdhafar í fjarlægum löndum senda út leigumorðingja til að drepa þá sem eru valhöfum óþægir.
Foreldrar vita aldrei hvað bíður barna þeirra. Í skírnarsálmi einum segir:
Full af kvíða fyrir huldri framtíð, leggjum vér vort barn í þínar hendur. Blessun skírnar ein fær veitt oss styrkinn.
Við vitum aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér og því er best að búa sig undir hið ókomna með því að skapa í hjarta sér og barnanna öryggi og trúartraust sem veitir styrk þegar ágjafir dynja yfir á lífsleiðinni. Þá skiptir mestu að eiga bjargfasta trú og geta mætt því sem að höndum ber í öruggu trausti til þess að yfir okkur vaki almáttugur, kærleiksríkur Guð.
Í dag er óvenjulegt íhugunarefni sem kirkjan leggur fyrir okkur samkvæmt ævafornri hefð. Annar dagur jóla heitir líka Stefánsdagur frumvotts og litur hans er rauður, ekki vegna jólanna hvað þá jólasveinanna, heldur til að minnast blóðs fyrsta píslarvotts kristinnar trúar.
Fyrir tæpum tuttugu árum kom ég í fyrsta sinn til Asíu þegar ég sótti þar ráðstefnu presta og prédikara frá öllum heimsálfum. Mér er það enn ofarlega í huga að hafa hlustað þar á menn sem höfðu þurft að þola pyntingar og fangelsun vegna trúar sinnar. Einn þeirra hafði verið í fangelsi í Kína, annar sagði farir sínar ekki sléttar af samskiptum sínum við múslima í heimalandi sínu en þar voru þeir í meirihluta og kúguðu kristna menn miskunnarlaust. Hann hafði líka verið í fangelsi. Okkur þykir þetta framandi og skrítið en víða um heim er til fólk sem virkilega þjáist vegna trúar sinnar eða lífsskoðunar. Í Saudi-Arabíu til að mynda er starfrækt trúarlögregla sem gætir þess að fólk beri ekki vott annarri trú en islam. Þetta ríki er eitt helsta vinaríki Bandaríkjanna í heimi Araba. En það skrýtnasta er að þeir gera litlar sem engar athugasemdir við þetta framferði Sádanna enda mega þeir ekki styggja olíufurstana. En í næsta nágrannalandi, Írak, reka Bandaríkjamenn hins vegar stríð og það jafnvel í nafni kristinnar trúar. Já, það er margt skrítið í kýrhausnum, sagði karlinn.
Ofsóknir gangvart kristnum mönnum?
Eru þetta nú ekki bara einhver örfá og einstök atvik sem hafa einhvern tímann átt sér stað í útlöndum? kann fólk að spyrja. Þá er því til að svara að samkvæmt rannsóknum sem tölfræðingar hafa gert eru píslarvottar síst færri nú á dögum á hverju ári en á verstu ofsóknardögum í Rómaveldi forðum daga.
Við þekkjum orðið píslarvottur helst af fréttum um múslima sem sprengja sjálfa sig í loft upp vegna haturs á fórnarlömbum sínum sem oftast eru Vesturlandabúar. Að gefa slíkum athöfnum nafnið píslarvætti er umdeilt innan islam og stenst engan veginn kristnar skilgreiningar. Píslarvottur er sá sem tekinn er af lífi fyrir trú sína eða vegna hennar en alls ekki einhver sem æðir í opinn dauðann af blindu hatri á öðru fólki, jafnvel þótt það sé gert í nafni trúar og með bænir á vörum. Kærleikslögmál kristinnar trúar hafnar slíku alfarið.
