Viljum við verða hrein?
Stokkseyrarkirkja sunnudaginn 6. sept. 2015, 14. sd. e. trin.
Í fyrstu prédikun sinni í Stokkseyrarkirkju leggur sr. Kristján áherslu á kærleika Krists í þjónustu kirkjunnar og kröfuna um að bregðast við neyð náungans og sérstaklega neyð flóttafólks frá stríðshrjáðum löndum Sýrlands og Norður Afríku, en sjá augu Guðs í þeim sem eiga vonina eina eftir vegna vonarinnar sem við eigum í sigri Drottins.
Það er mikið tilhlökkunarnefni að fá að koma hingað til þjónustu og ég mun leggja mig fram um að mæta því sem þarf eftir því sem ég er vígður til. Ég hef átt því láni að fagna að hafa þjónað sem prestur í 26 ár og ætla samt ekki að nota frasa leigubílstjórans úr gamanþættinum um manninn sem vissi allt. Fyrstu prédikun í guðsþjónustu flutti ég reyndar hér í Árnessýslu, í Þingvallakirkju, eitt sumarið sem ég vann þar í Þjóðgarðinum. Af langri reynslu síðan kannaðist ágætlega við það viðhorf safnaðarins núna að vilja helst ekki byrja að messa í ágúst heldur þegar allir væru komnir í gírinn í september og ákvað að virða það vel. Safnaðarstarfið byrjaði þó í síðasta mánuði þegar við komum saman á námskeiði í fermingarfræðslu með fermingarbörnunum og prestunum í Selfosskirkju. Það var góður upptaktur. Og núna byrja ég að leiða mína fyrstu messu 6. september á sama mánaðardegi og ég byrjaði í Landakirkju í Vestmannaeyjum 1998 löngu áður en fermingarbörnin hér voru fædd. Fyrir þann tíma var ég í gleði og sorg með öðrum söfnuðum norður í landi í tæpan áratug í Breiðabólsstaðarprestakalli. Og enn eru góð tengsl við fólkið nyrðra sem sum hver voru börn og ungmenni þá en hafa tekið við ýmsum helstu hlutverkum í samfélaginu þar og víðar á landinu og úti í heimi. Hún rekur heilmikið fyrirtæki í dag telpan sem spurði mömmu sína – innblásin af síðasta sunnudagaskóla – hvort það væri ekki örugglega Guð sem kveikti ljósin á stikunum meðfram veginum til að lýsa þeim í bílnum á leiðinni heim um kvöldið og slökkti svo á þeim þegar þau voru komin framhjá. Það kennir okkur að við eigum að láta ljós okkar skína svo samferðarfólkið okkar sjái góðu verkin og það verði til þess að allir vegsami okkar góða Guð.
Viljum við verða heil og sjá lausnina?
En lítum þá á guðspjall dagsins. Enn á ný gerist það að sá sem vill verða heill og betri maður, vill lifa betra lífi, er af öllu því sem bindur hann, fyrst og fremst bundinn af reglum og bönnum mannanna. Við erum bara svona gerð. Við byrjum of oft á því sem bannar og bindur í stað þess að hugsa í lausnum, hugsa í anda Lausnarans og sjá ljósið hans hvarvetna einsog telpan. Í sögu guðspjallsins er liggjandi maður sem vill verða heill en kemst ekki ofaní laug sem hann trúir að hreinsi hann og geri hann heilan. Og þegar Jesús sér trú hans segir hann honum einfaldlega að standa upp og taka rekkjuna sína. Hann leysir manninn þarna einsog oftast með orði sínu og orðið hans er máttugt. Og ekki stendur á húmornum í Nýja testamentinu því þar sem læknaður maður gekk með rekkjuna undir hendinni heim til ættingja sinna og vina mætir hann fólki sem kemur auga á hann og sér að hann heldur á börunum undir hendinni og það er hvíldardagur og á hvíldardegi má hvorki bera rekkjur né nokkuð annað undir hendinni – hvað þá að stunda nokkra vinnu, varla að draga björg í bú. Úr þessu verður hið versta mál því hinn læknaði var ekki meira heill en svo að hann fer að beina sökinni að þeim sem sagði honum að standa upp og labba heim með börurnar sínar, manni sem hann vissi engin deili á. „Hann sagði mér að gera þetta!“
Fjötraflækja nútímamannsins
Það þarf ekki að orðlengja þetta því við sjáum að í sögunni hafa allir gleymt lækningunni, fyrirgefningunni, kraftaverkinu. Þetta er auðvitað svo grátbroslegt að við gætum verið að horfa á sjónvarpsþátt frá Monty Python grínistunum bresku, grátbroslegt en samt með beittri ádeilu á lögmálshyggju, forræðishyggju og klassíska fjötraflækju sem nútímamaðurinn er meira að segja flæktur í með öllu sínu daglega þrefi um lög og reglur og réttarvernd og vinnurétt og hvað það nú heitir allt, sem í verstu útfærslum gerir manninn litlu betri en faríseana sem alltaf voru á vegi Jesú og reyndu að koma böndum á boðskapinn hans um frelsun, fyrirgefningu og lausn – kæfa raddir fagnaðarerindisins, slökkva ljósið á vegi mannsins.
