Sak 12.10 En Davíðs ætt og Jerúsalembúa læt ég fyllast anda samúðar og tilbeiðslu og þeir munu líta til mín vegna hans sem þeir lögðu í gegn og harma hann jafnsárlega og menn harma lát einkasonar og syrgja hann jafnbeisklega og menn syrgja frumgetinn son.
Andi samúðar og tilbeiðslu. Enskar biblíuþýðingar segja „spirit of grace and supplication.“ Hebreska orðið ruah sem við þýðum sem „andi“ merkir bókstaflega það, blástur eða andardráttur en í yfirfærðri merkingu lífið í brjóstinu og einnig líf Guðs, kraftur Guðs.
Andi Guðs í Gamltestamentinu Í Gamla testamentinu er oft vísað í anda Guðs. Guð blés lífsanda í nasir mannsins (1Mós 2.7) sem og alls sem lifir (Sálm 104.29-30). Guð sendir anda sinn í okkur svo að við lifnum við þegar við erum sem skinin og skrælnuð bein, andlega talað (Esk 37.5). Guð gefur eindrægt hjarta og leggur nýjan anda í brjóst fólksins síns (Esk 11.19) og hvetur okkur til að fá okkur nýtt hjarta og nýjan anda. Svipaða hugsun má lesa í Sálmi 51.12-13:
Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, Og veit mér nýjan, stöðugan anda. Varpa mér ekki burt frá augliti þínu Og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.
Hjá Jesaja spámanni heyrum við um anda af hæðum sem verður úthellt og verkar réttlæti og friði (Jes 32.15-18) og hvernig Guð hellir vatni yfir hið þyrsta land og anda sínum og blessun yfir börn þjóðar sinnar (Jes 44.3). Andi Guðs er allstaðar nálægur: „Hvert get ég farið frá anda þínum, hvert flúið frá augliti þínu?“ (Sálm 139.7) og Jóel spámaður sér fyrir sér að Guð úthelli anda sínum yfir alla menn með spádómum, draumum og vitrunum (Jóel 3.1-2).
Innsæi frá Guði Sumir fræðimenn lesa þarna hjá Sakaría tilvísun til þriðju persónu guðdómsins að kristnum skilningi, heilags anda, anda Guðs. Hér gæti þó hreinlega verið átt við þá sannfæringu sem Guð blæs fólki í brjóst, innblástur, innsæi, skilning á náð Guðs og löngun til að flytja hana áfram. Því hebreska orðið hen sem hér er þýtt með „samúðarandi“ (eldri þýðing sagði „líknarandi“) vísar í miskunn Guðs, náð Guðs. Rótskylt því er orðið tahanunim sem hér er þýtt með „tilbeiðsluandi“ en var áður „bænarandi“.
Ég var lengi að velta fyrir mér hvort hér væri átt við anda Guðs eða anda manneskjunnar. Mér sýnist að hvort tveggja sé um að ræða. Guðs andi er andi líknar, samúðar, miskunnar, óverðskuldaður velvilji í okkar garð. Til að við séum á réttum stað, andlega talað, til að taka á móti þeim velvilja gefur Guð okkur anda tilbeiðslu, bænaranda. Andi Guðs virkar inn í okkar anda, gerir okkur móttækileg fyrir ást sinni og umhyggju sem aftur hvetur okkur til að sýna öðrum slíkt hið sama. Versið sem hér um ræðir lýsir því andlegri endurlausn sem öllum stendur til boða, háum sem lágum (Davíðsætt er táknmynd valdhafa og Jerúsalemsbúar gætu verið hluti fyrir heild, fólkið allt).
Einkabarnið Sakaría 12.10 er einn af þeim fjölmörgu stöðum Gamla testamentisins sem vitnað er í í Nýja testamentinu – og reyndar ritið í heild sinni, einkum síðari hluti þess. Tengingar við aðra hluta hebresku biblíunnar eru einnig skýrar, til dæmis má sjá ákveðinn samhljóm við ljóðið um hinn líðandi þjón Drottins í Jesaja 52.13-53.12 hér.
