Heimboð

Heimboð

Það verður að viðurkennast að á Íslandi í dag virðist svo sem ekki séu allir jafn velkomnir að gæðum samfélagsins. Fátækt er dapurlega staðreynd sem við blasir á Íslandi. Á það erum við minnt sérstaklega í dag á Alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt.

Þá tók Jesús enn að segja þeim dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla boðsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En boðsgestirnir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu. Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir. Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum. Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“ Matt. 22. 1-14

Ég þakka móttökurnar hér í Fella og Hólakirkju, samskipti við presta kirkjunnar og að fá að eiga með ykkur þessa morgunstund og fund með sóknarnefndunum hér á eftir. Ég þakka vandaðan undirbúning, fagra tónlist og alla þá góðu krafta sem hér hafa verið lagðir að mörkum. Ég þakka í nafni kirkjunnar það góða starf sem hér er unnið í sókninni, Guði til dýrðar og börnum hans til blessunar.

Fella og Hólakirkjan er óvenju velbúinn helgidómur og hér má sannarlega líta mörg fögur listaverk sem fanga athygli manns. En eins og í sérhverjum kristnum helgidómi þá er eitt sem framar öðru vekur athygli þá gengið er inn, það er borðið, altarið, dúkað borð. Dúkað borð táknar hátíð, veislu, mannfagnað, samfélag. Það minnir á ákveðið borðhald, veislu, endur fyrir löngu, og ekki nóg með það, sem við verðum hluttakandi í því þegar Kristur sest til borðs með vinum sínum „nóttina sem hann svikinn var.“

Altarið minnir líka á veisluna og fögnuðinn sem Jesús lýsir í sögunni sem er guðspjall dagsins um brúðkaup konungssonarins, og fleiri sögum reyndar. Altarið minnir á að Guð býður okkur velkomin heim til sín. Fagnaðarerindi hans er heimboð, guðsþjónusta kirkjunnar, iðkun og atferli allt er að ítreka, tjá og lifa þetta heimboð. Og þangað eru allir velkomnir. Altari kirkjunnar ber boð frá Guði: „Þú ert velkominn!“

Altari kirkjunnar minnir okkur á að við sitjum öll við sama borð í Guðs ríki, smáir og stórir, ríkir og snauðir, svartir og hvítir. Og að slíku samfélagi beri okkur að vinna. Brauðið sem er brotið minnir á að brauðið á borðum okkar er til okkar komið vegna þess að jörðin gefur ávöxt sinn og ótal margt fólk um allan heim hefur lagt að mörkum atorku, iðjusemi, visku og útsjónarsemi, tækni og menntun. Við erum eitt, lífið er eitt. Okkur ber að virða lífið, gróður jarðar og iðju mannanna og vera fús að deila með öðrum af því sem við eigum.

Það verður að viðurkennast að á Íslandi í dag virðist svo sem ekki séu allir jafn velkomnir að gæðum samfélagsins. Fátækt er dapurlega staðreynd sem við blasir á Íslandi. Á það erum við minnt sérstaklega í dag á Alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt. Í því tilefni eru söfnuðir landsins sérstaklega hvattir til að minna fátækt og félagslega einangrun. Við erum hvött til að sýna samstöðu þeim sem eiga við fátækt að etja, sligast undir atvinnuleysi og skuldabyrðum og þeim sem eru að missa eigur sínar á uppboðum. Við erum hvött til að biðja fyrir þeim og sýna þeim samstöðu og hvetja stjórnvöld og fjármálastofnanir til að taka höndum saman um að leysa vanda þeirra. Almenningur hefur séð hagsmuni hinna stóru og digru tekna framyfir hagsmuni einstaklinga og heimila. Íslenskt samfélag er að skiptast í tapara og sigurvegara, gjáin þar í milli er að dýpka og það er alvarlegt ástand og verður að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að stöðva.

Dæmisagan um brúðkaupsveisluna sem konungurin bauð til vekur jafnvel fleiri spurningar en hún svarar. En einn lykill gengur að henni, eins og öllum dæmisögum Jesú. Þessi lykill er sögumaðurinn sjálfur, Jesús, líf hans og dauði. Þar sjáum við himnaríki og hvað það er, verk Guðs, áform og áhrifasvið, þar sjáum við hið fullkomna líf sem er honum hjá og þá ægilegu einsemd, tóm og myrkur sem er án Guðs.

Dæmisagan lýsir boði sem er hafnað, þeir sem boðnir eru vilja ekki þiggja. Annað hefur forgang hjá þeim. Jesús er að segja sögu sína, um jötuna og krossinn, Betlehem og Golgata. Hann kom til eignar sinnar, en þeir vildu ekki taka við honum. Þeir sem boðnir voru komu ekki, þjóð Guðs vildi ekki þiggja. En þá snýr Jesús sér út á götur og torg, leitar uppi vonda og góða, kallar á þá, býður þeim til borðs með sér og veislusalirnir fyllast af glaðværum gestum. Þetta er mynd sem kirkja Krists verður alltaf að hafa sér í huga og minni: Hún er að starfi ekki síst vegna þeirra sem þiggja ekki, þeirra sem utan standa og vilja ekki af vita. Ég vona og þykist reyndar vita að starf og þjónusta Fella og Hólakirkju beri því líka vitni.

En svo er þetta óskiljanlega og gjörsamlega óþolandi í sögunni. Það er þessi sem kom án þess að vera með, og mætir konunginum með fyrirlitningu og fýlu, svo hann lætur henda honum út í myrkrið af því að hann var ekki í brúðkaupsklæðum.

