Nú er mikið rætt um breytt gildi og ný viðhorf í íslensku þjóðfélagi. Innan þjóðkirkjunnar hefur í ræðu og riti mikið og vel verið fjallað um hvernig samfélagið þurfi að hefja til vegs og virðingar hugsanahátt velferðar og samhjálpar í stað gróða og samkeppni. Nægir að benda á fjölmarga pistla og prédikanir sem birst hafa á trú.is og samþykkt nýliðinnar prestastefnu um velferðarmál og íslenskt samfélag. Ekki veitir af að brýna stjórnvöld og okkur sjálf í þessum efnum.
En eitt er það málefni sem á heima í umræðunni um ný gildi og betri siði en sést þó ekki í málflutningi kirkjunnar. Umhverfismálin – eða hin grænu gildi. Á heimasíðu þjóðkirkjunnar vottar ekki fyrir því að kirkjunnar fólk sé yfirhöfuð meðvitað um að jörðin okkar gengur ekki síður í gegnum kreppu en efnahagslífið. Og að sú kreppa hefur víðtækari, langvinnari og alvarlegri áhrif á lífið á jörðinni en fjármála- og bankakreppa dagsins í dag.
Ekki báru umhverfismálin heldur á góma á prestastefnu í ágætum prédikunum, stefnuræðum eða ályktunum, sem lesa má á vef stefnunnar. Hverju sætir þetta? Vissulega eru þau mál sem þar voru til umfjöllunar ekki ómikilvæg – en algjör þögn um umhverfið og ábyrgð okkar er umhugsunarverð. Og sorgleg.
Getur verið að fjarvera umhverfismálanna á kirkjulegum vettvangi segi okkur eitthvað um þá guðfræði og þá kirkjusýn sem þjóðkirkjan nærir við brjóst sér – að ábyrgð okkar nái ekki til lifnaðarhátta sem styðja við sjálfbæra þróun og náttúruvernd? Getur verið þetta eigi að hringja bjöllum um að grænni guðfræði, sem sér manneskjuna sem hluta af heildar sköpunarverkinu en ekki ofar því og utan við það, beri meira svigrúm í þjóðkirkju Nýja Íslands?
Eftir rúman mánuð byrjar það tímabil í kirkjuárinu sem er kennt við þrenningarhátíð. Litur þess er grænn eins og sjá má á skrúða prestanna í helgihaldinu. Þessi græni litur vísar til vaxtar guðsríkisins hið innra og hið ytra með manneskjunni en er vitaskuld sóttur í náttúruna sem vex og dafnar á þessum tíma allt í kringum okkur. Og nú er lag að kirkjan taki alvarlega að guðsríkið er ekki bara innri veruleiki heldur holdgerist og birtist í náttúrunni sem okkur er gefin til að lifa í og lifa með. Ábyrgð okkar nær til umhverfisins og náungans og slíkur er boðskapur kristinnar trúar.
Guð, allur heimur, eins í lágu' og háu, er opin bók, um þig er fræðir mig, já, hvert eitt blað á blómi jarðar smáu er blað, sem margt er skrifað á um þig. (Sálmur 22, Valdimar Briem)
Gerum græna kirkju sýnilega!