Einhvern tímann heyrði ég haft eftir Churchill gamla fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands að hann hefði skilgreint golfíþróttina sem leik að tveimur kúlum - lítilli og stórri - og að kylfingurinn ætti að slá þá litlu. Skemmtileg túlkun á frábærum leik. Baráttan við litlu kúluna hefur verið mér áskorun mörg undanfarin ár og oft hef ég í þeirri glímu orðið fyrir því að slá þá stóru í stað þeirrar litlu. Heitir það á golfmáli að grunda og þykir ekki gott.
Golf er skemmtileg íþrótt og ég leyfi mér að segja mjög kristileg. Kerfið sem leikið er eftir hefur þróast á nokkrum öldum og það sem kallað er forgjöf er í reynd fyrirgefning. Þeim, sem minna kunna og eiga í meira basli með íþróttina en aðrir, er meira fyrirgefið. Kannski væri ráð að taka upp forgjöf í knattspyrnu, í það minnsta þegar við eigum í höggi við Dani? Ef við gæfum okkur svona 12 í forgjöf þá væri 14:2 leikurinn hræðilegi orðinn að jafntefli!
Golfleikurinn krefst ögunar og samhæfingar hugar og handa, sálar og líkama. Litla kúlan hefur ótrúlegt aðdráttarafl og er fjöldi kylfinga nú orðinn svo mikill að golfhreyfingin er víst orðin stærsta íþróttahreyfing landsins. Svo minni ég á það í leiðinni að þeir sem leika golf heita kylfingar enda þótt sumir vilji kalla þá golfara sem mér þykir skelfilega ljótt orð og álíka viðeigandi ef bankastarfmenn yrðu kallaðir bankara. Nóg í bili um leikinn að litlu kúlunni.
Stóra kúlan veldur mér vaxandi áhyggjum í öðru samhengi. Ég hef áhyggjur af því hvernig mannkynið leikur sér að stóru kúlunni. Vaxandi mengun er talin orðin svo mikið og stórt vandamál að sumir vísindamenn telja nær ógerlegt að snúa þróuninni við. Bráðnun jökla, hlýnun sjávar og andrúmslofts, kann að leiða okkur í algjörar ógöngur og valda því að lífsgæði fari þverrandi. Þróunin getur jafnvel gengið svo langt að allt á jörðu deyi. Á sama tíma hefur heimsbyggðin vaxandi áhyggjur af átökum menningarheilda, einkum hins kristna heimshluta og þjóðanna sem eru islamstrúar.
Stóra kúlan á í vök að verjast og mannfólkið er sjálfu sér verst. Hvað er til ráða? Ég held að að samræðan sé ein mikilvægasta leiðin til að ná áttum og sáttum í heimi takmarkaðra gæða. Kristin trú er leið sáttargjörðar og ef Vesturlöndum auðnast ekki að lifa í anda hennar þá fer illa. Gömlu hefndargildin eru löngu úr sér gengin. Nú ríður á að heimsbyggðin þekki sinn vitjunartíma og standi vörð um stóru kúluna sem er svo agnarsmá í alheimsgeimi. Við verðum að læra að lifa sem eitt mannkyn, ein fjölskylda á einni kúlu, móður jörð.
Að endingu læt ég fylgja með sálm eftir norska skáldið Peter Dass sem var samtímamaður séra Hallgríms Péturssonar. Sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, þýddi sálminn, sem boðar að jörðin og lífið allt sé hluti af stærri heild, hinu stóra samhengi alls sem er. Vonin um að allt sé í hendi Guðs má þó aldrei gera okkur andvaralaus andspænis vanda heimsins.
Drottinn Guð, þitt dýra nafnið skæra dýrka ber og veita lotning tæra. Hver tunga, vera skal vitni bera, að voldug eru þín ráð og þér þakkir færa.Guð er Guð, þótt veröld væri eigi, verður Guð, þótt allt á jörðu deyi. Þótt farist heimur sem hjóm og eimur, mun heilagt streyma nýtt líf um geim, Guðs á degi.
Björgin hrynja, hamravirkin svíkja, himinn, jörð og stjörnur munu víkja, en upp mun rísa, og ráð hans prísa, hans ríki vísa og ljósið lýsa og ríkja.