Sagt er að í samtíma Jesú hafi brúðkaupsgestir fengið hátíðaklæðum úthlutað við dyr veislusalarins. Guðspjall dagsins bendir á hroka þess sem þykist of góður til að fylgja fyrirmælum gestgjafans og er vísað úr veislunni. Utan þeirrar veislu er bara það sem ekki er veisla, ekki er birta, er ekki gleði, ekki líf, bara„grátur og gnístran tanna“ á máli dæmisögunnar. Hvað það er vitum við ekki, af því að við höfum svo afar takmarkaðar forsendur til að skilja eða skynja slíka tilveru. Enda eigum við ekki að hugsa um það, það er bakgrunnurinn, skuggarnir sem draga myndina björtu fram, bassahljómurinn sem lyftir upp fagnaðarómum gleðinnar fölskvalausu sem Guð vill að við fáum öll að njóta að eilífu. Skírnarkjóllinn táknar brúðkaupsklæðin, þá fyrirgefningu, kærleika, náð sem Drottinn gefur er hann leiðir okkur inn í ríkið sitt, veislusal gleðinnar. Það er óverðskulduð gjöf, af náð.

Þegar börnin eru borin til skírnar þá erum við að bera þeim heimboðið til gleðinnar, fela þau kærleikanum eilífa, segja og játa að við viljum að þau tilheyri þeim heimi þar sem kærleikurinn lýsir og ríkir. Þegar við komum saman í messu á sunnudegi, þá erum við að þiggja heimboðið og fagna í voninni. Við viljum ekki tilheyra hatrinu og myrkrinu, hrokanum, syndinni. Við viljum lifa og njóta kærleika og ástúðar, öryggis og friðar.

Engan hefur látið ósnortinn björgun námumannanna í Chile sem í tvo mánuði hírðust á 700 metra dýpi, lengi taldir af, en fyrir ótrúlegt kraftaverk barst lífsmark frá þeim og tókst að koma til þeirra hjálp og loks að bjarga þeim með svo giftusamlegum hætti. Mér finnst eins og við höfum um margt samsamað okkur þessum mönnum, sem þreyðu í óvissu og myrkri. Andlegur styrkur þeirra, æðruleysi, trú og von er okkur öllum fyrirmynd. Og samstilling allra góðra krafta í landinu að koma þeim til bjargar. Þessa biðjum við Íslandi til handa. Að æðruleysi, trú og von haldist með þjóðinni, og samstilling þeirra sem ráða málum okkar megni að virkja alla góða krafta til bjargar. Allt þarf að haldast í hendur ef vel á að fara.

Á fyrstu dögunum eftir að tekist hafði að bora holu þessa 700 metra niður til þeirra og koma til þeirra vistum, sendi prestur nokkur þeim Nýjatestamenti og Davíðssálma að gjöf, og hafði sérstaklega merkt við 40. Davíðssálminn. Þar segir: „Stöðugt vonaði ég á Drottin og hann laut niður að mér og heyrði ákall mitt. Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr fúafeni, veitti mér fótfestu á kletti og gerði mig styrkan í gangi. Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng til Guðs vors. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni.“ (Sálm40.2-4)

Þessi trú og von varð mönnunum til bjargar. Og verður eins til bjargar öllum þeim, sem finnst þau vera í glötunargröf vonlausra aðstæðna.

Blessað Nýja testamentið og Davíðssálmarnir! Nú um þessar mundir er Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar krefjast þess að lokað verði á það að Gídeonfélagið megi afhenda grunnskólabörnum Nýjatestamentið að gjöf. Á vettvangi skólans skal þeim meinað að kynnast orði vonarinnar, orði lífsins, ritið sem er lykillinn að skilningi á listum og bókmenntum heimsins, og kristinni trú og sið Íslendinga, - og sem grunnskólinn á reyndar að lögum að byggja á og fræða um. Mannréttindaráð Reykjavíkur vill halda þeirri bók fjarri skólabörnum og leggja hana að jöfnu við Kóraninn, auglýsingabæklinga og kynningarefni. Ég trúi því ekki að almenningur vilji una þessu, að foreldrar grunnskólabarna séu sáttir við þetta.

Þegar orð Guðs snertir hjarta og sál, þegar trúin og kærleikurinn hugga í gleði og sorgum fólks, þegar vonin beinir líkams og sálarsjónum til birtunnar, þá er Guð að blessa þennan heim og leiða og laða til sín: Komið, segir hann, allt er tilbúið!

Guð talar, laðar, kallar, lífið vaknar, lækningin veitist, framtíðin opnast. Hið lifandi orð hljómar og er túlkað í söfnuðinum. Fagnaðarerindið er rétt okkur sem gjöf, aftur og aftur, heimboð: Allt er tilbúið! Fyrir þetta stendur Fella og Hólakirkja. Hún er þáttur í samfélagsneti þjóðkirkjunnar sem snertir alla landsmenn með einum eða öðrum hætti. Markmið hennar er „heillir lands og þjóðar menning“ eins og sagt var um fjölnismenn forðum. Við megum aldrei efast um hver rót þeirra heilla og þjóðarmenningar er. Það er Orð Guðs, það er trúin, vonin og kærleikurinn, sem eru móteitur gegn kaldhæðni og hjartakulda og synd og forvörn og leiðarljós á vegi hins góða. Þiggjum það, í Jesú nafni. Amen.