Nú styttist í lok fermingarstarfsins sem hefur staðið yfir frá því í sumar eða haust. Í flestum kirkjum í þéttbýlinu hefjast fermingar í lok mars eða byrjun apríl og núna bíða hreinir og stroknir fermingarkyrtlarnir í löngum röðum eftir því að stóri dagurinn renni upp og uppfrædd og glöð ungmenni klæðist þeim.
Líf Jesú er mikilvægt
Í söfnuðinum sem ég þjóna hafa um það bil 140 ungmenni gengið til spurninga, vikulega frá því í byrjun september. Fermingarfræðslunni sinna prestar kirkjunnar, sem eru tveir, æskulýðsfulltrúi safnaðarins sem er guðfræðimenntaður og grunnskólakennari sem er líka söngkona. Í vetur höfum við stuðst við nýtt fermingarfræðsluefni sem heitir Con Dios, eða Með Guði, og byggir á hefðbundnum áherslum fermingarfræðslunnar. Þar má nefna samtal um atburði í lífi Jesú, dæmisögurnar í guðspjöllunum, lífsleikni kristinnar manneskju, bænin og trúararfurinn.
Við könnumst við það sem oft heyrist þessa dagana, að börn sem koma í fermingarfræðslu kirkjunnar, eru oft að heyra í fyrsta sinn um líf Jesú, dæmisögurnar sem hann sagði, og um atburði kirkjuársins. Prestar nefna margir að þeim finnst þetta vera breyting á ekki ýkja löngum tíma.
Viðbrögðin við þessari þróun hljóta að vera að leggja meiri áherslu á hefðbundna biblíufræðslu og trúariðkun eins og bænalíf og helgihald. Reynslan okkar í vetur hefur einmitt verið á þá lund að þrátt fyrir margt sniðugt og vekjandi í Con Dios, höfum við sveigt tímann sem við höfum átt með börnunum, meira í áttina að biblíusögum og samtali um lif Jesú.
Helgihaldið mikilvægt Við höfum lagt á það áherslu að fermingarbörnin og fjölskyldur þeirra eigi gæðastundir í kirkjunni og að þátttaka í helgihaldi safnaðarins sé mikilvægur hluti fermingarreynslunnar. Sunnudagsmessurnar eru fyrirferðamestar í helgihaldinu okkar en krökkunum stendur líka til boða að kynnast barnastarfi, fjölskyldumessum og gospelmessum.
Persónulega finnst mér það umhugsunarefni hvað stórir og stöndugir söfnuðir bjóða í raun upp á einhæft helgihald, sem er ekki endilega heppilegast til að ná til messuóvanra í hópnum. Þarna megum við í stóru kirkjunum á höfuðborgarsvæðinu standa okkur miklu betur í að prófa, þróa og rækta fjölbreytt og framsækið helgihald í kringum miðlun á Orði Guðs og náðarmeðulunum.
Að vera hendur Guðs í heiminum Díakonía er sjálfsmynd kristinnar kirkju og birtingarmynd náungakærleiksins sem við eigu að sýna hvert og eitt. Í fermingarfræðslunni leikur þáttaka í Vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar stórt hlutverk í því að læra um díakoníuna og það að vera hendur Guðs í heiminum. Hvert og eitt fermingarbarn tók þátt í að ganga í hús í bænum okkar og safna fyrir byggingu vatnsbrunna í Afríku þar sem aðgangur að hreinu vatni er takmarkaður. Börnin fá fræðslu í kringum þetta verkefni, sem opnar augu þeirra fyrir hlutum sem þau höfðu ekki hugmynd um. T.d. að það sé hægt að deyja úr niðurgangi og að reyndar deyja fleiri þannig heldur en úr HIV/AIDS í Afríku.
Verum ekki forréttindablind
Það gerist mikið í lífi barnanna veturinn sem þau ganga til spurninga. Það er mikið traust sem þjóðkirkjunni er sýnt með því að fela henni öll þau ungmenni sem fermast í kirkjunni að loknum heilum vetri í fræðslu og samveru. Það eru líka hrein forréttindi að fá að kynnast og vinna með eins stórum hluta af hverjum einasta árgangi Íslendinga og raun ber vitni. Það er mikilvægt að við notum tímann vel og setjum okkur markmið með öllum þáttum fermingarstarfsins. Fræðslan um líf og starf Jesú er mikilvægur hluti en einnig tengslin við börnin og fjölskyldur þeirra.
Á meðan við sinnum fermingarbörnunum og fjölskyldum þeirra vel, þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að skólinn eða heimilin sinni ekki kristinfræðikennslu. Kirkjan er náttúrulegur staður til að heyra um líf Jesú og áhrif hans á líf okkar. Til þess erum við kölluð að boða í orði og verki lifandi trú.