Skoðanakannanir um aðskilnað ríkis og kirkju eru tímskekkja. Enn var það ítrekað í sumar þegar tilkynnt var úr Fjármálaráðuneytinu að taka ætti presta undan forsjá Kjararáðs. Við nánari skoðun reyndist það illmögulegt af því að kirkjan með starfsfólki sínu er ekki ríkisstofnun, heldur sjálfstætt félag samkvæmt lögum. Prestar og starfsfólk Þjóðkirkjunnar geta ekki samið við ríkið eins og vinnuveitenda um launin sín, af því að kirkjan er sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu. Í gildi er lögbundinn viðskiptasamningur á milli kirkju og ríkis um yfirtöku ríkisins á jarðeignum kirkjunnar og afgjaldið fyrir jarðirnar stendur undir launum presta og starfsfólks á Biskupsstofu. Síðan ákveður Kjararáð fjárhæð launanna. Þessi skipan hefur reynst vel og ólíklegt að annað fyrirkomulag dugi betur.
Þetta staðfestir enn og aftur, að kirkjan er sjálfstæð, frjáls og aðskilin frá ríkinu og er í samræmi við ákvæði 62. gr. stjórnarskráinnar sem var það eina sem fólkið í landinu vildi ekki breyta í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera Þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda“. Hér er einmitt kveðið á um aðskilda kirkju frá ríkinu sem skal njóta stuðnings og verndar ríkisvaldsins að því leyti að hún sé evangelísk og lútersk.
Enda eru miklir hagsmunir í húfi að varðveita og rækta evangelískan og lúterskan sið í landinu sem er grundvöllur frelsis, réttlætis og velferðar, og Norðurlöndin hafa verið þekkt af, og mótað hefur menningu og gildismat okkar um aldir. Þar er kirkjan kjölfesta og hefur auk þess umsjón með þjóðarverðmætum sem aldrei verða metin til fjár. En um fram allt, þá er kirkjan alltaf til þjónustu reiðubúin við fólkið í landinu og stundum eina skjólið þegar á reynir. Þá skiptir máli að vera sjálfstæð í þjónustu og störfum. Það staðfesta lögin um sjálfstæði Þjóðkirkjunnar frá árinu 1997 og sýna að skoðanakannanir um aðskilnað ríkis og kirkju byggja á staðleysum og eru tímaskekkja.
Þessi pistill birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. okt. 2016