Aðfangadagskvöld 2010 – Heydalir og Stöðvarfjörður.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Amen, hin heilögu boð hafa sameinað væntingar okkar frá aðventunni. Amen er komið úr hebresku og þýðir: Megi það rætast. Nú hefur bænin ræst: Gleðileg jól gengin í garð með von um náð og frið. Og það bar til um þessar mundir að boð komu frá keisarnum um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Á þeim orðum hefst guðspjall jóla. Og enn berast boð um heimsbyggðina, ekki frá keisaranum, heldur frá Guði, ekki til að endurnýja manntalið, heldur til að fagna og gleðjast yfir fæðingu frelsarans, Jesú Krists. Jólahátíðin er því þakkargjörð og vitnisburður um að Guð er með í för og svarar bænum okkar, heilög hátíð, uppfylling bjartra vona sem birtast í náð og friði Guðs sem þráir að umvefja lífið.
Og nú er kyrrð og ró. Allt hefur tekið stakkaskiptum. Allt orðið heilagt eins og sagt var í gamla daga. Í myrkrum ljómar lífsins sól. Guði sé lof fyrir gleðileg jól. Mikið eiga jólin kærkomið erindi inn í íslenskt þjóðlíf með sinn kristna boðskap um fegurð og hlýju. Engin hátíð megnar að sameina þjóðina betur og rækta dýrmæt lífsgæði eins og jólin. Og skilaboðin eru einföld og skýr: Þú skalt elska. Nú rætist það frekar en í annan tíma. Bænin sem við berum hvert öðru um gleðileg jól felur í sér þessa einlægu von sem þorir að elska, svo náð og friður Guðs fái komist inn í hjarta mannsins.
Á fyrsta sunnudegi í aðventu tendruðu börnin fyrsta ljósið á aðventukransinum hér í kirkjunni. Það er kennt við spámanninn sem spáði fyrir um fæðingu frelsarans. Fyrirheitið rættist á jólanótt í Betlehem. Ekki virtist sá viðburður líklegur til stórræða í öndverðu. Umkomulaust fólk á ferðalagi samkvæmt boði keisarans og átti ekkert annað athvarf en í gripahúsi. “En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu”.
Hvernig gat slíkur atburður valdið, að á Íslandi væri fagnað rúmum 2000 árum síðar eins og raun ber vitni?
“En í sömu byggð voru fjárhirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði í kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, sjá ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn. Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu. Og hirðarnir sögðu sín á milli: Förum beint til Betlehem að sjá það sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss”.
Svo segir einnig í Biblíunni af vitringum frá Austurlöndum sem fóru langan leið, fylgdu stjörnu sem vísaði þeim veginn að jötunni og þeir gáfu barninu gjafir, gull, reykelsi og myrru.
Hið hversdagslega var að umbreytast í heimssögulegan viðburð með þátttöku engla, fjárhirða og vitringa sem brugðust við heilögu boði og söfnuðust að jötunni í Betlehem. Gripahúsið fylltist af fólki sem samfagnaði innilega. Náð og friður Guðs hafði náð eyrum manna. Gleðileg jól rættust við jötuna nóttina helgu í Betlehem.
Og enn rætast þessi boð og fara um heimsbyggðina: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn. Og enn er þráin sterk að bregðast við þessu heilaga boði. Fjölskyldan og ástvinir safnast saman eins og hirðarnir og vitringarnir. Það skiptir máli hvar þú ert á jólum. Margir fara langan veg og leggja mikið á sig til að geta verið með sínum nánustu á jólunum. Sr. Einar Sigurðsson, sálmaskáldið okkar, sagði í vöggukvæðinu sínu af stallinum Kristí: “vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér minn kæri”. Og hvað stendur hjarta nær en einmitt fjölskyldan og ástvinir sem verða eins og englar, sendiboðar Guðs, á jólanótt og boða hvert öðru gleðileg jól. “Vertu nú hér minni kæri”, Kristur Drottinn, í miðju sem sagði: Elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður.
