Klukkan er 7.30 og það er tími til að fara á fætur. Eiginmaðurinn hellir upp á gott kaffi meðan ég fer í sturtu og strauja prestaskyrtuna mína. Eftir kaffibolla og ristaða brauðsneið liggur leiðin í kirkjuna. Það eru falleg listaverk sem taka á móti mér, formleg opnun listsýningar fer fram að guðsþjónustu lokinni. Það er spenningur í loftinu, það stendur mikið til. Í dag þjónum við saman báðir prestar safnaðarins og förum aðeins yfir verkaskiptingu. Kirkjuvörðurinn mættur . Organistinn og kórinn koma kl. 10 til þess að hita upp og renna yfir sálma dagsins. Það er gott að hittast og finna að við erum saman að undirbúa stundina í kirkjunni. Um kl. 10.30 koma tveir fulltrúar sóknarnefndar sem taka á móti fólkinu, lesa ritningarlestra og aðstoða við kirkjukaffið. Niðri í safnaðarheimili eru sunnudagaskólakennarar að undirbúa sig og það ómar létt tónlist frá píanóinu.
Þegar kórinn hefur lokið sinni æfingu mætir ung kona nýkomin úr framhaldsnámi í fiðluleik í tónlistarháskóla í London. Hún ólst upp í söfnuðinum og var unglingur þegar hún spilaði fyrst í guðsþjónustu. Gaman að fá að fylgjast með henni þroskast sem manneskju og listakonu. Það leynir sér ekki að allir leggja sig fram og ætla að gera sitt besta í dag, eins og raunar alla sunnudaga.
Það streymir að fólk. Fermingarbörnin mæta vel í dag. Töluvert af fóki sem við höfum ekki séð áður og tengist listamanninum. Guðsþjónustan er góð stund margir legga sitt lóð á vogarskálina og útkoman er falleg heild. Prédikunin vísar til listsýningarinnar. Við biðjum fyrir systkinum okkar á Haiti.
Formaður listanefndar opnar sýninguna og það er þægileg stemning í húsinu. Boðið upp á kaffi, konfekt og spjall við listamanninn.
Lítil stúlka bíður þess með fjölskyldu og vinum að presturinn komi og skíri. Enn einu sinni gerist undrið. Nálægð Jesú er sterk, við finnum það, sjáum hann ekki en skynjum að stundin er heilög og kærleikur Guðs umvefur litlu stúlkuna og fólkið hennar. Góð vinkona var tilbúin í hlaupaskónum og eftir símtal við hana var ákveðinn staður og stund til hlaupaferðar. Það var enn bjart kl. 15 og Fossvogsdalurinn varð fyrir valinu og hlaupin 7 km hringur.
Eftir heitt bað var hnoðað í heilhveiti strombolí og útbúin spennandi fylling með tómötum og mozzarella. Á meðan deigið hefaðist var útbúið ferskt salat með túnfisk og speltpasta. Dásamleg máltíð í faðmi fjölskyldunnar og að henni lokinni settust mæðgur fyrir framan sjónvarp að horfa á „himmelblå“ norskan framhaldsþátt sem kallaði fram minningar um árin sem fjölskyldan átti í Noregi. Eiginmaðurinn las og sonurinn fór út að hitta félaga sína.
Þetta var góður sunnudagur.