“Ég er vegurinn...” segir Jesús í guðspjalli dagsins. Það merkir ekki, að Jesús hafi verið ráðinn til Vegagerðarinnar eða Samgönguráðuneytisins. Jesús segir líka, að hann sé sannleikurinn og það táknar ekki að hann sé í vinnu við ímyndagerð hjá auglýsingafyrirtæki. “Ég er .... lífið,” segir hann ennfremur og það líf, sem Jesús vísar til, er ekki gylliboð um meðferð, hrukkueyðingu, klónun eða sjálfsmyndarstrekkingu. Vegurinn, sannleikurinn og lífið – varða svo sannarlega alla og öll trúarbrögð. Á öllum meginvegum heimsins er þungaumferð stríðandi lífsskoðana. Flestir ökumenn á þeim leiðum telja sig flytja sannleikann, það sem skiptir líf fólks og heims máli.
Trúarlegt tómarúm? Fyrir nokkrum dögum lenti ég í umræðu við ungan mann um trúarmótun og gildi trúar. Hann sagði: “Ég held það væri best, að fólk fæddist inn í trúarlegt tómarúm og veldi trú sína þegar það er búið að ná þroska og ákveða þá hvað það gerir við líf sitt og hvernig það hegðar sér í samskiptum við annað fólk.”
Við fórum svo að ræða hvort svona hlutlaus upphafstilvera sé möguleg. Getur maður lifað í mörg ár sem ómótaður strípalingur í kjörbúð lífsins, valið svo á þroskaaldri af gildaborðum lífsins, það sem mann langar til að verði og búið til eigin stefnu? Er til eitthvert gildanúll til, sem maðurinn getur byrjað í? Ég held ekki og sagði honum það.
Tilvera – vera til merkingar Íhugum hvernig manneskjan verður til. Við fæðumst nakin í þessa veröld, fáum klæði, skjól og næringu. En við verðum ekki menn þar með. Flest njótum í bernsku elsku og athygli. Það er gott en ekki nóg. En til þess að öðlast mennsku þurfum við orð, fyrirmyndir um lífshætti og atferli, kennslu í hvað er gilt og hvað ekki, hugmyndir um hvað er öruggt og hvað ekki, fræðslu um gerð heimsins, ljóð og sögur. Við þörfnumst áreitis fyrir ímyndunaraflið, listaverka til að veita dýpt, tilfinningu fyrir merkingu og merkingarvíddum tákna o.s.frv. Við þurfum allt þetta sem hjálpar okkur við að lifa. Við verðum aldrei menn nema við fáum andleg skjólklæði. Og hver eru þau og hvar er hægt að fá þau? Þau skjólklæði eru nefnd einu nafni – menning – og menning er flókinn vefur inntaks og merkingar.
Er hægt að bíða? Menningarmannfræðin, ekki síst Clifford Geertz, hefur ágætlega sýnt hve vefur merkingar er mannabörnum mikilvægur. Ég spurði því viðmælanda minn um hvort það væri ekki ásættanlegt að bíða með tungumálanám þar til maður væri orðinn nógu stór til að velja hvort maður vildi læra kínversku, rússnesku, ensku eða íslensku sem aðalmál. Nei, það taldi hann ekki mögulegt og skildi vel spurninguna - gerði sér grein fyrir að það er hentugast og best að eiga sér móðurmál, jafnvel íslenskuna, sem svo fáir tala í veröldinni.
Hann vissi líka vel, að forsenda þess að maður geti lært önnur tungumál er einmitt sú, að maður hafi lært móðurmálið sitt vel. Það hefur sem sé komið í ljós, að góður móðurmálsþroski er forsenda góðrar hæfni til tungumálanáms. Í þessu höfum við höfum mikilvæga leiðsögn í afstöðu til menningarmála en líka til trúmála.
Reynsla innflytjenda Margir innflytjendur koma til Íslands þessi misseri og margir reyna að styðja þessa nýju Íslendinga til náms og aðlögunar. Skólastjóri norður í landi sagði mér nú í vikunni, að rannsóknir sýndu og það blasti líka við skólafólkinu, að það væri aðalatriðið og skipti börnin og velferð þeirra afar miklu máli á hvaða aldri þau væru þegar þau kæmu til Íslands. Ef þau kæmu mjög ung, þegar þau hefðu ekki náð almennilegu valdi á móðurmálinu á heimaslóð, næðu þau mun síður almennilegum tökum á íslenskunni og náminu þar með. Þau börn, sem hefðu verið búin að taka út barnaþroskann í gamla heimalandinu, væru ótrúlegt nokk, miklu betur í stakk búin, væru fljót að færa yfir í nýtt mál og nýjar námsaðstæður, það sem þau hefðu lært í gamla landinu. Sem sé, best að veita grunn, kenna færni, gefa mál, ná að læra á vef menningar til að geta haldið út fyrir og lært eitthvað nýtt. Þetta er reynsla nýbúana, er í samræmi við það, sem mannfræðingarnir hafa sýnt og rímar líka við reynslu úr prestsstarfinu.
Trúna strax Hvað þá með trúna? Er ekki bara best að bíða með að ákveða hvaða trú maður vill þar til maður er orðinn nægilega þroskaður, mótaður og upplýstur til að velja? Reyndar held ég, að allir eigi að halda áfram að þroskast alla ævi og breytast þar með. Svo lengi, sem við lifum, eigum við að endurskoða forsendur og fordóma reglulega og halda áfram að velja úr kostum. Maður á stöðugt að stælast í glímunni við gildin og breyta um skoðun ef ný atriði blasa við og þora að snúa við blaði og breytast – líka þó maður sé kominn á níræðisaldur! Þá verður lífið svo miklu skemmtilegra og stöðugra nýjunga og endurnýjunar að vænta.
