Í dag er allra heilagra messa í kirkjunni hjá okkur. Það er dagur helgaður minningu látinna ástvina. Minningin um þá sem við höfum elskað er sannarlega heilög. Við tendrum ljós, því minningarnar eru eins og ljós á vegferð okkar í gegnum lífið.
Dýrmætar minningar Allra heilagra messa er dagur til að staldra við og rifja upp fallegar minningar, þar sem sumar eru sárar og vekja söknuð, en um leið eru þær líka svo kærar og góðar. Minningardagarnir í árinu svo mikilvægir, t.d. hátíðir, jól og páskar, afmæli og dánardagar, þegar minningarnar streyma fram sárar og erfiðar, hlýjar og góðar, því söknuðurinn og sorgin eru í hjartanu samofnar minningunum.
Dauðinn í samfélaginu Þetta er reynsla sem við þekkjum öll, þegar tekist er á við sorgina, því við viljum varðveita minninguna um látinn ástvin og leyfa ljósi hans að lifa. Það er traust von, en í daglegu lífi er svo lítið pláss fyrir sorg og söknuð. Stundum er eins og samfélag sé „hreinsað“ af sjúkdómum, þjáningu og dauða. Þær kynslóðir sem nú vaxa úr grasi þekkja jafnvel ekki að sitja við sjúkra- eða dánarbeð. Á árum áður dó fólk á heimilum sínum og fólk skiptist á að sitja við dánarbeðið. Allir voru þátttakendur, einnig börnin. Guðfræði þess tíma og bókmenntir fjölluðu um lífið og dauðann og fólk hafði orðfæri að ræða opinskátt um endalok lífsins. Dauðinn er hins vegar enn á sínum stað og er allt um kring í sjónvarpsfréttum, kvikmyndum og bókmenntum,en þar er fjarlægðin jafnan svo mikil að það raskar ekki persónulegri sálarró okkar eða annarra.
Líkkistur í Smáralind Umræðan sem áður var hluti af lífinu er nú tabú, en kynlíf sem áður var tabú er nú á hvers manns vörum. Nýlega var sagt frá því í frétt að líkkistur hefðu verið notaðar við uppstillingar á blómum og krönsum í blómabúð í Smáralind til að sýna þá þjónustu sem í boði væri. Í fréttinni var haft eftir eigandanum að sér hefði komið á óvart feimnin í samfélaginu við þennan óumflýjanlega veruleika lífsins, því það væru jú örlög okkar allra, að deyja. Og vegna mikilla viðbragða fólks voru kisturnar fjarlægðar degi eftir að þær voru settar upp.
Óttinn við dauðann - óttinn við lífið Þekktur finnskur guðfræðingur Tommy Hellsten fullyrðir að menning okkar sé hrædd við dauðann og lífið og vegna óttans erum við rænd svo mikilvægum gæðum og missum jafnvel sjónar á því sem dýrmætast er í lífinu. Enn fremur segir hann:
Þegar dauðanum er leyfilegt að vera nærri okkur í lífinu, verður það svo magnþrungið að okkur verkjar undan því. Þá sést hve innihaldsríkt lífið er og ekki sorglegt. En þegar við byrjum að ráðskast með lífið með því að velja sífellt það sem er þægilegast fyrir okkur, þá flýtur það frá okkur, við finnum fyrir tómleika og verðum yfirborðskennd. Okkur fer að langa að sleppa fram af okkur beislinu, og fá tímann til að líða. Það verður að vera fjör og læti, spenna og kæti.Manneskja sem kynnist dauðanum, mætir hins vegar mikilfengleika lífsins. Þess vegna færir dauðinn okkur styrk. Hann sýnir okkur lífið í formi sem við ráðum ekki yfir. Nærvera dauðans vekur okkur þannig til lífsins.