Neyð flóttafólksins
Nú höfum við um langa hríð horft uppá fólk sem situr lamað í aðstæðum sínum sem flóttamenn frá stríðshrjáðum löndum. Við höfum horft ráðalaus uppá það hvernig þetta fólk leitar allra leiða til að komast á sjó yfir til Evrópulandanna norðan Miðjarðarhafsins. Það vill komast yfir og finnur hluti þeirra leið með manndrápsfleytum þeirra sem lifa á neyðinni og taka offjár fyrir. Vegna regluverksins og lagaumhverfis okkar megin við flóttamannastrauminn er vesalings fólkinu gert ókleift að koma bara með flugi frá löndunum í Norður Afríku eða beint frá nágrannalöndum Sýrlands, sem væri meira að segja mun ódýrari leið fyrir þau, en er lokuð leið af því að ekkert sómakært flugfélag má taka að sér að flytja fólk án ferðaleyfis eða dvalarleyfis í annað land. Þessu svipar til aðstæðna mannsins sem vildi verða heill en hafði engan til að setja sig ofaní laugina, laug sem gat hreinsað hann, samkvæmt sögunni, og hafði hann verið þarna í aðstæðum sínum í hálfa aðra kynslóð. Það er það sem textinn merkir þegar hann segir að hann hafi verið þarna bjargarlaus í 38 ár, en kynslóð er í biblíulegu máli venjulega talin um 24 ár. Ég leyfi mér að bera þetta saman þótt aðstæður séu á margan annan hátt ósambærilegar, ef við viljum fara út í það, í þeirri von að við sjáum hér saman hvað það gæti verið sem Kristur vildi segja við samtíðina okkar. Hann spurði manninn einfaldlega hvort hann vildi verða heill. Og þótt svarið við spurningum prestanna í sunnudagaskólanum sé oftast Jesús, er svarið ekki afdráttarlaust hér. Hann er svo fastur í sínum aðstæðum að það eina sem hann stynur upp er að hann hafi bara engan til að koma sér yfir. Hann er svo fastur í langri veiki sinni að hann sér engar lausnir. Þarna erum við aftur með samanburð og ekki bara við ömurlegar aðstæður flóttafólks, sem hefur tapað öllu sínu – landi sínu líka – og á ekkert eftir nema vonina um lausn hérna megin við hafið, heldur er samanburður líka við minna alvarlegar aðstæður, jafnvel hversdagslegar en þó oft hvimleiðar. Það snertir okkur djúpt að sjá mannlega eymd og við ættum að vera löngu byrjuð að bregðast við því í anda Drottins, anda Lausnarans, og leysa úr þeim vanda sem náungi okkar býr við í stríðshrjáðum löndum. Fjöldinn sem við björgum er ekki kjarni málsins, enda er sú umræða hér heima í anda hártogana og í besta falli grátbrosleg, en það er satt sem sagt hefur verið að sá sem bjargar einu barni bjargar heiminum. Viljum við bjarga heiminum byrjum við á fyrsta barni sem við sjáum í vanda, sjáum augu Guðs í augum þess, og leysum úr því á þann hátt sem kemur þessu barni best. Við ættum að hafa áttað okkur á miskunnarleysi stríðsins í Sýrlandi og séð ömurlegar aðstæðum fólks sem sýpur hvað versta seiðið af alvarlegu bakslagi eftir arabíska vorið um árið. Og við eigum líka börn hér heima sem þarf að bjarga og vernda en það minnir okkur á að við eigum fyrst og fremst að huga að lausnum í aðstæðum heima hjá þeim sem eru á flótta. Við getum byrjað á því að setja okkur í spor þeirra og spyrja hvað þyrfti mikið til að við flýðum góða landið okkar, hröklast héðan út í blákalda neyð og fara þangað sem við værum algjörlega uppá aðra komin, matarlaus og bjargarlaus, blönk í einhverju útlandinu.