En er hægt að bíða með trúna? Nei, ekki frekar en með gildin og málið. Ef enginn verður til án máltöku, gildatöku og trútöku verður enginn mennskur heldur án einhvers konar trúar. Hlutleysi varðandi þau mál er ekki til. En hins vegar geta foreldrar ungbarna verið áhugalitlir um afstöðu sína og gildi og innblásið börnum sínum skeytingarleysi í brjóst varðandi mál, gildi og trú – og það er líka afstaða.
Jesús veruleiki Guðs Jesús sagðist vera vegurinn, sannleikurinn og lífið. Öll trúarbrögð segjast vera með sínum hætti og orðum vegurinn, sannleikurinn og lífið. Hvernig eigum við að taka orð Jesú? Var hann að hafna öðrum trúarbrögðum? Hvernig eigum við að skilja orð hans? Það er ljóst, að Jesús talaði ekki eins og heimspekifyrirlesari. Orð hans voru ekki frumspekikenning, heldur hvatning til að tengjast Guði og lifa lífi trúar. Hann sagði, að orð hans, líf og veruleiki væri beintenging við Guð. Það, sem kristnir menn kalla trú, er afstaða til Jesú í þeim anda. Kristinn maður er einfaldlega maður Jesú, trúir að veruleiki Jesú sé sannur og birti Guð í veröldinni, trúir að samfylgd með honum sé til góðs fyrir bæði eigin velferð og samfélag manna og að sú ferð sé eftir lífsvegi inn í veröld gæskunnar, bæði í tíma og eilífð.
Sannleikur Jesú – birting Guðs En hvað þá með trúarbrögðin? Jesús var maður jákvæðni en ekki andúðar eða útilokunnar. Að hann segði, að hann væri vegurinn, merkir ekki að hann hafi talið alla vegarspotta trúarbragðanna tilgangslausar vegleysur. Að hann hafi talið sig sannleika merkir ekki að aðrir siðir séu markleysur. Sannleikur Jesú er að hann opinberar Guð en útilokar ekki aðra og annað. Sem kristinn maður og kristinn prestur lít ég á svo á, að Jesús sé sá sannleikur, sem nægir mér um Guð. En ég er svo að auki áhugasamur um trúarbrögð, siðfræðikerfi og heimspekikerfi. Ég held ekki, að jóga skemmi fólk heldur geti eflt marga til lífs. Eins og búddistar geta margt lært af kristnum mönnum held ég, að kristnir menn geti margt lært af búddistum.
Hvað merkir þetta? Jú, að kristnir menn fylgja Jesú og viðurkenna alla hans tilveru, en útiloka ekki þar með viskuleit, lífsspeki, innsæi, siðakerfi og gildi átrúnaðar utan kristni. Kristinn maður, sem temur sér hógværð og auðmýkt Jesú Krists, lærir smátt og smátt að gera sér grein fyrir að eigin sjónarhóll er aðeins einn af ýmsum mögulegum og að eigin túlkun á kristnum sið er ekki heldur hinn eini mögulega.
Kennið Við þurfum að efla kristnifræðslu í samfélagi okkar og í anda víðsýni og auðmýktar. Við þurfum að miðla börnum okkar trú, kenna þeim að biðja, læra að treysta, skilja að mennskan er ekki fullveðja nema að við öxlum ábyrgð og hegðum okkur siðlega. En við þurfum jafnframt að kenna börnum okkar að þó Jesús sé vegurinn, sannleikurinn og lífið, eru fleiri vegir í átt til Guðsríkisins en sá sem við göngum - að til eru ýmsar útgáfur sannleikans og sannleiksbrot í mannlegri viðleitni til ábyrgðar og gæða. Við þurfum að læra að meta fjölbreytnina.
En er þetta ekki að verðfella kristnina? Nei þvert á móti. Jesús kenndi okkur að trúa og tengjast stórkostlegum Guði, sem er að baki allri tilverunni í öllum tilbrigðum og lífsvíddum. Kristinn maður, sem tekur mark á Jesú, temur sér að sjá Guð í öllu mannlegu atferli, temur sér að hlusta eftir rödd Guðs í röddum mannlífsins, temur sér að skynja Guð í öllum skynvíddum veraldar. Á vegum heimsins, í sannleiksbrotum og lífi er Jesús.
Amen
Prédikun flutt í Neskirkju, 29. apríl, 2007, 3. sunnudagur eftir páska, B textaröð. Sunnudagurinn Jubilate (Fagnið!) fær heiti af fyrsta orði inngöngusálms dagsins, sem eftir gamalli hefð er Sl. 66. 1-2. Fagnið fyrir Guði, gjörvalt jarðríki.
Lexían; Sl. 126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi. Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: „Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá.“ Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu. Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng. Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.
Pistillinn: 2. Kor. 4.14-18 Vér vitum, að hann, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja oss ásamt Jesú og leiða oss fram ásamt yður. Allt er þetta yðar vegna, til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar.
Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður. Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft. Guðspjallið: Jóh. 14. 1-11 Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér.
Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér.Tómas segir við hann: Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?
Jesús segir við hann: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.
Filippus segir við hann: Herra, sýn þú oss föðurinn. Það nægir oss.
Jesús svaraði: Ég hef verið með yður allan þennan tíma, og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: Sýn þú oss föðurinn? Trúir þú ekki, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Orðin, sem ég segi við yður, tala ég ekki af sjálfum mér. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. Trúið mér, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér gerið það ekki, trúið þá vegna sjálfra verkanna.