Átök trúarheima eru ofarlega á baugi í fréttum heimsins. Sumir halda því fram að lausnin sé að banna alla trú og þar með verði friður í heiminum. Trúarbrögðum er kennt um allar styrjaldir veraldar og John Lennon söng „Ímyndaðu þér að engin lönd séu lengur til og engin trúarbrögð heldur.“ Er það lausnin? Nei, vandinn liggur ekki í því að fólk eigi sér lífsskoðun eða gildi, sem skipta það mestu, heldur liggur vandinn í því að í okkur öllum er brotalöm sem veldur ófriði, hatri og skorti á umburðarlyndi. Þessi brotalöm heitir synd á máli Biblíunnar og hún býr í okkur öllum. Rússneska skáldið Alexander Solzhenitzyn talaði um landamæri góðs og ills og benti á að þau liggja ekki einvers staðar úti í heimi, í öðrum löndum eða álfum, heldur þvert í gegnum hjarta hvers manns. Við þurfum að gæta okkar á hverri tíð að vera réttum megin landamæranna.
Útlendingum fjölgar ört á Íslandi og margir þeirra eiga sér aðra trúarsannfæringu en meiri hlutinn. Svo er líka hér á landi fólk sem á sér aðra trú eða kýs að vera utan allra trúfélaga og kennir sig við trúleysi. Í öllum þessum hópum er gott fólk með göfugar hugsjónir. Hins vegar er nokkuð hávær minnihluti svo nefndra guðleysingja sem hefur sig í frammi og stendur fyrir herskáum málflutningi gegn kristinni kirkju. Sumir þeirra hamast á skólastjórum hér í prestakallinu vegna þess að skólar efna til kirkjuferðar á aðventu. Samt er það greinilega tekið fram af hálfu skólanna að engum sé skylt að taka þátt í kirkjuferðinni. Okkur kann að þykja þetta saklaust nöldur en ég held nú samt að slíkum röddum eigi eftir að fjölga sem vilja þröngva meirihlutanum til að bæla niður trúariðkun sína. Fjölhyggjusamfélag þrífst best þegar öllum er heimilt að hafa sína skoðun, brjóti hún ekki í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Fjölhyggjusamfélag byggist ekki upp með því að fela skoðanir, heldur með því að skoðanir séu viðurkenndar og virtar, að þær fái að vera uppi á yfirborðinu og njóti þar sannmælis, séu gagnrýndar og ræddar innan marka siðferðis- og stjórnarskrárákvæða og að enginn verði látinn gjalda trúar- eða lífsskoðana sinna.
Kristin trú er í grunninn trú sem boðar kærleika og réttlæti. Hvergi í heiminum eru lífskjör betri og lýðréttindi meiri en í hinum kristna heimi. Það er umhugsunarefni.
Kristin trú hefur til skamms tíma verið sjálfsagður hluti af menningu okkar en mér er ekki örgrannt um að það kunni að breytast í náinni framtíð. Kirkjusókn er að aukast, segja margir og er það vel. Líklega eru línur að skýrast og skerpast í þjóðfélaginu. Kristnir menn þurfa að vita og þekkja hverju þeir trúa og vera reiðubúnir að standa vörð um trú sína og hin góðu gildi kærleika, umhyggju og réttlætis.
Í vettvangi þjóðmála eru mörg álitaefni sem virðast flókin en verða mjög einföld séu þau skoðuð í ljósi til að mynda Gullnu reglunnar sem Jesús kenndi: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, þa skuluð þér og þeim gjöra.
Hingað til hefur það kostað lítið að tilheyra kristinni kirkju og hafa kristna sannfæringu en verður það svo um alla framtíð? Hversu djúpt ristir hin kristna sannfæring í lífi Íslendinga? Hverju viljum við til kosta til að fá að hafa okkar trú?
Heimurinn þarfnast kærleiksboðskapar Jesú Krists sem boðaði jöfnuð allra manna, karla og kvenna, án tillits til uppruna, útlits eða skoðana.
Stefán frumvottur er okkur til áminningar um að sönn og góð trú getur jafnvel vakið hatur annarra og leitt til þjáningar og jafnvel dauða. Sannleikurinn er og verður til ásteytingar. En óttumst aldrei að fylgja sannleikanum því hann gerir okkur frjáls og í honum öðlumst við lífið. Kristur gekk veg þjáningar og dauða og svo hafa margir fylgjenda hans gert í aldanna rás. Kristur sagði við fylgjendur sína áður en hann kvaddi þennan heim: Í heiminum hafið þér þrenging, en verið hughraust, ég hef sigrað heiminn.
Við erum hans í lífi og í dauða.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.