[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur. Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.Jóh 16.5-15
Um daginn fórum við sonur minn að sjá Jesus Christ Superstar, þá nærri fjörtíu ára gömlu rokkóperu sem sýnd er um þessar mundir í Borgarleikhúsinu. Kraftmikil tónlist Andrew Lloyd Webber ber sýninguna uppi, hljómsveitin er frábær og flestir söngvaranna fara mjög vel með sitt. En sami ágalli er á þessari sýningu eins og hverri uppfærslu sem er handriti Tim Rice trú: Það vantar í hana vonina. Lokaatriðið hér er reyndar ekki áhrifamikil krossfestingin – eins og í flestum uppfærslum – heldur söngatriði sem sýnir hópinn sem í flugvél þar sem Júdas er flugstjórinn. Ef því hefur verið ætlað að glæða von í brjóstum áhorfenda tókst það ekki í mínu tilviki. Minn flugstjóri er ekki Júdas, heldur hinn krossfesti og upprisni Kristur sem lýðurinn í rokkóperunni gefur nafnið Jesús súpergoð upp á íslensku. Og förinn er ekki heitið eitthvað út í óvissuna heldur beina leið til himins, inn í hinn eina sanna Hósanna-söng.
Með okkur mæðginunum í leikhúsinu var rússnesk stúlka, nýkomin til landsins, sem skildi ekkert í hinum sungna texta. En um leið og ný persóna birtist á sviðinu vildi hún vita hver viðkomandi væri og þá lá söguþráðurinn auðvitað opinn fyrir henni eins og öllum sem eitthvað hafa heyrt af frægustu bók í heimi, Biblíunni. Það er hins vegar umhugsunarvert, nú sem fyrr, hvers vegna endursagnir heimsins rúma ekki hinn upprisna Krist, fögnuðinn og vonina, aðeins þjáninguna og svikin. En eins og fyrr er spurningin áleitin, krefur hlustandann svara (með orðum Annasar í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar): Hvað á að gera við Jesú frá Nasaret, hampa´ honum, trúa´ eða setja´ á hann múl?
Áðan heyrðum við lesið úr spádómsbók Esekíel um hið nýja hjarta og hinn nýja anda sem Guð mun gefa okkur: Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi. Ég mun leggja ykkur anda minn í brjóst svo að þið farið að boðum mínum... (Esk 36.26-28). Það er svo margt í henni veröld sem sýnir steinhjörtu mannanna. Júdasar, Kaifasar, Pílatusar og Heródesar eru á hverju strái. Og lýðurinn sem vill eitt í dag og annað á morgun birtist líka á svo margan hátt.
Hið steingerða hjarta sem um ræðir í spámanninum er tilvist sem er lokuð og læst fyrir Guði. Vilji mannsins velur sig burt frá skapara sínum. Hjartað af holdi lýsir hins vegar tilveru sem slær í takt við Guð, lífi í ást og trú og von. Við getum tekið líkingu af hinu líkamlega. Starfsemi hjartans getur truflast á svo margan hátt. Það geta komið stíflur, drep og tappar. Á sama hátt getur tilfinningalífið stíflast við áföll ýmis konar. Við þróum stundum með okkur beiskju og birturleika sem eitrar líf okkar. Það myndast drep í sálinni.
Hver getur læknað kramið hjarta? Hver getur límt saman brotna sál? var sungið um árið (Valgeir Guðjónsson á plötunni Ég held ég gangi heim) og svarið við því er augljóst hér í samhengi helgidómsins. Það getur Guð. Það er Guð sem gefur hjarta af holdi í stað hins steingerða. Það er Guð sem getur endurnýjað allt í lífi okkar, bæði til anda, sálar og líkama. Manneskjan er ein heild. Það sem hindrar okkur líkamlega hefur áhrif á tilfinningalega líðan okkar. Og sálarkvalir geta orsakað líkamlega sjúkdóma. Inn í þessa staðreynd mannlegs lífs kemur andi Guðs, losar um stíflur, leyfir flæði, gerir nýtt úr gömlu.
Mikilvægust er þó hin andlega umbreyting. Fullkomið heilbrigði á sál og líkama er ekki forsenda hennar. Við erum í stöðu þiggjanda, komum eins og við erum með allar okkar stíflur og steina og fáum nýjan grundvöll lagðan. Og öll þurfum við á því að halda. Mér er minnistæður drengur í fermingarhóp í kirkju hér í bæ fyrir svona sautján, átján árum. Hann valdi sér þetta vers úr Esekíel. Einnig hann, drengurinn á fjórtánda ári þá, skynjaði þörf sína fyrir nýtt hjarta, nýjan anda úr hendi Guðs. Og það að þiggja er ekki óvirk staða, passív, svo við slettum aðeins. Nei, þiggjandinn þarf að rétta fram hendur sínar, taka á móti gjöfinni og gera hana virka í lífi sínu. Þiggjum anda Guðs inn í líf okkar. Leyfum honum að brjótast í gegn um þykkildi lífsins, tappana og torfærurnar innra með okkur, eins og læk á vori sem ryður sér braut niður fjallshlíðina, mórauður af mold og jarðvegi, en iðandi kátur á leið sinni til hafs.