Með góðum Ungverjum á Stokkseyri
Við hjónin komum hingað á Stokkseyri í fyrradag með góða gesti frá Ungverjalandi til að sjá nýja staðinn okkar og Suðurlandið okkar fagra. Þau gátu gleymt sér alveg og höfðu þörf fyrir það í ljósi þess hvernig flóttamannamál hafa þróast í þeirra landi í undarlegan heimóttaskap helstu ráðamanna ungversku þjóðarinnar. Sjálf voru þau afar beygð yfir því sem var að gerast heima hjá þeim. En þau voru hér á landi að vinna að velferðarmálum í þágu barna og hafa verið að læra góðar leiðir til þess á síðustu misserum hér hjá vönduðum samtökum Blátt áfram og stofnunum á borð við Barnahús í okkar landi. En þau voru miður sín yfir ráðamönnum sínum og lokunum sem ætlað má að girði fyrir að ungverska þjóðin sjálf – yndislegt fólk – fái að koma nauðstöddum til hjálpar. Og við leyfðum þeim að gleyma sér örlitla stund á Fjöruborðinu og það urðu fjörugar umræður yfir humarnum sem ekki dofnuðu þegar ég sagði sögur af Þuríði formanni og lýsti fjálglega fyrir þeim kristni íslensku þjóðarinnar og þau sögðu mér frá umskiptunum sem höfðu orðið frá því að þau fóru að stunda kirkju og eðlilegt bænalíf eftir allt bann um slíkt á Sovéttímanum og eftir að kúgun þeirrar eigin þjóðar létti. Börnin lærðu biblíusögur og þau voru þakklát fyrir að fá að fara með borðbæn þegar þeim listi. Okkur leið vel hér á Stokkseyri og Fjöruborðið breyttist í ljómandi fjör við borðið í spjall eftir ferðalag um Suðurlandið, út í Eyjar, allt austur í Reynisfjöru og hingað heim. Við hentum gaman að því að þessi dagur hafi orðið svona táknrænn fyrir okkur Guðrúnu Helgu að koma á flakki okkar með góða gesti úr síðustu sókninni í Eyjum og hingað í nýju sóknirnar þar sem við ætlum að láta okkur líða vel. Við fengum góðar óskir í þessum fyrsta kvöldverði okkar í nýrri þjónustu og það var gaman að finna það við þennan alþjóðlega blæ. Það skýrir líka svolítið þennan samanburð sem ég set guðspjallið í við útlegginguna í dag.
Hvernig prestur ert þú?
