Margt hefur verið ritað og rætt um það hvort konur högnuðust eða töpuðu á siðbótinni. Martin Lúther leit á konuna sem húsmóður og móður, en hann barðist fyrir menntun allra, bæði kvenna og karla. Kenning hans um hinn almenna prestdóm varð hvatning fyrir konur til að skoða sjálfar boðskap trúarinnar. Eiginkona Lúthers Katharina passar vel inn í mynd hans um konur, en hún bar mikla virðingu fyrir honum og þurfti ekki að fela sig á bak við hinn mikla mann. Óviss uppruni. Sagnfræðingar eru ekki alveg sammála um fæðingarstað Katharina von Bora, en flestir telja þó að hún hafi fæðst í bænum Lippendorf rétt sunnan við Leipzig. Sumir nefna einnig Hirschfeld nálægt Nossen. Yfirleit er hún talin fædd 29. janúar árið 1499. Faðir hennar var fátækur og við hvert barn sem fæddist varð örbyrgð hans meiri. Móðir henn lést líklega fyrir árið 1505 því það ár kvæntist faðir hennar aftur.
Klausturárin. Faðir Katharinu treysti nunnunum í Ágústínusarnunnuklaustrinu best fyrir menntun hennar, en þangað fór hún aðeins fimm ára að aldri. Árið 1509 gekk hún í Marienthron nunnuklaustrið í Nimbschen nálægt Grimma, sem var Cisterianusarklaustur. Hún hlaut góða menntun og fór með heitin sín –eins snemma og leyfilegt var- sex árum síðar. Boðskapur siðbótarinnar fór ekki framhjá nunnunum í klaustrinu. Vorið 1523 flýðu 12 nunnur í yfirbyggðum vagni. Níu þeirra náðu til Wittenberg í gegnum Torgau, þar á meðal Katharina. Árið 1536 dó síðasta abbadísin og nunnuklaustrið var lagt niður. Þar er nú Hótel Kloster Nimbschen. Kapella í gotneskum stíl var reist þar til minningar um klaustrið og hina frægu íbúa þar.
Frá flótta til Lúthers. Katharina von Bora gat ekki vænst neinnar hjálpar af stjúpmóður sinni og bræðrum. Hún fann sér skjól í Wittenberg, en ekki neinn eiginnmann – strax! Lúther fannst unga konan “stolt og hrokafull” og beindi sjónum sínum að Ave von Schönfeld sem líka hafði flúið frá klaustrinu í Nimbschen. Það kom því öllum á óvart að hann kvæntist Katharinu 13. júní árið 1525. Giftingarhringurinn hennar, sem var gjöf frá danska kónginum er nú í Borgarsögusafninu í Leipzig. Brúðkaupsveislan fór fram tveimur vikum síðar og er enn haldin minningarveisla um brúðkaup Martins og Katharinu. Fljótt kom í ljós hversu myndarleg húsmóðir og bústýra Katharina var og naut hún virðingu allra. Hjónin settust að í húsi því í Wittenberg sem nú er nefnt “Hús Lúthers”. Þar fæddust þeim sex börn. Katharina hét nú Katharina Luther, en hann kallaði hana “herra Kötu”.
Hið nýja ríki. Árið 1540 keypti Martin fyrir konu sína búgarðinn Zöllsdorf nálægt Borna þar sem hún gat verið nokkrar vikur á ári. Ferðin þangað tók tvo daga með hestvagni. Þar var hún í sínu ríki og framleiddi allt sumarið mikið af grænmeti og alls kyns mat sem hún þurfti til að að halda uppi hinu stóra heimili sínu í Wittenberg og fyrir hina mörgu gesti, sem heimsóttu þau.
Flótti og dauði. Þegar Martin Lúther lést árið 1546 var erfðaskrá hans ekki viðurkennd. Katharina var þar nefnd sem eini erfinginn, en það samræmdist ekki “Sachsenspigel”, lögbók þess tíma. En hún naut hjálpar góðra vina. Hún flúði frá Wittenberg, en komst aftur síðar í góðar álnir. Vegna uppskerubrests neyddist hún aftur til að flýja haustið 1552. Rétt utan við Torgau lenti hún í slysi og mjaðamagrindarbrotnaði. Þremur vikum síðar lést hún í húsi í miðbæ Torgau. Í þessu húsi er núna Katharina Luther safnið sem er til minningar um hana. Katharina von Bora er jarðsett í Maríukirkjunni í Torgau.