Spegillinn í jötunni

Spegillinn í jötunni

En þegar litið var niður í jötuna þá var ekkert undurfrítt Jesúbarn að sjá. Þess í stað sáu menn sitt eigið andlit. Í stað barnsins lá nefnilega spegill í jötunni. Hvað átti nú þetta að þýða?
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
25. desember 2010
Flokkar

Guð gefi þér gleðileg jól.

Enn á ný fáum við að ganga inn í helgi og hátíð helgrar jólanætur. Ungar raddir kórsins hennar Þorgerðar Ingólfsdóttur hafa fyllt helgidóminn yndisleika og fegurð og borið englasöng og helga hljóma til okkar. Mikið er ég þakklátur ykkur fyrir það sem þið gefið af ykkur til að auðga og dýpka þessa helgu hátíð. Þakka ykkur fyrir það, kæru vinir, Guð launi það og blessi ykkur og allt sem að ykkur stendur og ykkur fylgir. Gleðileg jól!

Í kirkju einni í Þýskalandi var fyrir nokkrum árum sett upp nýstárleg jólajata. Kannski ekki svo nýstárleg við fyrstu sýn, þarna var allt sem slíka jötu skal prýða, hirðar og kindur, uxi og asni, vitringar og engill, og auðvitað Jósef og María við jötuna. En þegar litið var niður í jötuna þá var ekkert undurfrítt Jesúbarn að sjá. Þess í stað sáu menn sitt eigið andlit. Í stað barnsins lá nefnilega spegill í jötunni. Hvað átti nú þetta að þýða? Margir hneyksluðust á þessu uppátæki, hvað prestarnir láta sér detta í hug á þessum síðustu verstu tímum, engin takmörk fyrir vitleysunni í þeim!

Nei, kannski ekki, en það sem menn vildu með þessu var að benda á einn mikilvægasta leyndardóm jólaguðspjallsins. Það er ekki bara upprifjun sögu sem „einu sinni var“. Því jólaguðspjallið kemur þér við, einmitt þér og mér einmitt þar sem við erum stödd. Jólaguðspjallið er ófullgert sem fögnuður, gleðifrétt uns það snertir svo við hjarta þínu að Jesús verður raunveruleiki einmitt þar, í lífi þínu, í hjarta þínu. Þar vill hann fá að fæðast nú.

Marteinn Lúter sagði: „Þótt Jesús hefði fæðst 1000 sinnum í Betlehem gagnar það mér ekki ef hann fæðist ekki í hjarta mínu.“

Spegillinn í jötunni minnir okkur á þetta. Við höldum jól af því að Jesús er hér og nú og vill fæðast í hjarta þínu og mínu. Hann vill mótast í okkur og móta okkur til sinnar myndar, að við verðum eins og hann: Sannar manneskjur.

Sannar manneskjur.

Hin kristna játning segir að Jesús hafi verið í senn sannur Guð og sannur maður. Í honum sjáum við hvernig Guð er. En líka hvernig manninum er ætlað að vera. Barnið í jötunni, bandinginn á krossinum, mildi, fegurð, miskunnsemi, fyrirgefning, kærleikur, læknirinn og lausnarinn sem nam staðar hjá hinum þjáða og fjötraða, meistarinn sem mælti hin undursamlegu viskuorð. Svona er Guð, svona eigum við að lifa og breyta, á hann eigum við að vona.

„Ég er ekki trúaður,“ segja sumir, og á stundum af töluverðri kokhreysti. „Ég trúi ekki á Guð, Guði sé lof!“sagði einhver og játaði þar, viljandi, eða óviljandi þverstæðu sem margur lifir. Sumum er umfram allt í mun að skapa fjarlægð milli sín og kennisetninga guðfræði og trúar.

Margur lýsir andúð sinni á kirkju og kenningum hennar og atferli. Iðulega eru því miður eðlilegar ástæður fyrir því. Stundum bregðast jafnvel þau krosstré sem áttu að halda og standast í brotnum heimi. Ýmsum hefur fundist það um kirkjuna og prestana og biskupinn. Það er mikið harmsefni. Oft er kirkjunni hallmælt, en engan hef ég heyrt hallmæla boðskap Jesú. Einatt er það sem kirkjunni og okkur, þjónum hennar er lagt til lasts einmitt að við stöndumst ekki þann mælikvarða sem Jesús setur fram.

