En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.
En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.Lúk. 2:1-14
Gleðileg jól. Jólin eru komin.
Við heyrðum í upphafi messunnar sálminn „Sjá himins opnast hlið.“ Himinn Guðs er opinn, boðskapur jólanna, gleði þeirra og friður, færist yfir hin byggðu ból. Við væntum mikils af kvöldinu í kvöld, við vitum af reynslunni að til mikils er að hlakka. Væntingarnar um jólin eru miklar.
Búið er að byggja upp mikla spennu, sem nú er í hámarki. Munið þið eftir því frá því í ágúst í sumar þegar skyldi kveikja á ljósasyrpunni í Hörpu? Væntingarnar hófu sig upp úr öllu valdi um þann mikilfengleik sem þjóðin yrði vitni að, gegnum sjónvarp og með því að vera á staðnum, þegar kveikt yrði á stórkostlegu listaverkinu. En svo, í fylling tímans, kviknuðu hógvær og ljóðræn ljós, sem blikuðu í kvöldhúminu. Þau létu lítið yfir sér, voru lágmælt og hógvær. Flugeldasýningin var mikilfenglegri, en hún er nú löngu búin, þannig fer dýrð heimsins. Ljós jólanna, fæðing frelsarans, er ekki flugeldasýning. Þannig kemur Kristur ekki. Hann kemur til að vera. Ljósið hans slokknar ekki né hverfur eins og flugeldur, sem blossar upp og brennur. Jólin eru miklu meiri en svo. Drottinn hnatta og heima á erindi við okkur. Hann vill tala við mennina, hjálpa þeim að finna hamingjuleiðina. Það stærsta í augum hans getur okkur virst smátt í fyrstu,- eins og barnið í Betlehem. En hvort tveggja vex við kynningu.
Menningarskeið koma og fara, stefnur og straumar setja svip á lífið, stjórnmálin heimta sitt pláss. En allt er þetta tímanlegt, á sitt skeið og rennur sitt skeið, í þessum heimi. Það gerum við líka. Kynslóðir koma - og kynslóðir fara. Margar kynslóðir hafa komið og farið síðan María og Jósef fóru frá Nazaret til Betlehem. Hugsum okkur áhyggjur þeirra á leiðinni. Þetta var ferðalag sem þau vildu ekki þurfa að fara við þessar aðstæður. En það var stjórnvaldsákvörðun – og því ekkert um að velja. Hvað töluðu þau um á leiðinni: Hvar fáum við gistingu, hvar getum við verið, sérstaklega ef barnið fæðist í ferðinni? Jósef segir: „Við skulum ekki hafa áhyggjur af því, þetta er nú okkar fólk þarna í Betlehem, „yndislega ættin mín, æðin stærst“ frá Davíð konungi. Sum þeirra hafa heimsótt okkur til Nazaret. Við eigum vinum að mæta.“ Já, það var ekki rétt að hafa áhyggjur fyrirfram. En það fór á annan veg. Alls staðar luktar dyr og áhyggjur fóru vaxandi. Vonleysið náði samt ekki tökum á þeim. Þau fóru út í hagann, enginn vildi bjóða þeim gistingu, hjá þessari annars gestrisnu þjóð.
Gestrisni hefur líka alltaf verið mikil á okkar landi. Við höfum talað með stolti um íslenska gestrisni og án vafa lágu kristin gildi þar að baki. Það þótti meiri háttar skömm að hjálpa ekki þurfandi ferðamönnum. Varla kom fyrir að nokkrum væri neitað um húsaskjól. „Þar sem er hjartarúm þar er húsrúm“ segir máltækið. Því lýsir Tryggvi Emilsson vel í bókinni „Fátækt fólk.“ Fólk veitti eftir bestu getu þótt lítið væri umleikis, það gaf af skorti sínum. Jesús var ekki velkominn forðum – og andstöðu mætir hann oft. Það er ekkert ný afstaða eða uppfinning á síðustu árum. Frelsarinn, sem kom til að vitja sérhvers manns var ekki velkominn af öllum.
Í St. Pauls kirkjunni í London er afar athyglisverð mynd. Myndin heitir „Ljós heimsins“ og var máluð um aldamótin 1900 af listmálaranum William Holman Hunt. Myndin sýnir miðnæturstemmingu frá götu og í forgrunninum er frelsarinn. Hann heldur á lukt í annarri hendi en með hinni kveður hann dyra á húsi við götuna. Þegar myndin var sýnd í fyrsta sinn og gestirnir höfðu virt fyrir sér listaverkið um stund kom einn gestanna til listamannsins og sagði við hann eilítið glaðhlakka-legur: „Mér þykir fyrir því, en myndin er ekki fullgerð. Eins og þú sérð er ekkert handfang á hurðinni og það er leitt til þess að vita að þú skyldir gleyma því.“ Svar listamannsins var þetta: “Nei, vinur minn, myndin er fullgerð. Viðfangsefnið er nefnilega táknrænt. Myndin á að sýna frelsarann vera að knýja dyra á sjálfu mannshjartanu, en mannshjartað verður ekki opnað nema innanfrá. Þess vegna er enginn hurðarhúnn að utanverðu. Myndin er svo sannarlega fullgerð.“
Um jólin opnum við innanfrá. Það verður að vera ákvörðun hvers og eins. Þegar við opnum fyrir frelsaranum, þá finnum við líka nærveru hans. Það undrast margir hve sterk kristnin er þrátt fyrir það að hún virðist veik og auðunnin. En Guð vinnur með afli lífsins, - með afli hins hljóða og hægláta vaxtar. Vaxtarskeiðið er hægt en öruggt í heimi hinna andlegu verðmæta. Aldrei hafa fleiri játað kristna trú í heiminum en í dag. Sífellt fleiri þiggja lífi sínu blessun með því að opna dyr hjarta síns fyrir Jesú Kristi, ekki síst í þeim löndum sem þar sem stjórnvöld reyndu að loka á hann. Trúin, guðsríkið, nærvera Krists, verður hlutskipti þess sem opnar eins og segir í jólaguðspjalli Jóhannesar: „En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans.“ Við búum að þessum verðmætum í veðrum lífsins, jafnvel þótt allt sé ófært og Herjólfur sigli ekki. Þrátt fyrir allt mótlæti njótum við þess í kvöld að mega bjóða Jesú Krist velkominn, hverjar sem ytri aðstæður eru. Fólk sem er að heiman við skyldustörf, fólk sem dvelur á sjúkrahúsum, vistast í fangelsi. Og svo þau sem dvelja erlendis um jólin.
Við viljum láta kærleikann ríkja og ráða. Heimilin eru skreytt, mikið eða lítið. Hátíðleikinn og helgin fer ekki eftir því. Og ekki eftir verðgildi gjafanna, heldur þeim hug sem að baki býr. Þannig er það með jólaóskina sem við flytjum hvert öðru og jólakveðjurnar, sem hljómuðu í útvarpinu í gær og dag, vani og venjur sem vitna um vináttu og velvilja. Við viljum vanda framgöngu okkar, vera tillitssöm og háttprúð, og alls ekki særa nokkurn mann. Fátt er verra en vita sig hafa sært einhvern með fljótfærni eða í hugsunarleysi.
„Svo oft leyndist strengur í brjósti sem brast við biturt andsvar gefið án saka.“
Skáldið góða Einar Benediktsson er fundvíst á viðkvæma sálarstrengi. Með þá strengi í huga og kristin kærleik í hjarta getur okkur lánast að leysa hvert mál með aðgát í nærveru sálar. Sönn erum við og aldrei heilli en þegar við gefum gjafir, í hugsun, orði og verki. Þá eru dyr hjartans opnar á þessu heilaga kvöldi. Nú sjáum við í skýru ljósi.
„Ó, Jesúbarn, þú kemur nú í nótt og nálægð þína ég í hjarta finn.“
Í Jesú nafni. AMEN.