Eilífi, almáttugi Guð og faðir, þú leiðir
þennan dag til lykta og hylur hinn ókomna og gefur okkur af náð þinni aðeins
eitt andartak í senn. Við þökkum þér árið sem senn er liðið, fyrir gleði þess
og sorgir, allt sem það gaf og tók. Fyrirgef oss vorar skuldir, synd,
afbrot, vanrækslu alla. Lát engan líða okkar vegna, heldur opna okkur leiðir
til að bæta fyrir það sem við höfum gert rangt eða látið ógert. Leys okkur frá
gremju yfir því sem að baki er, frelsa okkur frá kvíða fyrir komandi degi. Kenn
okkur að nota rétt hverja stund sem þú gefur. Í þínar hendur felum við árið
liðna og í trausti til handleiðslu þinnar höldum við inn um dyr hins nýja. Vísa
okkur vegu þína, Drottinn, og leið okkur gegnum skammdegi lífsins. Byggt á bæn C.
Krook
Þessi fallega sænska bæn fylgir textum dagsins á kirkjan.is. Hún minnir okkur á að það sem er liðið er í hendi Guðs og sama má segja um það sem er framundan. Það er mikil gæfa að geta falið Guði líf sitt á þennan hátt, að treysta Guði fyrir því sem var, vonbrigðum jafnt sem velgengni, og gefa Guði það sem verður – í fullu trausti. „Fel Drottni vegu þína og treyst honum,“ segir í Davíðssálmi 37: „Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.“
Í ritningarlestri dagsins sem hann Kristinn las fyrir okkur hér áðan, úr Harmljóðunum, er sama stef að finna: Náð Guðs og miskunn er ný á hverjum morgni, ný með hverjum degi, hverju ári, já ný á hverri stund.
En þetta vil ég hugfesta
og þess vegna vona ég:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín.
Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
Góður er Drottinn þeim er á hann vona
og þeim manni er til hans leitar.
Gott er að bíða hljóður
eftir hjálp Drottins. Harmljóðin
3.21-26
Og við erum hvött til að
rannsaka okkur sjálf, prófa okkur, skoða líf okkar og breytni í ljósi Guðs,
vona á Guð, leita Guðs, bíða hljóð eftir Guði, snúa aftur til Guðs.
Rannsökum breytni vora og prófum
og snúum aftur til Drottins.
Fórnum hjarta og höndum
til Guðs í himninum. Harmljóððin 3.40-41
Allt er þetta kunnuglegt þeim sem hafa gert veg 12 sporanna að sínum lífsvegi, hvort sem er í gegn um AA-samtökin, Vini í bata eða aðra tólfsporaleið. Sú góða vísa verður aldrei of oft kveðin:
1. Við viðurkenndum vanmátt okkar vegna aðskilnaðar frá Guði og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi.
2. Við fórum að trúa að máttur, okkur æðri, gæti gert okkur heil að nýju.
3. Við tókum þá ákvörðun að láta
vilja okkar og líf lúta handleiðslu Guðs, samkvæmt skilningi okkar á honum. Af heimasíðu
Vina í bata
Við áramót er
gott að rifja upp þessa góðu lífsspeki og minna sig á að lífshamingja okkar er
ekki bara undir því komið sem við afrekum sjálf eða aðrir gera fyrir okkur. Hún
er heldur ekki alfarið háð mistökum okkar eða annarra og alls ekki velvild eða
óvild annarra í okkar garð. Jafnvel það sem engum er að kenna eða þakka, þetta
óskiljanlega sem liggur í lífinu sjálfu og verður ekki undan vikist þarf ekki
að eiga síðasta orðið þegar kemur að hugarró okkar og andlegu jafnvægi. Guði
falin getum við verið heil, hverju sem við mætum.
Annar
ritningarlestur sem tilheyrir þessu síðasta kvöldi ársins er úr Rómverjabréfinu:
Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur?
Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll,
hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs
útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn
er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann
biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun
þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Það er
eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.
Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í
krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né
líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar,
hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika
Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum. Róm 8.31b-39
Þessi vel þekkta trúarjátning
postulans þarfnast varla frekari skýringa. Ekkert getur gert okkur viðskila við
kærleika Krists því Guð er með okkur. Guð gefur okkur allt með Jesú Kristi. Guð
sýknar.
Hver sakfellir? er spurt. Oft
erum það við sjálf sem dæmum okkur harðast. Oft er erfiðast að fyrirgefa
sjálfri sér, jafnvel fyrir það sem alls ekki var okkur að kenna eða á okkar
valdi að afstýra. Innst í okkur mörgum býr harður dómari sem er fljótur að
benda á mistökin, vanræksluna, vandræðaganginn sem jú stundum er okkur að kenna.
Það er enginn að segja að við eigum
ekki að vanda okkur. Auðvitað viljum við vanda okkur í lífinu, gera okkar besta,
veita öðrum gleði og elskusemi og sinna því vel sem okkur er trúað fyrir. Það
er gott og rétt. En stundum þrýtur okkur örendið, við leggjum of hart að okkur og
finnst ekkert nógu gott. Þá er mikilvægt að staldra við, taka sjálfa sig í
sátt, veita fyrirgefandi elsku Guðs inn í líf sitt. „Ég fyrirgef mér“ það sem út
af hefur brugðið á síðasta ári. „Ég fyrirgef mér“ gæti verið góður staður til
að hefja nýtt ár. Já, Guð sýknar mig. Guð fyrirgefur þér. Þaðan getum við sótt
kjark og kraft til einnig að fyrirgefa
okkur sjálfum.
Því að í hinum andlega veruleika
eigum við árnaðarmann, stuðningsaðila, sponsor, sem biður fyrir okkur og er
alltaf við, alltaf til taks. Líf Jesú er okkar líf, þannig erum við ekki ein,
þannig veltur ekki allt á okkar eigin snilld eða skort á sama. Við getum
sigrast á hverju sem er í krafti Jesú sem elskar okkur. Hverju sem er, í Jesú
nafni. Og Jesús segir okkur dæmisögu:
Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður
nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á
því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið
og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að
vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár
þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt
síðan. Annars skaltu höggva það upp.“ Lúk 13.6-9
Jesús er eins og víngarðsmaðurinn
sem gætir trésins í lífsgarði okkar. Okkur líkar ekki einhver hluti okkar sem
virðist vera skertur, ekkert gefa af sér, eitthvað í lífi okkar sem engum er
til gagns, hvorki okkur sjálfum né öðrum. Þá kemur Jesús og býðst til að hlú að
líka þessum hluta lífs okkar, grafa um og bera að áburð. Mætti svo verða, mættu
öll okkar lífstré vakna til lífsins, blómgast og bera ávöxt á nýju ári. Í Jesú
nafni færum við Guði allt það sem kalið hefur og kólnað innra með okkur, allt
það sem orðið hefur fyrir skorti og skemmdum, dómhörku okkar og dældað sjálf, allt
það sem innst í okkur býr. Í Jesú nafni.