Mörgum verður tíðrætt um háskann sem af trúnni stafar í heiminum, og þá er gjarna vísað til trúaröfga og þröngsýni. Ekki vil ég gera lítið úr því. Það ætti að vera augljóst að maðurinn má vara sig á sjálfum sér. Hann getur afskræmt fegurstu kenndir sínar og snúið þeim gegn sjálfum sér og öðrum. Hann getur umhverft helgustu skynjun, sínum göfugustu hvötum, bestu áformum í viðbjóð. Um það má ótal dæmi finna. Aldrei er hatur til dæmis grimmara en þegar það er umsnúin ást. Það á eins við um trúna.

Valdbeiting og hroki klæðist oft kápu trúarinnar. Það er mikil viska í hinni fornu kristnu kenningu að óvinurinn sé fallinn engill. Einmitt þess vegna er hann svo skelfilegur. Enginn grimmdarverk eru djöfullegri en þau sem unnin eru í nafni göfugs málstaðar, eða Guðs. En það er fleira að varast. Vart getur það til dæmis dulist sjáandi fólki nútímans að hin miklu undur vísinda og tækni eru æði viðsjált skilningstré góðs og ills sem auðveldlega geta umbreytt heiminum okkar í hel.

Öll þurfum við að temja okkur heilbrigðan efa og rækta heilbrigða trú.

Ekki þrá allir að finna Guð eða eignast trú, en ég hygg að flestir þrái innst inni að vera betri manneskjur, að reynast betri maki, foreldri, umhyggjusamari nágranni, samferðarmaður, tillitssamari, heilli vinur, vandaðri samfélagsþegn. Það merkir ekki að menn finni endilega til syndar og sektar, heldur að allt er ekki eins og ætti að vera. Sú meðvitund er heilbrigð, góð og sönn að vilja vera betri manneskja.

Jesús sýnir okkur hinn sanna Guð, og hinn sanna mann. Guð fær andlit sem ungbarns í Betlehem. En hann birtir líka manninn eins og honum er ætlað að vera, sannan mann.

Þegar þú heyrir eða lest söguna af Jesú finnst þér þá ekki að þú þekkir eitthvað aftur það sem þú innst inni veist og þekkir, eða hefur hugboð eða draum um, sem satt, fagurt, heilt og gott?

Ef til vill var það hugboð eða sá draumur skýrari þegar þú varst barn, en hann býr þarna enn í barmi þínum. Og þegar þú sérð Jesú, ekki aðeins yndislegt jólabarnið, heldur fullorðinn manninn og það sem hann var og vann öðrum til hjálpar og heilla og þú hugleiðir orðin hans og sögurnar hans, finnst þér þá ekki sem þetta sé einmitt svona sem maður á að vera, svona eigum við að breyta, þetta er hið rétta, sanna, heilbrigða líf, viðmót og afstaða til náungans, lífsins, Guðs?

Jólin eru eins og spegill og spurn: Hver ertu? Hvar er Guð í lífi þínu? Guð gerðist bróðir minn og þinn og er okkur hjá, nær þér en hugur þinn. Hann vill gera þig að þeim manni, þeirri konu, þeirri manneskju sem þér er ætlað að vera. Og vill vera þér hjá. Einu sinni voru menn að ræða hin hinstu rök. Gamall prestur hlustaði á og spurði svo upp úr eins manns hljóði: Hvar býr Guð? Og menn litu undrandi og hneykslaðir á hann: Hvernig spyrðu, maður? Aðvitað er Guð alls staðar, þú ættir nú að vita það! En gamli maðurinn sagði eins og við sjálfan sig: „Guð býr þar sem honum er boðið inn.“

Látum nú Helga jólanótt og heilaga jólahátíð vera heimboð til hans! Bjóðum honum inn, eins og við sungum í sálminum áðan: „Seg þú:„Hann skal hafa æ hjá mér bústað sinn, vinur velkominn.“

Leyfum ljósi hans, orði og andi að leiða og blessa okkur.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda.Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen