Staða kirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu er mörgum óljós. Um það vitna yfirborðskenndar umræður um kirkjuna og spurningin sem endurtekin er í síbylju: Viltu aðskilnað ríkis og kirkju? Þegar nær er skoðað, þá er kirkjan sjálfstætt trúfélag að lögum, en með samninga við ríkið á ýmsum sviðum eins og gildir um fjölmörg frjáls félög. Spurningin um aðskilnað ríkis og kirkju er því tímaskekkja og gefur villandi skilaboð.
Aðskilnaður
Aðskilnaðarferlið hófst fyrir alvöru með lagasetningu um sóknargjöldin og stofnun Jöfnunarsjóðs kirkjunnar árið 1988. Þar var grunnur að fjárhagslegu sjálfstæði kirkjunnar staðfestur. Síðan voru skrefin stigin í áföngum m.a. með yfirtöku kirkjunnar á stjórn og skipan innri mála þar sem kirkjuþing er æðsta valdastofnun, samningnum um kirkjujarðirnar árið 1997 sem stendur undir launum presta og yfirstjórnar á Biskupsstofu. Þá var einnig staðfest að ríkið sjái um innheimtu sóknargjalda fyrir söfnuðina. Samkomulag varð um stöðu prestsetranna árið 2007, og að biskup skipi presta í embætti, en ekki ráðherra sem er áþreifanleg staðfesting á sjálfstæði kirkjunnar frá ríkisvaldinu. Á kirkjuþingi sagði Björn Bjarnason, þáverandi kirkjumálaráðherra, að einasta sem enn stæði eftir væri að ráðherrann gæfi út reglugerð vegna aukaverka presta. Hann vakti einnig máls á því hvort ekki ætti að leggja kirkjumálaráðuneytið niður af því að kirkjan hefði tekið yfir verkefni þess, en færa málefni kirkjunnar undir forsætisráðuneytið þar sem hún stæði sjálfstæð eins og gilti um Alþingi, forsetaembættið og þjóðgarðinn á Þingvöllum.
Þrátt fyrir aðskilnað ríkis og kirkju, þá er með þeim náið samstarf. Sambúð kirkju og þjóðar er samofin þar sem kristinn siður er kjölfestan í þjóðlífinu. Vandlifað er án þess að kirkjan komi við sögu í persónulegu lífi auk umsýslu hennar á dýrmætum menningarverðmætum. Um það fjallar ákvæðið í 62. gr. stjórnarskrárinnar fyrst og fremst þar sem kveðið er á um vernd og stuðning ríkisvaldsins við kirkjuna.
Söguleg tímamót
Það eru söguleg tímamót sem nú standa yfir í kirkjunni. Oft tekur langan tíma að laga sig að breyttum aðstæðum og nýjum veruÍeika. Góð samstaða hefur verið um aðskilnaðarferlið með fólki í forystu sem tók málstaðinn fram yfir upphafningu á vinsældatorgum. Sú saga verður án efa síðar skráð. Hér ber þó að þakka fyrir þrotlaust starf um langa tíð við úrlausn flókinna mála sem leiddi að lyktum til sjálfstæðrar kirkju.
Sóknarfæri
Starfið í kirkjunni hefur verið í örum vexti síðustu ár þar sem margir leggja mikið að mörkum mannlífi til heilla. Leiða má rök að því, að sjálfstæði kirkjunnar frá ríkisvaldinu hafi einmitt reynst aflvaki fyrir blómlegt starf í söfnuðum landsins, en gerir meiri kröfur um ábyrgð og vandvirkni. Hér er sóknarfæri þar sem framsækin og trúföst kirkja lætur til sín taka. Mikilvægt er að Þjóðkirkjan geti áfram gegnt hlutverki sínu, að standa vörð um kristin gildi, vera samastaður í blíðu og stríðu og veita öllum landsmönnum trausta þjónustu. Því ræður fólkið með aðild sinni að Þjóðkirkjunni og þátttöku í kirkjulegu starfi, en ekki ofmetin ríkisvernd.