Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Komið til hans, hins lifanda steins, sem menn höfnuðu en er í augum Guðs útvalinn og dýrmætur. 5Látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestdóms.. (1Pét. 2:4-5a)
Í dag höldum við guðsþjónustu í ríki steinanna.
Við hlið okkar þvær og fágar Sandáin steinana í farvegi sínum, melarnir hér í kring geyma milljónir og aftur milljónir af steinum og fjöllin í fjarlægð eru heimkinni stóru steinanna og klettanna.
Flest erum við alin upp þar sem steinar eru allt í kringum okkur, þeir eru í fjörunni, í hlíðinni fyrir ofan bæinn, í fjöllunum í kring. Umhverfis okkur hér eru steinar og klettar allt um kring. Oftast eru þessir steinar á sínum stað, það er eins og þeir hafi verið meitlaðir saman, lítið eða ekkert fær haggað þeim. Þó gerist það stundum að eitthvað verður til þess að það losnar um stein í fjallshlíðinni og þá er voðinn vís, þá hefur jafnvægið raskast og steinninn missir sess sinn í hlíðinni.Steinarnir og klettarnir í hlíðinni taka oft á sig myndir. Þegar ljós og skuggar leika um, þá koma alls kyns furðumyndir í ljós og okkur finnst við eignast vini í klettunum og við viljum ekki að neitt hrófli við þessum klettamyndum. Stundum ímyndum við okkur meira að segja að hér eða þar séu steinrunnin tröll, því klettdrangar margir líkjast ótrúlega mikið fólki.
Og ekki langt hér undan, í Sandadalnum, má sjá margvíslegar sandsteinsmyndanir, þar sem grái liturinn myndar fallegt litalandslag við grænan mosann.
Stundum tökum við stein með okkur heim þegar við erum á ferð einhvers staðar. Steinn ratar í vasa eða bakpoka, allt eftir þvi hversu stór hann er. Þegar heim er komið eignast þessi steinn einhvern samastað og hann verður hluti af minningabanka okkar, því við getum alltaf sagt: ,,Þennan stein fann ég í þessari ferð, mikið var það góð ferð!”
Í ritningartextanum sem ég las hér áðan er talað um hinn lifandi stein – hvað skyldi vera átt við með því?
*** Fyrir rúmum 200 árum var svo komið í héraði einu í miðríkjum Bandaríkjanna að gamla kirkjan dugði ekki lengur. Hún var byggð úr torfi, byggingarefni sem við þekkjum vel hér á landi. Auk þess hafði samfélagið stækkað, fólkinu fjölgað og litla kirkjan var löngu orðin of lítil. Það var því nauðsynlegt að reisa nýja kirkju. Söfnuðurinn var ekki fjársterkur og hafði ekki efni á að flytja timbur á staðinn, en þarna var ekki mikið um trjágróður, hvað þá að smíðaviður væri þar í grennd. Menn fóru að líta í kringum sig til að skoða hvort eitthvað væri þar í nágrenninu sem nota mætti til bygginga annað en torf og leir. Jú, þarna var mikið af klettum og steinum stórum og smáum. Þá mundi einhver eftir því að hafa heyrt af steinsmið sem byggði undurfalleg hús.
Haft var samband við hann og hann samþykkti að takast þetta verk á hendur. Hann sagði heimamönnum að þeir yrðu að safna saman miklu magni af grjóti og hnullungum. Steinsmiðnum var svo gert viðvart þegar menn töldu sig hafa safnað saman nægilegu magni af grjóti.
Steinsmiðurinn kom. Hann hófst handa þegar í stað. Hann var með lítinn hamar og tók sér stein í hönd, barði á hann og kastaði honum vinstra megin við sig. Heimamenn horfðu á og fleiri og fleiri steinar lentu í hrúgunni til vinstri, en sumir lenti í hrúgu hægra megin við hann. Eftir margra daga vinnu var hann búinn að sortera grjóthrúguna í tvær, hrúgan til vinstri var miklu mun stærri en sú til hægri. Hann vildi fá meira grjót.
Heimamenn skildu ekkert, þarna væri nóg af grjóti.
,,Nei,” sagði hann og tók stein úr stærri haugnum og sagði, ,,þessir eru dauðir og það er ekki hægt að nota þá. Þið getið gert við þá það sem þið viljið en þeir eru ekki nothæfir í kirkjuna ykkar.”
Heimamönnum leist ekkert á blikuna, þeir sáu fram á að þurfa að flytja allt þetta grjót í burtu og koma með annað. ,,Lifandi steinar,” sagði steinsmiðurinn, ,, þá er hægt að móta. Þetta eru þeir sem ég ætla að nota.” Hann tók síðan úr poka sínum hamar og meitil og byrjaði að móta steinana. Hann meðhöndlaði steinana mismikið, suma næstum ekki neitt. Þegar hann hafði fundið bestu hliðar steinanna, fór hann að raða þeim saman. Hann lagði fyrstu röðina af steinum. Hann valdi fjóra mjög stóra og fallega steina og setti þá í hornin. Þessir hornsteinar gegndu því mikilvæga hlutverki að bera þyngd allra hinna steinanna og bera bygginguna uppi. Sérhver steinn varð að vera sérstaklega mótaður, svo að hann myndi falla nákvæmlega að hinum næsta. Þótt steinarnir hefðu getað verið hvar sem var í fyrstu, þá áttu þeir bara einn stað þegar búið var að höggva þá til.
Þegar steinsmiðurinn hafði lokið verki sínu, dáðust allir sem fylgst höfðu með verkinu að fegurð kirkjunnar. Ekkert hélt henni saman nema steinarnir sjálfir. Það var engin steypa, en sérhver steinn hafði verið mótaður þannig að hann féll nákvæmlega að hinum næsta. Og byggingin var traust. Hún myndi standa lengi. Sérhvert okkar er eins og einn þessara lifandi steina. Alveg eins og steinarnir – hinir lifandi steinar – völdust úr og urðu að hinni fegurstu kirkjubygggingu, þannig getum við orðið hinir lifandi steinar Jesú, steinarnir sem hann vill nota til þess að byggja kirkju sína á jörðu. Það er kirkja úr lifandi steinum – mennskum steinum.
Jesús Kristur er okkar hornsteinn - sá sem heldur hinni kristnu byggingu saman og sérhver kristinn einstaklingur er lifandi steinn í kirkju Krists á jörðu. Það sem mótar og skapar þann lifandi stein er skírnin og samfélagið við Guð. Lifandi kirkja er byggð úr lifandi steinum sem falla þétt saman og mynda sterka heild. *** Á ferð um landið okkar sjáum við gjarnan vörður. Þær eru minjar þess tíma þegar við ferðuðumst fótgangandi eða ríðandi um landið. Vörðurnar vísuðu veginn og voru lífsnauðsynlegar sérhverjum ferðalangi. Flestar voru þær listileg smíð – ekki ólík því sem lýst var hér með kirkjubygginguna. Valinn steinn í hvern stað.
Í dag eru vörðurnar ekki eins nauðsynlegar hinum almenna ferðalangi – ferðamáti nútímamannsins er öðruvísi nú og vegakerfið sér til þess að við villumst ekki af leið. En á lífsleið okkar þurfum við vörður – það eru vörður hlaðnar úr lifandi steinum – vörðurnar sem vísa okkur veginn fram á við, veginn þar sem er trú, von og kærleikur – veginn þar sem ljós Krists fer fyrir okkur, en minnir jafnframt á, að við skulum ávallt vera ljós af ljósi Krists.
Til þess að minna okkur á að við erum lifandi steinar bið ég ykkur um að gefa þeim sem næstur ykkur er steininn sem þið völduð ykkur áðan og þiggja annan stein í staðinn, og heyra um leið það sem segir í Opinberunnarbókinni:
,,Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðinu. Þeim er sigrar mun ég gefa af hinu hulda ,,manna”, og ég mun gefa honum hvítan stein, og á steininn ritað nýtt nafn, sem enginn þekkir nema sá, er við tekur.” (Op. 2:17)Þessi litli steinn eignast væntanlega samastað annaðhvort í vasa okkar eða einhvers staðar þar sem við getum látið hann segja okkur að við erum hinir lifandi steinar, að við erum hið nýja nafn, sem ritað er lífsins bók hjá Guði, nafnið sem þar var ritað við skírn okkar og gleymist aldrei.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.