Þjóðin þráir svo mikið frið, mildi, samstöðu. Ekki gagnvart ofbeldi eins og svo margar örsnauðar þjóðir líða fyrir á jörðinni, heldur þráir íslensk þjóð æðruleysi í sálina. Það virðist stundum eins og græðgisfárið með sundurlyndi og sjálfshyggju sé enn við völd. Hvar er auðmýktin, sanngirnin, virðingin, ábyrgðin? Mikið er leitað í alls konar tómhyggju og sumir hafa lagst í herför gegn Guði og kirkju samkvæmt fréttum fjölmiðla. En svo koma jólin og síst vill þjóðin án þeirra vera, heldur ekki fara á mis við þá fegurð og birtu sem fagnaðarerindið um fæðingu frelsarans boðar. Þá leita margir inn í hjarta sitt þar sem barnið hvílir í vöggunni, leita ekki langt yfir skammt og spyrja: Hvað fyllir hátíð á jólum gleði og fögnuði? Gjafirnar, góðgjörðir og ljósin öll? Allt skiptir það máli af því að tilefnið er verðugt. En um fram allt er það hin næma vitund um göfugt tilefni sem kallar á samfögnuð, hlýju, umhyggju.
Mér verður hugsað til traustrar vinkonu minnar sem greindist með dauðans mein á síðasta ári og skynjaði að hún ætti ekki marga lífdaga í vændum. En fyrir óútskýrða blessun náði hún bata og skrifar á facebóksíðuna sína á aðventu: “Að fá að fara með vinkonu minni í búð og kaupa jólakjólinn og með 14 ára syni mínum að kaupa jólaskyrtuna. Er það ekki bara venjulegt og sjálfsagt mál? Kannski finnst það sumum, en svo er alls ekki og sérstaklega í ljósi þess að síðustu jól reiknaði ég ekki með því að fara aftur í jólainnkaup.”. Svo bætir vinkona mín við og segir: Það er alveg hreint sérstök tilfinning að kunna að meta hvert einasta augnablik lífsins, fyllast fögnuði og þakklæti mörgum sinnum á dag”. Hér mælir kona af lífsins reynslu.
Og nú er augnablikið okkar, að fyllast fögnuði og þakklæti. Það eru heilög jól með öllum sínum ástríku tækifærum. Augnablikið er núna að íklæðast einlægum kærleika og breiða faðminn yfir ástvini sína með ljóma birtu og hlýju. Þá finnum við til þakklætis, friðar, mildi, samstöðu. Náð og friður Guðs hefur náð inn í hjartað þar sem barnið hvílir í vöggunni. Þá ómar svo fallega lofsöngur sálmaskáldsins frá Heydölum: “Friður á jörðu og fengin sátt, fagni því menn sem bæri”.
Minningar með gengum ástvinum leita þá á huga og hjarta og verða bjartar og fagrar. Sex ára sonarsonur minn sat við hlið mér á kirkjubekknum í útför langafa síns sem var honum mjög kær. Honum var starsýnt á kistuna og spurði mig svo með tárin í augunum: “Sé ég þá langafa aldrei aftur”? Ég svaraði eftir nokkra umhugsun: “Jú, það gerir þú. Þú sérð hann í huga þínum þegar þú talar við Guð um hve langafi var góður”. Þá færðist bros yfir andlit drengsins um leið og hann sagði: “Af því að langafi er hjá Guði”.
Við finnum svo vel til nálægðar með Guði og umhyggju hans fyrir lífinu á aðfangadagskvöldi og reynum hve samband okkar með ástvinum er mikils virði. Birta jólanna lýsir einnig upp minningar frá fyrri jólum, flestar fagnaðarríkar, sumar tregablandnar, en þær eru umvafnar heilögu ljósi sem nærir og græðir. Jólin kalla okkur til að að leita á æðri mið, horfa til himins og jarðar, og meta að verðleikum dýrmætt lífið og boða til samfundar um það sem okkur er kærast.
Guðspjall jóla segir frá því að “fjárhirðarnir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið sem lá í jötu”. Það gerum við og sláumst í fagnaðarför fjárhirða og vitringa sem “vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt”. Þá er náð og friður með þér í einlægri kveðju um gleðileg jól.