Í Jóhannesarguðspjalli er vísað beint í þennan ritningarstað: „Þeir munu horfa til hans sem þeir lögðu í gegn“ (Jóh 19.37) en minna má á að það voru rómversku hermennirnir sem það gerðu (Jóh 19.34), ekki Gyðingarnir þó ábyrgðin á dauða Jesú hafi í gegn um aldirnar verið sett á þeirra herðar með hræðilegum afleiðingum eins og saga ofsókna á hendur Gyðingum sýnir.
Í Opinberunarbókinni er því lýst hvernig Jóhannes sér fyrir Jesú Krist koma í skýjum „og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeirra sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum“ (Op Jóh 1.7). Orð Jóhannesarritanna um einkason Guðs sem tekin voru upp í postullegu trúarjátninguna sem við förum með hvern sunnudag má líka skilja í þessu samhengi (Jóh 3.16, 1Jóh 4.9). Harmur yfir einkasyni er greinileg tilvísun í Abraham og Ísak (1Mós 22) og sama hebreska orð er notað um dóttur Jefta sem var einkabarn (Dóm 12.34). Sorgin yfir að svíkja Guð Hjá Jeremía (6.26) lesum við um slíkar aðstæður þar sem persónulega sorgin er yfirfærð á heildina, á þjóðina sem er ávörpuð sem dóttir Guðs:
Dóttir mín, þjóð mín, gyrtu þig hærusekk, veltu þér í ösku, efndu til sorgarathafnar eins og eftir einkason, syrgðu beisklega því að eyðandinn kemur yfir oss í einu vetfangi.
Við kristið fólk höfum frá upphafi leyft okkur að lesa þennan ritningarstað sem tilvísun í Jesú Krist. Það er eðlilegt í ljósi trúar okkar. Þó Gyðingar almennt viðurkenni ekki Jesú sem Krist, það er Messías, hafa gyðinglegir ritskýrendur þó gjarna lesið þennan stað sem vísun í Messías eða þá sem samsafnaða sekt fólksins sem ítrekað sveik Guð. Úr pólítíkinni könnumst við við hugtakið að fá rýting í bakið og er þar kannski svipuð hugsun á ferðinni („backstabbing“).
Bent hefur verið á að sá dagur eigi enn eftir að koma að þeir sem lögðu Jesú í gegn – hvar svo sem hin raunverulega ábyrgð liggur - harmi hann „jafnsárlega og menn harma lát einkasonar og syrgja hann jafnbeisklega og menn syrgja frumgetinn son.“ Það er mikil sorg sem þarna er lýst, sárara en orð fá lýst eins og þau vita sem reynt hafa. Viðskilnaður manneskjunnar við Guð getur verið viðlíka sár, ef marka má þessi orð Ritningarinnar. Svik við Guð, svik við kærleikann, samúðina og tilbeiðsluna, eru svik við lífið sjálft, lífið í brjósti okkar, Lífið sem er Guð.
Þetta erum við hvött til að hugleiða núna á föstunni. Bendum ekki á hina, Gyðinga eða rómverska hermenn eða hverja sem okkur þykir hafa lagt Guð í gegn, ef svo má segja. Skoðum okkur sjálf. Finnum til undan mistökunum okkar, grátum ef þess þarf, tökum við þeim anda samúðar og tilbeiðslu sem Guð vill gefa okkur. Og sjáum fyrir okkur með Sakaría spámanni hvernig „á þeim degi“ muni „opnast lind fyrir Davíðs ætt og Jerúsalembúa til að þvo burt syndir og óhreinleika“ (Sak 13.1). Lindin sú stendur opin, valdhöfum og valdalausum og allt þar á milli, þér og mér til eflingar og nýs upphafs. Við gætum jafnvel orðið farvegur fyrir slíka lind sem streymir fram til eilífs lífs (4.13) í anda samúðar og tilbeiðslu, andans sem Guð gefur.