En svo var þetta ungverska samstarfsfólk vel að sér að ég komst ekki upp með annað en gera grein fyrir því hvernig prestur ég væri, hvaða einkunnarorð ég hafi sett mér og annað álíka djúpt og faglegt. Og fyrst þetta spjall átti sér stað hér í sókninni get ég alveg eins gert ykkur grein fyrir því hvernig ég svaraði hér mæðgunum sem spurðu mig og höfðu kynnst því við ein kynslóðaskipti að það er ekki sjálfsagt mál að fá að tjá trú sína á Jesú Krist eða iðka þá trú sem fyllir hjarta þeirra, einmitt þess vegna, meiri fögnuði en við getum skilið, sem höfum bara aldrei gert veður út af því uppá Íslandi hverju fólk trúir og erum ekki að rekast í því við nokkurn mann hvort hann fari til kirkju eða ekki, hér í svo stóískri ró yfir trúmálum að það jaðrar við sinnuleysi hjá svo mörgum. Já, það var þessi spurning um yfirskriftina á einni prestsþjónustu. Að svo miklu leyti sem það er á mínu valdi eru einkunnarorðin mín sótt í söguna af Emmausförunum og gæti útlagst eitthvað á þessa leið „að slást í för með fólki“. Þar slóst Kristur reyndar í för með tveimur mönnum á leiðinni frá Jerúsalem til Emmaus. Hann var ekki að fá þá til að snúa við heldur ræddi við þá á leiðinni um Ritningarnar og hvað þær þýddu í ljósi þess sem hafði þegar komið fram. Hann var ekkert að dyljast en þeir þekktu hann ekki og má það vera af því að hann var þarna upprisinn og þeir enn í geðshræringu yfir því sem gerst hafði þegar Jesús var krossfestur og lagður í gröfina en var nú sagður upprisinn. Þeir buðu honum að borða með sér þegar komið var í litla þorpið og það var þá sem þeir sáu hver hann var og áttuðu sig á því að einmitt þegar hann hafði verið á göngunni með þeim hafði hann skýrt allt svo vel að það brann í þeim hjartað og þeir voru sannarlega fylltir eldmóði, endurnærðir eftir þessa samfylgd. Það er mikil vogun að sækja mottó í þessa samlíkingu en það dempar þetta allt og heldur okkur á jörðinni að það er köllun okkar allra að ganga á hverjum degi svo líki Drottni. Það er daglegt verkefni okkar að fylgja dæmi Drottins og velta því fyrir okkur hvort við höfum gengið til góðs götuna fram á veg – við ljósið hans. Fyrir prest er það ósköp einfalt verkefni að hann er kallaður til að þjóna með því að slást í för með sóknarbörnum sínum og öðru samferðarfólki og vera þeim stuðningur þegar á þarf að halda en alltaf tilbúinn að koma í spjall á leiðinni, samferða í átt að betra lífi, meiri trú og bjartari von. Það er jú þangað sem við viljum stefna styðja hvert annað á leið, bera hvers annars byrðar. Og svo má bæta því við, sem skáldið mælti hér á Ströndinni, að presturinn stígur í stólinn á jólum og páskum af því að hann elskar það fólk sem hann þjónar. En þetta kemur fram í ljóðabókinni „Þú sem ert á himni, þú ert hér.“ Það er ósk mín á þessari fyrstu messu minni í nýju kalli, að það muni takast að vinna saman í kærleikanum sem Kristur sýndi, vinna í lausnum, sem sjá má af dæmi hans, og ef til vill að frelsast örlítið betur en þegar er orðið, og þó umfram allt að við vökum saman og stöndum vörð um það réttlæti sem Drottinn vill að ríki bæði á himni og á jörðu svo allt komi fram og sjái stað hjá okkar kynslóð líka einsog hjá þeim sem komið hafa að iðkun kristinnar trúar á undan okkur hér.
Við erum öll á ferð og þurfum ljós
Við minnumst þess núna að við erum öll á ferð, hreint ekki öll á flótta, en öll á ferð með Drottni, samferða og í góðu föruneyti þeirra sem vilja rétta það ranga, laga það laskaða og glæða það ljós sem lýsir þó af flöktandi kertaloga þeirra sem minna meiga sín, glæða það ljós sem lýsir af von þeirra um betra líf, lífssýn sem er góð fyrir okkur öll og öllum mönnum til heilla. Þannig séð lifum við lífinu hér á þessari jörð í trúnni á son Guðs og kærleika hans, sem lagði meira að segja líf sitt í sölurnar fyrir mannkynið allt, hvert einasta mannsbarn, til að sigra og gefa eilífa von.
Slm 103.1-6 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn; lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein, leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn. Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn. Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
Gal 2.20 Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.
Guðspjall: Jóh 5.1-15 Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“ Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“ Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“ Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“ Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“ En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum. Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“ Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.