Að mæta óttanum Þetta eru gömul sannindi og ný, vegna þess að besta ráðið við því sem maður óttast er að mæta því og leitast við að umfaðma það. Þá er ekkert að óttast og með því þora að horfast í augu við endalok lífsins, þá gefur það lífinu merkingu og tilgang. Um leið verður spurningin áleitnari hvernig ég lifi lífi mínu til fulls í gleði og kærleika. Sú leið er ekki endilega sú auðveldasta, þar verður ekki sneitt framhjá erfiðleikum, sorg og þjáningu. Það er hins vegar sú leið sem getur gefið þroska og vöxt.
Það viðhorf virðist æ alengara í samfélaginu að fyrst Guð lætur saklaust fólk deyja, stríð og sjúkdóma viðgangast, þá hljóti hann annað hvort að vera ekki til eða ekki þess verður að trúa á hann. Þetta viðhorf byggir á því að lífið eigi að vera eintóm gleði og kæti, en reynsla lífsins kennir okkur annað. Að trúa á Guð er ekki að æskja þess að hann láti okkur komast í gegnum lífið án þess að mæta erfiðleikum. Líf án baráttu eða verkefna til að takast á við myndi ekki gera neitt gagn.
Unginn í egginu Þegar ég var unglingur týndi ég dún á vorin í mörg sumur. Það var einstakt að vera í svo mikilli nánd við vilta náttúru og fuglana. Maður komst fljótt að því að heimur æðakollunnar er hættulegur og varasamur, en þær læra með tímanum að manninum má treysta. Hann rænir ekki hreiðrin þeirra og þegar hann er á ferli koma engin hættuleg rándýr.
Það var oft mikið líf og fjör þegar ungarnir skriðu úr eggjum og mér er minnistætt einu sinni, þegar ég kom að hreiðri þar sem einn unginn var langt komin með að brjóta sér leið út úr egginu. Það var greinilega mikil og erfið þraut og ég vildi hjálpa honum. Ég braut skurnina af og út kom lítill, blautur og ræfilslegur ungi. Hann gat hins vegar lítið hreyft sig og varð fljótt blautur og kaldur.
Það rann upp fyrir mér að ég hafði ekki gert neitt gagn og í rauninni illt verra. Með því að hafa fyrir því að komast út úr egginu, þá var litli unginn að undirbúa sig fyrir lífið. Hann þjálfaði vöðvana og kom blóðflæðinu af stað. Með þessum sama hætti gerist þetta svo víða í náttúrunni, t.d. þegar fiðrildið brýst út úr púpunni sinni, sem þarf að tíma og hafa fyrir því svo að vængirnir styrkist og verði nægilega sterkir til að geta borið það.
Að trúa Það að trúa á Guð er ekki trygging fyrir því að okkur verði hlíft við erfiðri lífsreynslu, áföllum eða efasemdum. Erfið lífsreynsla getur gert okkur aftur á móti sterkari og undirbúið okkur fyrir frekari áskoranir með traustri von í farteskinu. Við búum í ófullkomnum heimi þar sem eru sjúkdómar, náttúruhamfarir, sorg og dauði. Það þekkti Jesús Kristur af eigin raun. Hann starfaði meðal sjúkra og fátækra. Hann þekkti neyð mannsins og erfiðleika. Sjálfur þoldi hann miklar þjáningar og dó á krossi. Með því birti Kristur að Guð er ekki hátt upp hafinn, heldur er mitt á meðal okkar af umhyggju í kærleika og lætur sér annt um fólkið sitt.
Í því felst trúin að í einmannaleika sorgar og saknaðar, þá er Guð þér við hlið og heldur þér í faðmi sínum, styrkir, leiðir og huggar. Og þar gegnir bænin svo miklu hlutverki – samtalið við Guð - að tjá hugsanir sínar, líðan og tilfinningar og líka að deila upplifum sínum og reynslu með öðru fólki. Þess vegna er svo dýrmætt að umræðan um sorg, söknuð, sjúkdóma og dauða sé opin og uppi á borðinu. Þá gildir fyrst og fremst að vera til staðar og hlusta með opin faðminn. Að setja sig í spor annarra og sýna umhyggju eins og Jesús Kristur gerði. Amen.