Von í kreppu

Von í kreppu

Í kreppu hugarfars og brotins trausts kemur í ljós hvað kirkjan er. Hvernig bregst hún við tilfinningum og þörfum samfélagsins?
fullname - andlitsmynd Kristín Þórunn Tómasdóttir
16. september 2009
Flokkar

Ég þakka ávallt Guði fyrir ykkur öll er ég minnist ykkar í bænum mínum. Ég minnist stöðugt fyrir augliti Guðs vors og föður hve mikið þið starfið í trúnni, stríðið í kærleikanum og eruð staðföst í voninni á Drottin vorn Jesú Krist. Guð elskar ykkur, bræður. Ég veit að hann hefur útvalið ykkur. 1. Þess 1.2-4.

Samfélag verður til, þar sem hópur fólks deilir hlutum eins og reynslu, minningum, sjálfsmynd, sögum, landsvæði, tungumáli, gjaldmiðli. Samfélög geta upplifað gæðatíma og mótlæti, líkt og einstaklingar reyna bæði meðbyr og mögur ár í eigin lífi. Samfélög eiga sínar ögurstundir og gleðidaga – stundum sem síðan verða að þeim sögum sem móta sjálfsmynd og smíða minningar.

Nú líður að eins árs afmæli atburða sem líklega verða að teljast til ögurstunda íslensks samfélags. Bankahrunið, með sínum áþreifanlegu afleiðingum, varð í huga íslensks samfélags að veruleika þegar forsætisráðherrann sagði í beinni útsendingu: Guð blessi Ísland, og ekkert varð eins og áður.

Samt er efnahagskreppan sem fylgdi í kjölfarið og ekki verður séð fyrir endann á, ekki það versta sem læsti klóm sínum í þjóðarsálina.

Hvað gerðist í íslensku samfélagi við bankahrunið?

Nú, ári seinna, þegar við lítum um öxl og reynum að greina tilfinningamynstur og hegðunarferla í samfélaginu okkar, koma ýmis konar myndir í ljós. Ann Ulanov, sem er bandarískur guðfræðiprófessor og sálgreinir og var hér í heimsókn fyrir skömmu, talaði um að við atburði eins og þá sem urðu hér á landi haustið 2008, upplifi fólk sig svikið. Svikið um framtíð sem það hafi séð fyrir sér og undirbúið sig fyrir og svipt trausti til þeirra sem áttu að gæta réttlætis og ganga erinda borgaranna. Þessi reynsla vekur tilfinningar sem finna sér farveg innan samfélagsins, og það er afar mikilvægt að gefa þessari úrvinnslu á því sem gerst hefur, svigrúm.

Reiðin, sem er ein þeirra viðbragða sem kvikna í kjölfar þess að maður finnur sig svikinn, getur verið heilbrigð tilfinning og heppilegri en þau viðbrögð sem birtast í skeytingarleysi og dofa. Það er vegna þess að reiðin kallar á tilfinningar sem leiða til aðgerða – aðgerða sem geta verið upphafið að breytingum sem leiða til réttlátara samfélags. Skeytingarleysið og sinnuleysið virkar þvert á móti eins og að skrúfað sé fyrir súrefnið sem samfélagið andar að sér. Sinnulausu samfélagi er hreinlega alveg sama um sjálft sig – og það étur sjálft sig upp að innan. Það lifir ekki af því að það á ekki von.

Ritningartextinn sem við fáum að íhuga á þessum septemberdegi á því herrans ári 2009 er samfélagstexti, texti sem fjallar um samfélag þeirra sem elska Jesú. Samfélag sem við köllum líka kirkjuna. Í morguntextanum heyrum við hvað einkennir kirkjuna sem samfélag; trú, von og kærleikur. Þetta þrennt mótar sjálfsmynd kirkjunnar og er grundvöllur tilveru hennar.

Hvað kemur þá samfélag þeirra sem elska Jesú – kirkjan – samfélaginu almennt við? Svarið fer eftir því hvaða augum við lítum kirkjuna. Í kreppu hugarfars og brotins trausts kemur í ljós hvað kirkjan er. Hvernig hún bregst við tilfinningum og þörfum samfélagsins.

Við höfum heyrt nýlega af því hvernig kirkjan í Finnlandi rétti úr sér á erfiðum tímum þar í landi, og gekk inn í samfélagsaðstoð og kærleiksþjónustu. Slík þjónusta skilaði sér til samfélagsins í formi brauðs sem seður hungur og nærveru sem léttir sorg. En það mikilvægasta sem kirkjan getur gert í aðstæðum sem þessum, sögðu Finnarnir, er samt það að gefa fólki von.

Von í lífinu, til lífsins, um líf. Um framtíð, um kærleika, um trú. Um öryggi, um réttlæti, um gleði. Það er að segja, miðla þeirri von, sem kirkjan á, fyrir trúna á Jesú og kærleika Guðs, til samfélags sem er sinnulaust um sjálft sig og dofið á eigin líðan.

Í því liggur köllun kirkjunnar í kreppunni og til þess er hún útvalin.

Kirkjan er samfélag þeirra sem elska Jesú. Það eru þú og ég sem erum kölluð til að kveikja von í kreppu. Við gerum það fyrir trú og fyrir kærleika. Við gerum það vegna þess að Guð hefur elskað okkur. Við gerum það vegna þess að lífið er sterkara en dauðinn. Við gerum það vegna þess að lífið er þess virði að lifa því.