Við söfnum í dag áfram til Hjálparstarfs kirkjunnar.
Ástandið í Darfúrhéraði í vestur Súdan er mjög slæmt, en þar búa um 6 milljónir manna. Talið er að um 2,5 milljónir manna búi í flóttamannabúðum, konur og börn um 75%. Óeirðir hafa staðið yfir í landinu í 50 ár og á síðustu 5 árum hafa um 250 þúsund manns týnt lífi.
Ófriðurinn sem nú geisar í Darfúr byrjaði í febrúar 2003 og á m.a. rætur að rekja til mismunandi þjóðflokka og hagsmuna þeirra, þar með talið aðgang að vatni.
Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að Alþjóða neyðarhjálp kirkna (ACT) sem í samstarfi við Caritas (Alþjóða neyðarhjálp kaþólsku kirkjunnar) stendur fyrir eitt af stærstu neyðarverkefnum sem unnin eru í Darfúr. Með því að taka þátt í Darfúrsöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar styðjum við þetta mikilvæga verkefni og tryggjum áframhaldandi hjálparstarf í Darfúr. Hægt er að taka þátt á þrjá vegu: greiða heimsendan gíróseðil, hringja í söfnunarsímann 907 2002 eða leggja inn á reikninginn 1150-26-886 kt. 450670-0499.
350.000 einstaklingar fá daglega hjálp í gegnum neyðarverkefnið. Reynt er að gera lífið í flóttamannabúðunum bærilegra, fjölskyldur fá húsaskjól og neyðarpakka með ýmsu af því allra nauðsynlegasta, skólastarf er í gangi fyrir börnin og reynt að tryggja aðgang að hreinu vatni. Einnig er unnið að sáttum og reynt að koma á viðræðum á milli hinna ýmsu samfélagshópa og flokka. Upphæðin á heimsendum gíróseðli er 2.400 krónur sem dugar t.d. fyrir neyðarpakka fyrir 5 manna fjölskyldu eða plóg og mataráhöld fyrir eina fjölskyldu.
Upplýsingar fengnar úr Darfúrblaði Hjálparstarfs kirkjunnar og af heimasíðunni www.help.is.
Og svo langar mig að segja ykkur frá bænagöngu sem gengin verður víða um land á sumardaginn fyrsta í fimmta sinn. Þetta er sameiginlegt framtak gönguhópa nokkurra kristinna safnaða með útvarpsstöðina Lindina í fararbroddi. Hér í miðbænum verður gengið frá Stjórnarráðinu kl. 9 og tekur gangan um eina klukkustund. Sérstaklega er beðið fyrir Alþingi, dóms- kirkju- og borgarmálum. Reykjavíkurborg er römmuð inn af ellefu gönguleggjum og líka er gengið um önnur bæjarfélög á höfuðborgarsvæðinu og úti um land á einum ellefu stöðum. Nánari upplýsingar er að finna á www.lindin.is og hvet ég ykkur sem eigið heimangengt til að mæta við Stjórnarráðið á fimmtudagsmorguninn kl. 9 eða annars staðar sem betur hentar.
Í gær var ég þátttakandi á kyrrðardegi í Neskirkju. Leiðbeinandi var faðir William Meninger frá klaustri heilags Benedikts í Colorado í Bandaríkjunum. Faðir William hefur þróað einfalda bænaaðferð sem er byggð á miðaldaritinu “The Cloud of Unknowing”. Þessi aðferð sem hefur verið nefnd Centering Prayer og útlögð á íslensku Bæn hjartans, byggir á einbeittri bæn og íhugun í þögn. Hún hefur að einkunnarorðum vers úr 46. sálmi Davíðs: Verið kyrr og viðurkennið að ég er Guð. Öll höfum við hæfileika til að hrífast að sköpunarverki Guðs, hlátri barnsins, léttum strokum vinds á kinn, fegurð fjallanna, stórvirki norðurljósanna. Við þurfum ekki að greina þessi undur á vísindalegan hátt til þess að geta notið þeirra. Sama gildir um höfund lífsins. Við getum verið frammi fyrir Guði í orðlausri bæn, virt tign hans fyrir okkur, verið eitt með elsku hans – án orða.
Í guðspjalli dagsins segir Jesús: Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann (Jóh 16). Orð Jesú eru okkur oft á tíðum leyndardómur. Andi Guðs lýkur upp þeim leyndardómi innra með okkur þegar skilninginn þverr. Í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku, segir sálmaskáldið (Sálm 51.8). Búum okkur undir komu heilags anda. Leyfum hinni orðlausu ást að umlykja okkur. Þiggjum nýtt hjarta, nýjan anda og syngjum lifandi Drottni okkar Hósanna – í trú á Jesú frá Nasaret.
Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. 13Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér. 14Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda.
Sálm 51.12-14